23.01.2020 12:34

1397. Sólberg ÓF 12. TFFT.

Skuttogarinn Sólberg ÓF 12 var smíðaður hjá S.I.C.C. Na. Chantiers Navals í Saint Malo í Frakklandi árið 1974 fyrir útgerðarfélagið Sæberg hf á Ólafsfirði. 500 brl. 1.800 ha. Crepelle PSN SSR, 1.324 Kw. Frá árinu 1997 er skipið í eigu Þormóðs ramma-Sæbergs hf á Siglufirði (eftir sameiningu fyrirtækjanna). Ný vél (2000) 1.800 ha. Deutz vél, 1.620 Kw. Frá árinu 2001 heitir skipið Sólberg SI 12. Selt árið 2005, Frigorifico Pesquera Del Uruquay S.A. í Montevido í Uruquay, hét þar Sólberg MAT-8219. Skipið brann og sökk í höfn í Montevideo og eyðilagðist. Sólbergið átti systurskip hér á landi, en það var 1410. Dagrún ÍS 9 frá Bolungarvík. Held að hún hafi einnig endað út í Uruquay.

Heimild: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


1397. Sólberg ÓF 12.                                                                             Ljósmyndari óþekktur.

        Ólafsfirðingar hafa fengið                              nýjan togara

Ólafsfjörður 20. sept.
Klukkan 18 í gærkvöldi kom til heimahafnar í Ólafsfirði nýr skuttogari frá Frakklandi, Sólberg ÓF 12, eign Sæbergs hf. í Ólafsfirði. Skipið hafði viðkomu í Noregi á heimsiglingu. Sólbergi var fagnað með því að fánar voru dregnir að húni í kaupstaðnum og fólk safnaðist saman á hafnargarðinum. Þar flutti séra Birgir Ásgeirsson ávarp og blessunarorð yfir skipi og skipshöfn. Bæjarstjórinn, Ásgrímur Hartmannsson, bauð skip og skipshöfn velkomin til heimahafnar og þakkaði eigendum þann stórhug, sem þeir sýndu með kaupum á þessu glæsilega skipi. Sigvaldi Þorleifsson þakkaði móttökurnar fyrir hönd eigenda og lýsti skipinu, sem er glæsilegt að útbúnaði og öllum frágangi.
Togarinn var smíðaður í Siccna í St. Malo í Frakklandi og er þetta fyrsta skipið sem er smíðað fyrir íslendinga í Frakklandi. Sólberg er 496 lestir að stærð, 50,80 metrar að lengd og 10,30 metrar á breidd. Aðalvél skipsins er Crepell 1800 hestöfl, en ljósavélar af Boduangerð. Vindur eru rafknúnar, nema flotvörpuvindan, sem er vökvaknúin. Fiskileitartæki eru öll af nýjustu gerð frá Simrad. Fiskilestar eru úr heilsoðnu stáli, búnar skilrúmum og losanlegum styttum, ef kassanotkun er æskilegri. Þá er í skipinu ísframleiðsluvél og ísdreyfingarkerfi frá Finsam-verksmiðjunum norsku. Afkastageta er 10 lestir á sólarhring. Helzta nýjungin í skipinu er svokallaður stýrisskrúfuhringur, sem eykur togkraft skipsins og snúningsgetu.
Skipstjóri á Sólberg er Björn Kjartansson, 1. stýrimaður Kjartan Eiðsson og 1. vélstjóri Jón Þorvaldsson. Stjórn Sæbergs hf. skipa þeir Ásgeir Ásgeirsson, Jón Þorvaldsson og Sigurður Guðmundsson, en framkvæmdastjóri er Gunnar Þór Sigvaldason. Skipið mun halda til veiða eftir nokkra daga.

Morgunblaðið. 24 september 1974.


1397. Sólberg ÓF 12 í höfn á Ólafsfirði.                                                (C) Sveinn Magnússon.


1410. Dagrún ÍS 9, systurskip Sólbergs.                                                   Ljósmyndari óþekktur.


Sólberg sokkið eftir brunann í höfninni í Montevideo í nóvember 2010. (C) Óskar Franz Óskarsson.

                Sólberg  ÓF 12

19. september sl. bættist annar skuttogari í flota Ólafsfirðinga með tilkomu Sólbergs ÓF 12, en á sl. ári eignuðust Ólafsfirðingar sinn fyrsta skuttogara, en það var Ólafur Bekkur ÓF. Skuttogarinn Sólberg ÓF er byggður í Frakklandi hjá skipasmíðastöðinni S. I. C. C. Na. Chantiers Navals í Saint Malo og er smíðanúmer stöðvarinnar nr. 136. Þetta er fyrsti skuttogarinn sem byggður er fyrir íslendinga í Frakklandi. Eigandi skuttogarans er Sæberg h. f. Ólafsfirði.
Rúmlestatala 500 brl.
Mesta lengd 50.73 m.
Lengd milli lóðlína 42.90 m.
Breidd milli lóðlína 10.30 m.
Dýpst að efra þilfari 7.15 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.90 m.
Lestarrými 440 m3.
Brennsluolíugeymar 148 m3.
Ferskvatnsgeymar 39 m3.
Lifrargeymir 12 m3.
Ganghraði (reynslusigling) 14.5 sjómílur.

Ægir. 20 tbl. 1 desember 1974.








Flettingar í dag: 568
Gestir í dag: 62
Flettingar í gær: 2218
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 1193188
Samtals gestir: 83737
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 14:26:58