13.02.2020 17:23

469. Guðbjartur Kristján ÍS 268. TFSI.

Vélskipið Guðbjartur Kristján ÍS 268 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1961 fyrir Eyr hf á Ísafirði. Eik. 86 brl. 310 ha. Alpha vél. Hét Dan ÍS 268 frá árinu 1964, sömu eigendur. Seldur 20 ágúst 1969, Borgey hf á Höfn í Hornafirði, hét Hvanney SF 51. Ný vél (1971) 500 ha. Alpha vél. Frá 25 apríl 1975 hét báturinn Lyngey SF 61, sömu eigendur og áður. Seldur 11 maí 1978, Sverri Guðnasyni á Höfn í Hornafirði, hét þá Andri SF 50. Seldur 19 nóvember 1979, Ólafi Svani Gestssyni og Jóni Inga Pálssyni á Höfn í Hornafirði, hét þá Hafnarey SF 36. Seldur 24 maí 1983, Jóni Hafdal Héðinssyni, Gísla Páli Björnssyni og Elínu Kristjönu Þorvaldsdóttur á Höfn í Hornafirði, sama nafn og númer. Skipið sökk eftir að skuttogarinn Þórhallur Daníelsson SF 71 bakkaði á það við bryggju á Höfn 13 janúar árið 1986. Hafnarey SF var talin ónýt eftir þetta.

Hafnarey SF 36 náðist upp seinna og var síðan seld í maí, sama ár til Keflavíkur. Það er af togaranum Þórhalli Daníelssyni SF 71 að segja að hann sökk þarna í höfninni líka og urðu gífurlegar skemmdir á togaranum og tók nokkurn tíma að gera við þær.


469. Guðbjartur Kristján ÍS 268 á landleið með fullfermi af síld.                    Ljósmyndari óþekktur.

                   Nýtt fiskiskip

Fimmtudaginn 3. þ.m. kom til bæjarins nýtt fiskiskip er hlotið hefur nafnið Guðbjartur Kristján, ÍS 268. Þessi bátur er byggður í Frederikssund í Danmörku. Hann er 86 smálestir, með 310 ha. Alfavél, og er búinn öllum nýjustu siglinga- og öryggistækjum. Í honum eru og fiskileitartæki af fullkomnustu gerð. Eigandi skipsins er Eir h.f. á Ísafirði. Skipstjóri verður Hörður Guðbjartsson. Framkvæmdasjóri félagsins er Baldur Jónsson.

Ísfirðingur. 9 ágúst 1961.

      Milljóna tjón á Höfn í Hornafirði

              Togarann rak á land og                                   80 lesta bátur sökk 

Milljóna tjón varð á Höfn í Hornafirði í gær, er togarinn Þórhallur Daníelsson SF 71 slitnaði frá bryggju. Togarann rak á 80 lesta trébát, sem sökk og lagðist togarinu síðan á hliðina á leirflákum við Óslandið og hálffylltist af sjó. Trébáturinn, Hafnarey SF 36 er talinn ónýtur og togarinn talsvert skemmdur. Tryggingamat Hafnareyjar er 16 til 17 milljónir króna. Engin slys urðu á mönnum.
Óhapp þetta átti sér stað síðdegis er verið var að færa togaranna að bryggjunni við frystihúsið til að taka ís. Mjög hvasst var af norðaustri, allt að 12 vindstig. Er togarinn var kominn að bryggjunni og tógum komið í land, kom mikil hviða og sleit hann lausan. Vélin var tengd bakkgír og við þetta lenti skipið þvert yfir höfnina á nokkurri ferð án þess að tækist að aftengja vélina og á Hafnareyna miðja, þar sem hún lá við viðlegukant við Óslandið beint á móti frystihúsinu. Hafnarey brotnaði illa og sökk á örskömmum tíma. Þórhall Daníelsson rak síðan undan vindinum upp á leirflákana þar sem hann lagðist á hliðina. Nokkrir skipverja voru um borð, en engan þeirra sakaði og komust þeir klakklaust á þurrt. Vegna veðurs reyndist ekki unnt að kanna skemmdir á skipunum fyllilega og ókleift að hefja björgun þeirra.
Hermann Hansson, stjórnarformaður Borgeyjar, sem gerir togarann út, sagði í samtali við Morgunblaðið, að óhapp þetta væri mjög tilfinnanlegt því togarinn væri mjög mikilvægur hráefnisöflun á staðnum. Hann sagði skemmdir óljósar og vildi að öðru leyti ekki tjá sig um atburðinn. Jón Hafdal, eigandi Hafnareyjar, sagði skipið hafa sokkið á mjög skömmum tíma, enda virtist hafa komið stórt gat á það. Það væri nú nánast alveg í kafi og engin leið að kanna skemmdir. Sér virtist þó ólíklegt að skipið færi á sjó að nýju. Hann sagði Hafnareyna tryggða fyrir 16 til 17 milljónir króna og tjónið því mjög tilfinnanlegt. Hann hefði keypt skipið fyrir tveimur árum og meðal annars hefði verið nýbúið að endurnýja siglinga- og stjórntæki í brúnni. Áhöfnin hefði um þessar mundir verið að búa skipið á vertíð og ætlunin hefði verið að byrja um mánaðamótin. Hvað framundan væri, sagði hann alveg óljóst, en taldi erfitt að fá annað skip í staðinn.
Þórhallur Daníelsson er skuttogari smíðaður í Noregi 1975, 299 lestir að stærð. Hann hét áður Erlingur. Hafnarey er trébátur, 81 lest að stærð og byggð í Danmörku 1961. Hún hét áður Andri.

