06.02.2020 20:27

26. Járngerður GK 477 sekkur.

Togskipið Járngerður GK 477 var smíðað hjá V.E.B. Schiffswerft í Stralsund í Austur-Þýskalandi árið 1959 fyrir Útgerðarfélag Dalvíkinga hf. Hét fyrst Björgúlfur EA 312. 249 brl. 800 ha. MWM vél. Selt 26 nóvember 1973, Hópsnesi hf í Grindavík, fékk þá nafnið Járngerður GK 477. Skipið sökk út af Jökulsá á Breiðamerkursandi 16 febrúar árið 1975. Járngerður var komin með um 200 tonn í lestarnar sem skipið fékk út af Ingólfshöfða, en fékk svo mikinn halla í stjórnborða. Ekkert var hægt að gera til að rétta skipið og sökk það skömmu síðar. Áhöfnin, 13 menn komust í björgunarbáta og var þeim síðan bjargað um borð í vélskipið Þorstein RE 303 sem fór með þá til Seyðisfjarðar.


26. Járngerður GK 477 að sökkva út af Breiðamerkursandi.                   Ljósmyndari óþekktur.


Járngerður GK 477 við það að leggjast á hliðina og hverfa í djúpið.             Ljósmyndari óþekktur.


Skipið marar í hálfu kafi og ekki langt eftir að það sekkur.                               Ljósmyndari óþekktur.

                "Bilun í lestinni "
  sagði Birgir Guðjónsson skipstjóri       á Járngerði, sem sökk í fyrradag

Loðnuskipið Járngerður GK 477 frá Grindavfk sökk skammt undan Jökulsá á Breiðamerkursandi í fyrrakvöld, en þá höfðu skipverjar yfirgefið skipið fyrir nokkru eftir að hafa árangurslaust reynt að rétta það við, er mikill halli kom að skipinu fyrr um daginn. Skipverjum var bjargað yfir í Þorstein frá Reykjavík og fór Þorsteinn með skipbrotsmennina til Seyðisfjarðar, þaðan komu þeir svo til Reykjavíkur um kl. 20.30 í gærkvöldi, allir í þeim fötum sem þeir voru í er hallinn kom að skipinu, Við komuna til Reykjavíkur náðum við tali af skipstjóra skipsins, Birgi Guðjónssyni, og spurðum hann nánar um atburðinn.
"Við vorum á leið til Austfjarða með 170-180 tonna afla, sem við fengum austan við Ingólfshöfða. Við vorum í samfloti með Þorsteini frá Reykjavík og þegar við vorum búnir að sigla í SA þrjá stundarfjórðunga hallaði skipinu skyndilega á stjórnborða og eftir það rétti það sig aldrei. Þegar þetta gerðist vorum við á móts við Hrollaugseyjar og ætluðum okkur alltaf að fara innan við þær." - Veistu hver ástæðan var fyrir þessum skyndilega halla? "Ekki með vissu, en að líkindum hefur eitthvað bilað í lestinni, sem tók um 200 lestir, ef hún var full." - Var hallinn mikill í upphafi? "Ekki mjög mikill, sennilega 20-30 gráður. Við reyndum strax að rétta skipið af en það gekk ekki og jókst hann stöðugt. Þegar hann var orðinn um 45 gráður nam sjórinn við brúarvænginn og þá þorðum við ekki annað en að yfirgefa skipið." - Hvernig gekk það? "Það gekk ágætlega að fara í gúmmíbjörgunarbátana og eftir skamma stund vorum við komnir um borð í Þorstein, þar sem vel var tekið á móti okkur. Þegar við komum um borð í Þorstein hefur sennilega verið liðin klukkustund frá því að skipið fór á hliðina. Guðbjörn Þorsteinsson skipstjóri á Þorsteini hélt skipi sínu nálægt Járngerði í nokkurn tíma, en þá gerði skyndilega versta veður af vestri og komst vindhraðinn víst í ein 12-14 vindstig. Það síðasta, sem við sáum til Járngerðar, var að skipinu hallaði orðið yfir 70 gráður í stjór."
Á Járngerði var 13 manna áhöfn og við spurðum Birgi hvort þeir væru farnir að hugsa eitthvað um hvað væri framundan. Hann sagði að ekki hefði gefizt tími til þess enn, en bað Mbl. að koma þakklæti þeirra á framfæri til skipstjóra og áhafnar á Þorsteini og þeirra skipa, sem héldu sig í nánd við Járngerði. Björgunarskipið Goðinn fann Járngerði snemma í gærmorgun, þar sem skipið var sokkið úti fyrir Breiðamerkursandi.
Járngerður var smíðuð í Austur-Þýzkalandi árið 1959 og var 230 tonna stálskip eða einn af "tappatogurunum" svonefndu. Skipið var áður gert út frá Dalvík og hét þá Björgúlfur. Núverandi eigandi skipsins var Hópsnes hf. í Grindavík og þess má geta að þetta sama útgerðarfyrirtæki varð fyrir því óhappi að missa annað skip sitt í innsiglingunni í Grindavík eigi alls fyrir löngu.

Morgunblaðið. 18 febrúar 1975.


Áhöfnin á Járngerði GK 477. Á innfeldu myndinni má sjá skipið sigla út úr Vestmannaeyjahöfn í sína síðustu veiðiferð.        (C) Morgunblaðið.



26. Björgúlfur EA 312.                                                               (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

       Björgúlfur nýtt Dalvíkurskip

Fyrra sunnudag kom nýtt togskip af austur-þýzkri gerð til Dalvíkur. Heitir það Björgúlfur og er eign Útgerðarfélags Dalvíkur. Helgi Jakobsson, skipstjóri, sigldi skipinu upp og verður með það á togveiðum fram að síldarvertíð, en þá mun Bjarni Jóhannesson, áður skipstjóri á Snæfelli, halda því á síldveiðar. Skip þetta er 250 smálestir að stærð, af sömu gerð og Björgvin fyrra skip sama félags. Dalvíkingar fögnuðu hinu nýja skipi með viðhöfn.

Íslendingur. 29 apríl 1960.




Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30