10.01.2020 11:56

1317. Engilráð ÍS 60. TFAB.

Vélbáturinn Engilráð ÍS 60 var smíðaður í skipasmíða & Trésmiðju Guðmundar Lárussonar hf á Skagaströnd fyrir Fjarka hf (Halldór Hermannsson) á Ísafirði. Eik og fura. 30 brl. 240 ha. Dormann vél, 170 Kw. Ný vél (1979) 265 ha. Cummins vél, 195 Kw. Seldur 24 október 1981, Friðgeiri Höskuldssyni á Drangsnesi, hét þá Grímsey ST 2. Ný vél (1987) 305 ha. Cummins vél, 224 Kw. Frá 24 júlí 1997 hét báturinn Grímsey ll ST 102. Seldur árið 2000, Röst ehf í Stykkishólmi, hét Röst SH 134, með heimahöfn í Grundarfirði. Báturinn sökk um 2 sjómílur suðvestur af Svörtuloftum á Snæfellsnesi 19 mars árið 2003. Áhöfnin, 2 menn komust með herkjum í annan gúmmíbjörgunarbátinn og var síðan bjargað um borð grænlenska loðnuveiðiskipið Siku GR 18-1, en skipstjóri þess var Norðfirðingurinn Helgi Jóhannsson. Það var síðan björgunarskipið Björg sem fór með mennina til hafnar á Rifi.


1317. Engilráð ÍS 60 við bryggju á Ísafirði.                                                Ljósmyndari óþekktur.

                  Engilráð ÍS 60

Í júnímánuði afhenti Skipasmíðastöð Trésmiðju Guðmundar Lárussonar h.f. Skagaströnd nýsmíði nr. 7 og hlaut skipið nafnið Engilráð ÍS 60. Skipið er eign Fjarka h.f. Ísafirði. Skipið er 30 rúmlesta eikarfiskiskip með lúkar fremst, þar sem eru hvílur fyrir 5 menn, auk eldunaraðstöðu; þar fyrir aftan fiskilest með kælingu og uppstillingu úr áli og vélarúm aftast. Fremst í fiskilest er ferskvatnsgeymir, en brennsluolíugeymar í vélarúmi, út við síður. Yfir vélareisn er þilfarshús úr stáli, sem skiptist í stýrishús fremst, en þar fyrir aftan er salerni og skipstjóraklefi. Til hliðar og aftan við þilfarshús er lokað skýli úr áli, sem mögulegt er að taka burt. Skýlið er notað við línuveiðar, en í bátinn var sett færeysk línuvélasamstæða.
Á togveiðum (rækjuveiðum) er meginhluti skýlisins fjarlægður og komið fyrir toggálga (skuttog) aftast á þilfari. Togvinda skipsins er staðsett aftan við þilfarshús. Aðalvél er Dorman, gerð 6LDTCWM, 240 hö. við 1800 sn./mín., tengd niðurfærslugír (3:1) og skrúfubúnaði. Skrúfa skipsins er 3ja blaða með 1040 mm þvermáli. Rafall á aðalvél er Transmotor ACG, 6.3 KW. Ljósavél er Petter, gerð PH 2 W, 12.5 hö. við 1500 sn./mín. og við hana 6.3 KW Transmotor ACG rafall. Fyrir kælikerfi er 2 KVA "omformer" frá Transmotor. Rafkerfi skipsins er 24 volta jafnstraumur. Stýrisvél er frá Sharp. Vindubúnaður er vökvaknúinn (háþrýst kerfi) frá Rapp og samanstendur af togvindu, gerð CW 460/80; línuvindu gerð LS 240; losunarvinda, gerð LW 80; bómuvinda BSW-80 og kraftblökk, gerð 19 R. Fyrir utan ofangreindar vindur er skipið búið 7 rafknúnum Elektra færavindum. Ein tvöföld Vickers dæla, tengd við aflúttak framan á aðalvél, er fyrir vindukerfið. Línuvélasamstæða sú, þ. e. beitninga- og uppstokkunarvél, sem sett hefur verið í skipið er sú fyrsta af þessari gerð, sem reynd er í íslenzku skipi og er þessari samstæðu lýst í 2. tbl. Ægis 1973. Helstu siglinga-, fiskileitarog fjarskiptatæki eru: Ratsjá: Kelvin Hughes, gerð 17, 36 sml. kýptarmælir:Koden SRM-871- A. Miðunarstöð: Koden KS 510. Talstöð: Sailor T121/R104, 140 W SSB. Örbylgjustöð: Sailor RT142/ 29. Sjálfstýring: Sharp Helsman. Skipstjóri á Engilráð ÍS er Óskar Jóhannesson, en framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Halldór Hermannsson.
Stærð skipsins 30 brl.
Mesta lengd 17.40 m.
Lengd milli lóðlína 15.60 m.
Breidd (mótuð) 4.32 m.
Dýpt (mótuð) 2.00 m.
Brennsluolíugeymar 4.00 m.3
Ferskvatnsgeymar 0.60 m.3
Hraði í reynslusiglingu 9.8 sjómílur.

