02.03.2020 09:58

1293. Börkur NK 122. TFND.

Nótaskipið Börkur NK 122 var smíðaður hjá Trondhjems Mekanisk Verksted A/S í Þrándheimi í Noregi árið 1968 fyrir norska útgerðarfélagið Fishing Intenational Ltd í Hamilton á Bermúdaeyjum, hét áður Devonshire Bay. 711 brl. 1.200 ha. Wichmann vél. Smíðanúmar 269/629. Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað kaupir skipið í ágúst árið 1972. Ýmsar endurbætur voru gerðar á skipinu, t.d. var það útbúið til flotvörpuveiða og fl. Fiskimjölverksmiðja var í skipinu, en hún var tekin úr því og seld úr landi. Börkur kom svo í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað hinn 10 febrúar 1973. Börkur stundaði að mestu loðnuveiðar fyrstu árin. Einnig var skipið á kolmunnaveiðum og kom með fyrsta farminn, um 200 tonn til Neskaupstaðar hinn 19 maí það ár. Í október 1975 fór Börkur á makrílveiðar undan ströndum Máritaníu við norðvestur Afríku, en gengu þær veiðar frekar illa. Ný vél var sett í skipið, 2.100 ha. Wichmann vél árið 1979.

Ég tel og fullyrði, að kaupin á stóra Berki, smíðin á skuttogaranum Bjarti NK 121 í Niigata í Japan og svo náttúrulega kaupin á skuttogaranum Barða NK 120 í desember árið 1970, bestu skipakaup Síldarvinnslunnar og mörkuðu mikil tímamót í útgerð í Neskaupstað. Börkur aflaði um 1,5 milljón tonna á þeim 43 árum sem skipið var gert út frá Neskaupstað. Bjartur NK 121 mun hafa aflað um 140 þúsund tonn af fiski þau 43 ár sem hann var gerður út frá Neskaupstað.


1293. Börkur NK 122 við komuna til Neskaupstaðar 10 febrúar 1973.             (C) Tryggvi Ingólfsson.


1293. Börkur NK 122 við komuna til Neskaupstaðar 10 febrúar 1973.     (C) Guðmundur Sveinsson.


Síldarbræðsla SVN árið 1965. Kaupin á Berki voru gerð til að tryggja verksmiðjunni meira hráefni. Ljósmyndin er tekin sumarið 1965.         (C) Hjörleifur Guttormsson.

      Stærsta fiskiskip Íslendinga                        til Neskaupstaðar  

Á næstunni munu þrjú ný og stór fiskiskip bætast í flota Norðfirðinga, og það fyrsta er væntanlegt til Neskaupstaðar eftir um það bil 10 daga. Það skip er Börkur NK 122. Börkur er 1017 lestir að stærð, smíðaður í Noregi fyrir fjórum árum, og að undanförnu hefur verið unnið að breytingum á skipinu í Fredrikstað í Noregi. Strax og Börkur kemur heim, fer hann til loðnuveiða með nót og flotvörpu og verður það langstærsta skipið, sem þær veiðar stundar í vetur, og jafnframt stærsta fiskiskip, sem er í eigu Íslendinga. Börkur var upphaflega smíðaður sem veiði- og bræðsluskip, en nú hefur síldarbræðslan, sem í skipinu var, verið tekin úr því. Gert er ráð fyrir, að skipið taki allt að 1.100 lestir af loðnu. Skipstjórar á Berki verða bræðurnir Sigurjón og Hjörvar Valdimarssynir. Þá hefur hlutafélagið Bylgjan fest kaup á Gissuri hvíta SF 1, en sem kunnugt er skemmdist Gissur hviti mikið, er hann féll á hliðina, þegar skipalyftan á Akranesi bilaði í fyrra. Nú hefur skipið verið endurnýjað af fyrirtækinu Stáli h.f. á Seyðisfirði, og mun báturinn verða afhentur um næstu mánaðarmót. Fer skipið þá til loðnuveiða. Skipstjóri á því verður Ísak Valdimarsson.
Þriðja skipið, sem kemur til Neskaupstaðar, er Bjartur NK 121, en það er einn af skuttogurunum, sem smíðaðir eru fyrir íslendinga í Japan. Skipið mun leggja af stað til Íslands frá Japan einhvern næsta dag. Skipstjóri á Bjarti er Magni Kristjánsson. Með þessum nýju fiskiskipum eiga Norðfirðingar orðið mjög góðan skipakost, en fyrir eru í Neskaupstað skuttogarinn Barði, tveir 270 tonna bátar, einn 200 tonna bátur og margir minni bátar. Að auki mun atvinnuöryggi Norðfirðinga aukast mikið, þegar Bjartur kemur, því þá verða togararnir orðnir tveir, en við það mun hráefni berast mikið oftar og jafnar til frystihúss staðarins.