Morgunblaðið. 14 janúar 1986.


469. Hafnarey SF 36 og togarinn Þórhallur Daníelsson SF 71 sokkin í höfninni í Höfn í Hornafirði 14 janúar árið 1986. (C) Morgunblaðið.


1449. Þórhallur Daníelsson SF 71. Smíðaður í Noregi árið 1975, hét fyrst Erlingur GK 6 og var í eigu útgerðarfélagsins Fjörður í Garði. 299 brl. 1.800 ha. Wichmann vél, 1.324 Kw. Togarinn var seldur 14 ágúst 1992, Snorra Snorrasyni útgerðarmanni á Dalvík, hét þá Baldur EA 71. Selt til Nýja-Sjálands 19 nóvember 1993, hét þar Baldur og var notað sem gripaflutningaskip.   (C) Þór Jónsson.

          Sjónarvottar um sjóslysið í                                Hornafjarðarhöfn:

   "Rosalegt högg, feiknarlegt brak og brestir"
  þegar togarinn sigldi á Hafnarey við bryggju
         og sökkti henni á fáum mínútum

Jón Hafdal, skipstjóri og annar eigandi Hafnareyjar SF 36, naut þess út í æsar að liggja í heitu baði heima hjá sér á Höfn upp úr klukkan fimm á mánudaginn "með bara hausinn upp úr", eins og hann orðaði það, þegar síminn hringdi: Hafnareyin var sokkin í höfninni. Um tíu mínútum síðar var Jón kominn niður að viðlegukantinum, þar sem hann hafði skilið við bátinn í austan rokinu fyrr um daginn, "og þá var hún eins og ég í baðinu, bara hausinn upp úr," sagði Jón. Nokkrum metrum vestar lá togarinn Þórhallur Daníelsson SF á hliðinni með stefnið á kafi í sjó og skutinn upp í Óslandsfjöruna. "Þetta var rosaleg tilfinning," sagði Jón þegar hann og meðeigandi hans, Gísli Páli Björnsson vélstjóri, ræddu við blaðamann Morgunblaðsins á bryggjukantinum í gærmorgun. 
"Ég vaknaði aftur í nótt og hélt þá að þetta væri einhver vitleysa. Þetta gæti bara ekki verið. Maður átti frekar von á dauða sínum en að báturinn sykki hér í höfhinni." "Það er erfitt að skilja að þetta geti gerst hér," bættí Gísli við. "Hér í höfninni gárar eiginlega aldrei sjó. Þetta hefur verið röð af óhöppum, hvert öðru afleitara." Þeir félagar keyptu Hafnareyna í maí 1983 og hafa síðan unnið hörðum höndum ásamt fjölskyldum sínum að því að borga hana niður. "Konurnar og börnin hafa tekið fullan þátt í því með okkur að komast yfir bátinn," sögðu þeir, "og þetta hefur gengið alveg þokkalega með mikilli vinnu. Okkur hefur tekist að standa í skilum, en við höfum ekki farið í sumarfrí síðan við keyptum bátinn. Nú var hins vegar farin að sjást glæta og við vorum farnir að sjá fram á, að kannski kæmumst við í frí á þessu ári. En þá fer þetta svona." Tjón þeirra Jóns og Gísla og fjölskyldna þeirra er fyrirsjáanlega mikið. Báturinn er líklega ónýtur, en á fjörunni síðdegis í gær var farið að losa tæki úr brúnni, flest nýleg. "Þetta var góður bátur," sögðu eigendurnir dauflega. "Það er hæpið að við fáum betra sjóskip en Hafnareyna, það er búið að fiska vel á þennan bát."
Um það leyti sem Jón skipstjóri Hafdal lagðist í heitt baðið heima hjá sér var verið að búa Þórhall Daníelsson SF 71 undir veiðiferð, sem átti að hefjast klukkan tíu í gærmorgun. Um borð voru, auk Jóhannesar Sigurðssonar skipstjóra og vélstjóra togarans, verkstjóri úr Hraðfrystihúsi KASK á Höfn (þar sem fiskiskipafloti þorpsins leggur upp sinn fisk) og sex ungir starfsmenn hans, 17-20 ára. Veður var hið versta, tólf vindstig af austri og vafalaust meira í hviðunum. "Það átti að færa togarann fyrir bryggjuhornið til að taka ís þegar við tókum eftir að hann var farinn að halla," sögðu fimm piltanna, sem Morgunblaðsmenn hittu á Höfn í gær. "Við héldum að þetta væri bara