Ægir. 19 tbl. 1 nóvember 1973.

   Tilraunir með færeysku beitninga
             og stokkunarvélina

Þann 10. júlí s l., hófum við veiðar á nýsmíðuðum 30 lesta bát, Engilráð ÍS 60, með Færeyskri beitninga- og uppstokkunarvél. Töluverðir byrjunarörðugleikar voru fyrsta mánuðinn, sem löguðust verulega þegar fram í sótti. Úthaldið stóð til 20. september og hafði þá fiskast um 67 lestir, 13.210 kg. í júlí, 25.620 í ágúst og 27.380 kg. í september. áhöfnin var 4 menn, og stunduð útilega, vanalegast um 3 sólarhringa í senn. Lagðar voru 45-50 lóðir tvisvar á sólarhring alls um 95-100 lóðir (100 króka), 45 lóðir voru vanalegast lagðar á 45 mín. og okkur tókst að draga um 12 lóðir á klst. með því að nota uppstokkunarvélina. Beitningavélin virtist skila um 70% af beittum önglum í sjó, er það nokkru minna en gert var ráð fyrir. Beitt var bæði smokk og makríl. Hér er á ferðinni athyglisverð uppfinning fyrir smærri báta, þótt enn þá sé þetta nokkuð ungt og á greinilega fyrir sér endurbætur.
Einn hluti þessarar vélasamstæðu er tæki sem snýr ofan af taumum og tekur beitu af önglum um leið og dregið er ofan í bala, og er þá hægt að draga svo hratt sem þörf er á. Reynslan sýndi okkur að þar er á ferðinni tæki, sem létta mun beitningarmönnum vinnuna til muna, enda hefur það fengið ágæta reynslu undanfarin 2 ár um borð í þremur færeyskum útilegubátum. Forsvarsmenn fyrirtækisins Haviðnaður í Færeyjum hafa tjáð okkur að þeir vinni stöðugt að endurbótum á vélasamstæðunni og þess verði ekki langt að bíða að hún eigi eftir að skila mun betri árangri. 

Halldór Hermannsson.

Ægir. 19 tbl. 1 nóvember 1973.


