03.02.2020 18:13
546. Haraldur SH 123. TFDS.
Nýjum bát
hleypt af stokkunum
Eins og fyrr hefur verið frá skýrt hafa Skipaviðgerðir h.f.
undanfarna mánuði unnið að smíði fiskibáts, en smíði bátsins fór að öllu leyti
fram inni í húsi því, sem fyrirtækið hefur til umráða í Friðarhöfn. Var
báturinn, sem hlotið hefur nafnið Haraldur SF 70, settur á flot fyrra sunnudag
að viðstöddu fjölmenni. Haraldur er 36 lestir að stærð, frambyggður. 230 ha.
Rolls Royce vél er í bátnum, sem búinn verður öllum nútímatækjum fiskibáta. Er
verð bátsins áætlað um 2,5 milljónir króna. Það er Gústav Sigjónsson, sem
staðið hefur að smíði Haraldar, en samnefnt hlutafélag á Hornafirði er eigandi
bátsins, og verður hann væntanlega gerður þaðan út. Yfirsmiður bátsins hefur
Ólafur Jónsson verið, en hann ásamt Bárði Auðunssyni og Eggert Ólafssyni,
skipasmiðum, eru eigendur og forráðamenn Skipaviðgerða h. f. Vonandi verður
þessi fallega fleyta til þess að áfram verður haldið með skipasmíðar hér, en
eins og kunnugt er, eru skipasmiðir hér orðlagðir fyrir vandvirkni og góða
vinnu, enda bátar þeir, sem hér hafa verið byggðir og teiknaðir, yfirleitt
reynzt mjög vel.
Fylkir. 30 mars 1962.
Haraldur SF 70 nýsmíðaður í Vestmannaeyjum árið 1962. (C) Þórarinn Ölversson.
Leitin að
Haraldi hefur engan árangur borið
Tveir menn eru á bátnum
Bátar sem leita Haralds SH 123 fundu í gær brak á reki, ekki
fjarri þeim stað sem síðast heyrðist til bátsins. Meðal þess sem fannst var
lestarborð, en í gærkvöldi var ekki búið að kveða upp úr um, úr hvaða skipi
brakið væri. Á Haraldi eru tveir menn, Bragi Magnússon og Benedikt Gunnarsson.
Þeir eru báðir um þrítugt, búsettir á Grundarfirði. Í gær leituðu 25 skip að
Haraldi, auk þess flugvél Landhelgisgæzlunnar TK-SYN og fjölmennir flokkar úr
björgunarsveitum Slysavarnafélagsins á Snæfellsnesi gengu fjörur, en leit bar
engan árangur. Það var um kl. 20.45 í fyrrakvöld. sem síðast er vitað um
Harald. Þá hafði Grundfirðingur SH samband við Harald, og var báturinn þá
staddur um 7 sjómílur NV af Öndverðarnesi og var á heimleið. Var þá allt í
stakasta lagi um borð. Veður á þessum slóðum var þá frekar slæmt, stóð vindur
af ANA, 7-8 vindstig, en að sögn manna ekki mjög þungt í sjó. Eftir
veðurfréttir kl. 22.15 kallaði skipstjóri Grundfirðings á ný í Harald, en þá
svaraði báturinn ekki, en þá áttu að vera 8-10 sjómílur á milli bátanna og
Haraldur átti að vera í höfn upp úr kl. 23. Þegar báturinn kom ekki til hafnar
á réttum tíma, var farið að spyrjast fyrir um hann og haft samband við
Slysavarnafélagið. Upp úr miðnætti var hafin leit og lagði þá fjöldi báta af
stað til leitar frá höfnum á Snæfellsnesi og skip sem voru á nálægum slóðum. Á
sama tíma voru meðlimir björgunarsveita Slysavarnafélgsins kallaðir út til
leitar og var strax byrjað að ganga fjörur. Leitin að Haraldi var mjög
skipulögð í gær og leituðu þá 25 skip, eins og fyrr segir. Var leitinni
stjórnað frá rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni, þá fór flugvél
Landhelgisgæzlunnar TF SYN í loftið kl. 8.45 í gærmorgun og Ieitaði í allan
gærdag, og björgunarsveitarmenn gengu fjörur frá Grundarfirði að Skarðsvík, og
reyndar allt suður á Svörtuloft. Eins og að framan greinir, voru 7-8 vindstig á
Breiðafirði þegar síðast heyrðist til Haralds, en er leið á nóttina lægði og í
gær voru í kringum 5 vindstig á þessum slóðum. Bátar sem voru í leitinni fundu
í gær nokkurt brak á reki. Meðal annars fann Fanney SH lestarborð á reki, en
eins og fyrr segir var í gærkvöldi ekki búið að kveða upp úr um, hvort borðið
væri úr Haraldi eða einhverju öðru skipi.
Haraldur SH 123 er 29 tonn að stærð, byggður árið 1962 í Vestmannaeyjum.
Haraldur SF 70 í prufusiglingu á Vestmannaeyjahöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Haraldur SH 123 sokkin í Grundarfjarðarhöfn. (C) Morgunblaðið.
Haraldur
talinn af
Báturinn Haraldur SH 123 er nú talinn af. Með honum fórust
tveir menn. Bragi Þór Magnússon fæddur 1949, lætur eftir sig eiginkonu og
fjögur börn og Benedikt Gunnlaugsson fæddur 1943, lætur eftir sig eiginkonu,
eitt barn og þrjú uppkomin stjúpbörn. Þeir voru báðir búsettir í Grundarfirði.
Vísir. 14 nóvember 1977.