vegna veðursins og að hann myndi rétta sig við aftur en þá vantaði eina slorlúguna á millidekkinu og þar flæddi sjórinn inn." Fimmenningarnir sögðu að þrátt fyrir ítrekaðar tílraunir tíl að halda skipinu við bryggju hefði allt komið fyrir ekki og á endanum hefði skipið fests í bakkgírnum og siglt á fullri ferð aftur á bak yfir höfnina. Tveir þeirra voru þá frammi á hvalbaknum en hinir aftast í skipinu ásamt verkstjóranum og vélstjóranum. Þeir tveir á hvalbaknum komu sér í skjól þegar togarinn lét ekki að stjórn til að verða ekki fyrir sverum fastsetningarendunum þegar þeir slitnuðu "með ægilegum smellum", eins og þeir orðuðu það.
Um borð í Sigurði Ólafssyni SF 44, sem lá við viðlegukant hinum megin í höfninni, voru tveir menn að vinna. Annar þeirra var Bjarnar Karlsson stýrimaður. "Við ákváðum að fara upp örstutta stund til að kíkja á rokið og bátana," sagði Bjarnar þegar Morgunblaðsmenn hittu hann um borð. "Það er ekki oft sem maður sér rjúka svona hér í höfninni. Þegar við komum upp sáum við hvernig Þórhallur hallaðist við bryggjuna þegar þeir voru að færa hann fyrir hornið.
Eftir örstutta stund var greinilegt að þeir réðu ekkert við hann og þá kom hann með afturendann þvert yfir höfnina. Þegar hann var kominn á að giska hálfa leið sáum við að við myndum sleppa sjálfir en þá sagði ég: "Nú sekkur hann Hafnareynni." Og það stóð heima: hann kom með skutinn á miðja síðuna á bátnum hérna við nefið á okkur. Það varð af þessu talsverður hvellur og greinilegt að báturinn brotnaði mikið. Ætlann sé ekki ónýtur bara? Það hefði verið óskemmtilegt að fá hann hérna á hann Sigurð og við niðri án þess að vita nokkurn hlut." Það fór óhugur um nokkra ungu piltanna um borð í Þórhalli þegar þeir sáu að skipið stefndi öfugt á Hafnareyna. "Þá urðum við hræddir," sagði einn þeirra, Ragnar Geirsson" sem ákvað að stökkva yfir í Hafnareyna og upp á bryggjuna ásamt Valgeiri bróður sínum um leið og færi gæfist. "Höggið var rosalegt," sögðu þeir, "feiknarlegt brak og brestir, og timbrið flísaðist í allar áttir. Vélstjórinn datt við áreksturinn en meiddist ekkert og stóð strax á fætur aftur." Togarinn var nú farinn að halla um allt að 45 gráður. Eftir áreksturinn fikruðu félagarnir af hvalbaknum sig eftir handriðinu stjórnborðsmegin aftur til félaga sinna. "Þegar togarinn stefndi upp í fjöruna vissum við ekki hvað myndi gerast," sagði einn þeirra, Óskar Þórólfsson. "Ég ákvað að stökkva í sjóinn og koma mér í land. Ég hef lent í svona tveggja metra djúpum sjó og gat vaðið í land. Kalt? Nei, ég varð ekki var við kulda. Ég var um annað að hugsa - og hef sennilega verið skíthræddur!" Næstur var félagi hans Gunnar Ingi Valgeirsson, sem hikaði á borðstokknum stutta stund, en lét sig svo falla og sökk á bólakaf. "Það var hrikaleg tilfinning," sagði hann, "því ég reiknaði með að lenda á botni. Ég tók andköf þegar ég kom upp og barði frá mér en gat lítið synt, því ég var í galla og klofstígvélum. Ragnar kom svo á móti mér og dró mig í land." Enn voru fimm menn um borð í Þórhalli Daníelssyni, allir hinir rólegustu. Þegar togarinn hafði lagst á hliðina og sat fastur í leirfjörunni fikruðu þeir sig aðeins áfram eftir skipinu, settu út lítinn bát og reru örfáa metra í land. Enginn þeirra blotnaði.

Morgunblaðið. 15 janúar 1986.


Flettingar í dag: 965
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194740
Samtals gestir: 83790
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:53:57