16.12.2019 16:48
Breski togarinn Ross Cleveland H 61 við bryggju í Neskaupstað.
Togarinn Ross Cleveland H 61 og annar til við bryggju í Neskaupstað. (C) Tryggvi Ólafsson.
St. Ross Cleveland H 61 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1949. 659 brl. 900 ha. vél. Smíðanúmer 215. Hét fyrst Cape Cleveland H 61 og var í eigu Hudson Brothers Trawler Ltd í Hull. Fékk svo nafnið Ross Cleveland H 61 árið 1965. Var þá í eigu Ross Group-Hudson Brothers Trawlers Ltd í Hull. Togarinn fórst á Ísafjarðardjúpi 5 febrúar árið 1968. Átján skipverjar fórust en einn skipverji bjargaðist á ævintýralegan hátt.
Tíu erlendir
togarar bilaðir hér
Tveir skemmdust af brotsjó
Mikið var um bilaða erlenda togara í höfnum á Íslandi um
helgina. Fimm lágu í Neskaupstað, þar af tveir sem höfðu fengið á sig brotsjó
og skemmzt. Tveir brezkir togarar leituðu hafnar
á Akureyri og þrír í Reykjavík, og fengu viðgerð.
Fréttaritarinn á Norðfirði símaði: Neskaupstað, 15. febr.
Á laugardag kom hingað brezki togarinn Peter Scott. Hafði hann fengið á sig
brotsjó, er hann var á leið frá Englandi til Íslands. Brotnuðu margar rúður í
brú skipsins. Einnig brotnaði hurð og radar skemmdist eitthvað. Ekki var hinn
margfrægi Robert Taylor með í þessari ferð. Hefur verið gert við skemmdirnar
hér og fer togarinn út á veiðar í dag. Á sunnudag kom svo annar brezkur togari.
Hafði sá einnig fengið á sig brotsjó og hafði skemmzt ýmislegt á þilfari
togarans. Fór viðgerð fram í gær. Seinna á sunnudag komu svo 3 aðrir togarar
hingað, einn þýzkur með veikan mann, en hinir brezkir með bilaðan radar. Alls
voru því fimm erlendir togarar hér í gær, og kemur það ekki oft fyrir, en
algengt er að 2-3 togarar liggi hér í einu. Eru nú allir farnir út á veiðar.
Akureyri, 15. Febrúar:
Tveir brezkir togarar leituðu hafnar hér í gær til viðgerðar. Fyrr kom Peter
Cheyney með lekan ketil, en nú hefur verið gert við hann til fulls. Nokkru
eftir hádegi kom svo Langella frá Hull. Hafði komið leki að netalest um 1 metra
neðan við sjólínu. Ekki er enn fullráðið hvernig gert verður við hann, en
e.t.v. verður togaranum rennt á land og látið fjara undan honum, þegar viðgerð
fer fram. Brezki togarinn Satur kom með bilaða skrúfu til Reykjavíkur og fór í
slipp. Hull City kom á sunnudag með bilun á stýrisvél og Aston Villa með
einhverja smábilun.
Morgunblaðið. 16 febrúar 1965.