28.12.2019 18:25

B. v. Bjarni riddari GK 1. TFHD.

Nýsköpunartogarinn Bjarni riddari GK 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947. 657.brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 1324. Eigandi var Akurgerði h/f í Hafnarfirði frá 3 september sama ár. Hann kom fyrst til heimahafnar í Hafnarfirði hinn 6 september árið 1947, fyrsti nýsköpunartogarinn sem þangað kom. Hann var einn af 8 nýsköpunartogurum sem voru smíðaðir í Selby fyrir okkur íslendinga. Hann átti sér systurskip í þeim flota, Júlí GK 21, báðir með hærri reykháf en hinir, en annars smíðaðir eftir sömu teikningu. Það má til gamans geta þess að útgerðin sótti ekki bara nafn skipsins til Bjarna"riddara"Sívertsen Dannebrogs manns 1763-1833, heldur líka nafn útgerðarinnar, Akurgerði, en það nafn ber hús hans sem hann byggði í Hafnarfirði á árunum 1803-1805 og því 215 ára gamalt. Togarinn var seldur í ágúst 1964, N.D. Lagoutis & Sons í Pyreus í Grikklandi. Var það Stofnlánadeild sjávarútvegsins sem seldi þeim togarann á 925 þús. íslenskar krónur. Fékk nafnið Nicholas og það var sett í hann frystitæki og lestar gerðar að frystilestum. Var í ferðum milli Kanaríeyja og Grikklands með frystar sjávarafurðir. Endalok hans urðu að stranda við Villa Cisnero í Vestur-Sahara og eyðileggjast. Held að það hafi verið árið 1978, en ekki viss.


B.v. Bjarni riddari GK 1 á toginu.                                                                    Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Bjarni riddari GK 1 við komuna til Hafnarfjarðar.                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 "Bjarni riddari" kom s. l. laugardag

Fyrsti nýsköpunartogari Hafnfirðinga kom hingað til lands s. I. laugardagsmorgun. Var það togarinn "Bjarni riddari-GK 1". Hann er eign útgerðarfélagsins Akurgerði, en eigendur þess eru hinir sömu og eiga Haukanes og Óla Garða. Framkvæmdastjóri félagsins er Ásgeir Stefánsson. Nýsköpunartogarinn Bjarni riddari er skírður eftir Bjarna Sívertsen. Hann bjó lengi í Hafnarfirði, að Akurgerði, en það hús er ennþá til, 150 ára gamalt. Í ráði er að reisa Bjarna Sívertsen minnisvarða í Hafnarfirði og hafa félagar Magna lagt fram álitlega fjárupphæð í því skyni. Ráðgert er að "Bjarni riddari" fari til veiða eftir um það bil 10 daga. Unnið er að niðursetningu lýsistækja í hann og- verður því verki væntanlega lokið á þeim tíma. Skipstjóri á togaranum er Baldvin Halldórsson.

Vísir. 8 september 1947.


B.v. Bjarni riddari GK 1 leggst að bryggju í heimahöfn.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

  Bjarni riddari seldur til Grikklands 

Gengið hefur verið frá samningum um sölu Hafnarfjarðartogarans Bjarna riddara til Gríkkland. Það er fyrirtækið N.D. Lagoutis & Sons í Pyreus, sem kaupir skipið af Stofnlánadeild sjávarútvegsins, og var fulltrúi þess hér staddur fyrir nokkrum dögum til að undirbúa kaup skipsins. Hefur fyrirtækið fengið um tveggja vikna frest til að greiða kaupverðið, sem er um 925 þús. ísl. krónur. Guðmundur Valgrímsson, sem haft hefur milligöngu um sölu togarans ,sagði blaðinu í gær, að hinir grísku kaupendur hyggðust breyta togaranum og setja í hann, djúpfrystitæki og hraðfrystilestar til fiskflutninga frá Kanaríeyjum .Taka þeir við honum í því ástandi, sem hann er í nú, en togarinn hefur legið undanfarin þrjú ár og þarf að lagfæra margt um borð áður en hann verður tilbúinn til siglingar suður á bóginn. Koma hingað grískir menn til að vinna við togarann og njóta Þeir aðstoðar íslenzkra aðila til að gera hann siglingafæran. Ef vel gengur, á að sigla togaranum til Pyreus eftir þrjár vikur. Bjarni riddari er einn af nýsköpunartogurunum og var í eigu Akurgerðis h.f. í Hafnarfirði. Hann var sleginn Stofnlánadeild sjávarútvegsins fyrir rúmlega 300 þúsundir króna á uppboði í júní sl. Er Bjarni riddari annar Hafnarfjarðartogarinn sem seldur er grískum kaupendum.

Morgunblaðið. 18 ágúst 1964.


Nicholas ex Bjarni riddari GK 1 í Grikklandi.                                                   Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Bjarni riddari GK 1 á frímerki frá árinu 2010.                                         (C) Frímerki í minni eigu.


Líkan Hermanns Guðmundssonar af Bjarna riddara GK 1.                      (C) Þórhallur S Gjöveraa.

        Hrein lífsnautn að sjá þessi                           skip verða til

Ótrúlega mikil vinna liggur að baki allri módelsmíði, en sérstaklega þeirri smíði þar sem módelsmiðurinn handsmíðar hvern einasta hlut og eftir því sem módelið er minna er handavinnan þeim mun erfiðari. Á sýningu í Hafnarborg í Hafnarfirði þar sem haldið var upp á 80 ára afmæli Hafnarfjarðarhafnar með yfirgripsmikilli og fallegri sýningu í glæsilegu húsi, voru 3 skipslíkön eftir Hermann Guðmundsson í Hafnarfirði, fyrrverandi alþingismann og verkalýðsleiðtoga. Þessi þrjú líkön hefur Hermann smíðað á nokkrum áratugum í ígripum. Á elsta líkaninu byrjaði hann 1946, en það yngsta lauk hann við skömmu fyrir jól. Auk þessara þriggja skipslíkana, sem eru einstök listasmíð og tvö þeirra aðeins um 30 sm löng, þá hefur Hermann einnig smíðað víkingaskip, útfært eftir hans eigin hugmynd. Morgunblaðið ræddi við Hermann um módelsmíði hans.
Ég byrjaði þessa áráttu með því að leggja í að smíða Bjarna riddara áður en hann kom til landsins árið 1947, og reyndar var enginn nýsköpunartogaranna kominn til landsins. Bjarni riddari var fyrsti nýsköpunartogarinn sem kom til Hafnarfjarðar, en sá fyrsti sem kom til landsins var Ingólfur Arnarson og mér var boðið að skoða hann sem þáverandi alþingismanni. Ég sá þá að mörgu þurfti að breyta í módelinu frá því sem ég hafði gert og gerði það. Síðar seldi ég líkanið eigendum Bjarna riddara, en þegar Bjarni riddari var seldur úr landi til Grikklands árið 1964, þá afhentu eigendur Bjarna mér líkanið og sögðu að ég mætti hafa það svo lengi sem ég tórði. Það er nú geymt á Sjóminjasafninu. Bjarni riddari var notaður til farþega- og vöruflutninga í Grikklandi og af honum veit ég ekki meir, en þar hlaut hann nafnið Nicklas.

Morgunblaðið. 19 febrúar 1989.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30