Tíminn. 16 janúar 1973.


Devonshire Bay í höfn í Leirvík á Hjaltlandi 14 júlí 1968 þá nýsmíðaður.                  (C) Jim Hugson.

    Síldarvinnslan í Neskaupstað kaupir
                  1000 lesta veiðiskip

        Viðtal við Jóhann K. Sigurðsson                            framkvæmdastjóra

Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað befur um árabil rekið útgerð með glæsibrag. Hefur sú útgerð heppnazt mjög vel, enda mjög færir menn staðið við stjórntæki skipanna og hæfir og duglegir menn í hverju rúmi. Það er og eftirtektarvert, að stjórn útgerðarinnar í landi hefur verið í góðum og öruggum höndum, enda er Útgerð Síldarvinnslunnar tvímælalaust brautryðjandi í ýmsum greinum útgerðarreksturs hér á landi. Þessi útgerð hefur jafnan verið rekin með hag allra þáttttakenda hennar fyrir augum, en þar á ég við sjómennina sjálfa, útgerðarfyrirtækið og fólkið, sem vinnur við aflann í landi. Og hagur þessara aðila er jafnframt hagur allra bæjarbúa bæði beint og óbeint. Skip Sildarvinnslunnar hafa borið mikinn afla að landi í þessum bæ, og þannig á þetta fyrirtæki öðrum stærri þátt í því, að hér þrífst mikið og öflugt atvinnulíf og fólk býr við góða, fjárhagslega afkomu; Nú eru framundan miklar breytingar á skipakosti fyrirtækisins, og til þess að fræðast um gang þeirra mála, hitti tíðindamaður Austurlands að máli framkvæmdastjóra Útgerðar Síldarvinnslunnar, Jóhann K. Sigurðsson.


Börkur NK 122 með fullfermi af loðnu í fyrstu veiðiferð sinni í febrúar 1973. (C) Guðmundur Sveinsson.
  
Frá því hefur verið sagt áður, að Síldarvinnslan er að kaupa japanskan skuttogara, og nú er ákveðið að kaupa annað ennþá stærra skip. Viltu segja okkur frá aðdraganda þessarar ákvörðunar, Jóhann ? - Í febrúar í vetur fórum við að ræða um það í stjórn Síldarvinnslunnar, að við þyrftum að fá stærra loðnuskip. Þegar loðnan veiðist svo langt í burtu, sem raun var á síðasta vetur, eru Börkur og Birtingur of litlir í að stunda þessar veiðar með það fyrir augum að sigla með aflann heim, en það er 14-18 stunda sigling. Sigling með fullfermi svo langa leið er illframkvæmanleg í misjöfnum vetrarveðrum, og ekki hægt að ætlast til slíks af sjómönnunum. Hins vegar þarf verksmiðja okkar að fá meira hráefni til vinnslu, og hugmyndin er að reyna að tryggja aukna hráefnisöflun. Talað hafði verið um að selja skuttogarann Barða, þegar kaupin yrðu gerð á japanska skuttogaranum, þar sem við gætum ekki misst loðnuskipin, enda þótt ýmsir annmarkar væru á því, eins og að framan segir, að eiga ekki stærra skip til þessara veiða. Menn eru líka farnir að hugsa af alvöru til kolmunnaveiða og ennfremur að veiða loðnu í flotvörpu fyrri hluta vetrar, kannski aðallega í desember og janúar. Þær veiðar yrðu úti í hafi, allt upp í 100 mílur. Hvort tveggja þessar veiðar verða ekki stundaðar á þeim bátum, gem við eigum, heldur þarf til stærri skip. Að þessu athuguðu ákváðum við að eiga Barða áfram,, en selja hins vegar Börk og Birting.


1020. Börkur NK 122. TFNR. Smíðaður hjá Ankerlökken Værft A/S í Florö í Noregi árið 1966. 301 brl. 800 ha. Lister vél.     (C) Guðmundur Sveinsson.  