1317. Engilráð ÍS 60 sennilega nýsmíðaður að koma til Ísafjarðar.                Ljósmyndari óþekktur.

          Vélbáturinn Röst SH frá                              Stykkishólmi
      sökk vestur af Snæfellsnesi

Tveir menn björguðust er 30 tonna bátur, Röst SH-134 frá Stykkishólmi, sökk um eina sjómílu suðvestur af Svörtuloftum á Snæfellsnesi á sjötta tímanum í gær. Áhöfn grænlensk-íslenska loðnuskipsins Siku bjargaði mönnunum um borð úr öðrum af tveimur björgunarbátum sem þeir höfðu náð á flot þegar báturinn fylltist af sjó á svipstundu og sökk. Loðnuskipið Sighvatur Bjarnason var á svipuðum slóðum í loðnuleit og tók hinn björgunarbátinn upp. Björgunarskipið Björg frá Rifi kom til móts við Sighvat og Siku og sigldi með mennina og björgunarbátana til hafnar á Rifi. Mennina sakaði ekki en þeir eru frændur; Gestur Már Gunnarsson, rúmlega fimmtugur, og Bergsveinn Gestsson, móðurbróðir hans á sjötugsaldri, báðir búsettir í Stykkishólmi. Er þeir komu í land sögðu þeir fréttaritara Morgunblaðsins að þeir hefðu verið á leið með trilluna til nýrra eigenda í Reykjavík þar sem búið var að selja hana. Vildu þeir að öðru leyti ekki tjá sig þá.
Er klukkuna vantaði átta mínútur í fimm í gær heyrði flugvél í neyðarsendi við Snæfellsnes og eftir athugun Tilkynningarskyldunnar kom í ljós að einn bátur hafði ekki tilkynnt sig á þessu svæði. Skömmu síðar voru kallaðar út björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Snæfellsnesi ásamt björgunarskipi frá Rifi, þyrlu Landhelgisgæslunnar og flugvél Flugmálastjórnar.
Björgunarskip frá Sandgerði var einnig til taks þar sem staðsetning neyðarsendingar var óljós í fyrstu. Flugvél Flugmálastjórnar staðsetti svo tvo gúmbjörgunarbáta við Svörtuloft kl. 17.50 og tólf mínútum síðar voru mennirnir komnir úr öðrum bátnum um borð í Siku, heilir á húfi. Var Gæsluþyrlunni, TF-LÍF, þá snúið til Reykjavíkur. Helgi Jóhannsson, skipstjóri á Siku, sagði við Morgunblaðið að mjög vel hefði gengið að koma mönnunum um borð. Hann hefði séð til neyðarblysa og ekki ætlað í fyrstu að trúa þeirri sjón sökum þess að vel hefði viðrað á þessum slóðum í gær. "Við settum stefnuna strax á þann stað sem við sáum blysin fara á loft og sáum fljótlega til björgunarbátanna," sagði Helgi og taldi sjó hafa verið frekar þungan fyrir smærri báta eins og Röstina. "Þetta er minn stærsti dagur á loðnuvertíðinni og er ég búinn að vera í þessu frá árinu 1966," sagði Helgi, glaður í bragði yfir því að hafa bjargað mönnunum heilum á húfi. Fengu þeir að borða hjá kokkinum á Siku áður en björgunarskipið Björg sótti þá og kom þeim í land á Rifi.
Samkvæmt því sem bátsverjarnir sögðu Helga fylltist Röstin af sjó á svipstundu, svo snöggt að þeir hefðu ekki náð í stýrishúsið til að kveikja á neyðarsendinum. Hins vegar hefðu björgunarbátarnir skotist út og þeir náð að komast um borð í annan þeirra og kveikt þar á neyðarsendi og skotið upp blysum. Röst SH var sem fyrr segir 30 tonna bátur, smíðaður á Skagaströnd fyrir þrjátíu árum og breytt lítillega þremur árum síðar.
Báturinn hét áður Grímsey ST og þar áður Engilráð ÍS. Jón Eyfjörð, skipstjóri um borð í Sighvati Bjarnasyni, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki hafa séð tangur né tetur af Röst er þeir komu að björgunarbátunum tveimur. Ekkert brak hefði verið að sjá á sjónum en björgunarbátana hefði verið farið að reka að landi. "Mestu skiptir að allt fór á besta veg," sagði Jón.

Morgunblaðið. 20 mars 2003.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30