Í vor kom svo í ljós, að í Noregi var til sölu 1.000 lesta skip, sem gæti hentað okkur. - Hafið þið skoðað þetta skip? - Já, um miðjan júní fórum við þrír til Noregs, Ólafur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, Sigurjón Valdimarsson, skipstjóri og ég. Við vorum þar í 7 eða 8 daga og skoðuðum skipið vandlega og töluðum við marga sérfróða menn um ástand þess og útbúnað, m. a. ræddum við þar við skipstjórann, er síðast var með skipið og eins 1. vélstjóra. Einnig ræddum við, við verkfæðing hjá Ankerkonsul í Bergen, en það er þekkt skipaverkfræðifirma. - Og hvernig skip er þetta ? - Þetta er fjögurra ára gamalt verksmiðjuskip, sem smíðað er í Noregi, en hefur stundað nótaveiðar við Kanaríeyjar.
Til sölu voru tvö skip af nákvæmlega sömu gerð. Okkur fannst skipið stórt, en það er 1.000 lestir,, eins og ég sagði áðan. Við óttuðumst, að kasthringur þess væri mjög stór, og yrði það því að vera búið afar stórri nót. En í viðtölum við skipstjóra og vélstjóra kom fram, að þetta þyrfti ekki að óttast, enda er skipið sérstaklega hannað fyrir nótaveiðar. - Þú segir, að þetta sé verksmiðjuskip. Er ætlunin að hafa veriksmiðju í því áfram,, og hvað um anman búnað þess? - Í skipiniu er síldarverksmiðja, sem getur brætt um 100 lestir á sólarhring, aflvélin er 1.200 ha Wickmann vél. Í skipinu eru þrjár 178 ha Ijósavélar og auk þess er það búið öllum venjulegum siglinga- og fiskileitartækjum. Ætlunin er að taka verksmiðjuna úr skipinu og selja hana. - En þarf ekki að gera einhverjar breytingar á skipinu? - Jú, nokkrar breytingar verða gerðar, og ætlunin er, að þær verði hannaðar í Noregi og síðan boðnar út. Lestin verður hólfuð í tanka og verða tveir þeirra einangraðir til að unnt sé að flytja síld kælda um lengri veg, t. d. hingað heim af Norðursjávarmiðum.


1046. Birtingur NK 119. TFBQ. Smíðaður hjá Flekkefjord Slip & Maskinfabrik A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1967. 306 brl. 800 ha. Lister vél.     (C) Guðmundur Sveinsson.  

Þá verða sett í skipið tvö 15 tonna spil, gálgar fyrir flotvörpu og flotvörputromla. Einnig verður sett í það Netsontæki, en það er tæki, sem sett er á höfuðlínuna og myndar það, sem í sjónum er, ennfremur verður settur upp flotvörpudýptarmælir. Engar breytingar þarf að gera á ílbúðum skipshafnar eða eldhúsi, það er allt fyrsta flokks. Eftir þessar breytingar ber skipið 1.100 tonn. Svo verður skipið allt yfirfarið fyrir afhendingu, vélar og tæki prófuð og framkvæmd botnskoðum og öxuldráttur. - Og hvað á skipið að kosta? - Verð þess eins og það er eða verður að heildarskoðun lokinni er 69.9 millj., en áætlað er, að breytingarnar kosti 27 millj., svo að heildarverð skipsins verður þá 96.9 millj. kr. - Þessi skipakaup eru þá sem sagt orðin að veruleika, en hvenær er skipið væntanlegt heim? - Þessi kaup eru fastákveðin og búið er að inna af hendi fyrstu greiðslu til seljenda. Við skrifuðum undir kaupsamning í júní í Noregsferð okkar með fyrirvara um samþykki stjórnar Síldarvinnslunnar og stjórnvalda hérlendis.


1278. Bjartur NK 121. TFNV. Smíðaður hjá Niigata Enginering Co Ltd í Niigata í Japan á árunum 1972-73. 461 brl. 2.000 ha. Niigata vél.  (C) Guðmundur Sveinsson.
  
Nokkuð hefur dregizt, að hægt væri að ganga formlega frá kaupunum, en það er búið nú. Ekki er gott að segja nákvæmlega um það hvenær skipið kemur hingað heim, en mér þykir trúlegt, að það verði kringum áramótin. Segja má, að afgreiðsla málsins hafi dregizt um mánuð frá því sem við gerðum ráð fyrir í byrjun. En ég vil geta þess hér, að við höfum notið góðrar fyrirgreiðslu Landsbankans og ríkisstjórnarinnar við þessi kaup. - Þið ætlið þá að reka þrjú skip áfram, og það verða allt stór skip? - Já, Sídarvinnslan ætlar að eiga þrjú skip áfram, Barða, japanska togarann, sem kemur í lok febrúar og þetta norska skip. Þessi floti verður um 2.000 lestir að stærð. - Er ákveðið, hvað þessi nýju skip eiga að heita? - Japanski skuttogarinn á að heita Bjartur NK 121 og þetta skip, sem við höfum verið að tala um, á að heita Börkur NK 122. - Útgerð þessa skips er tvímælalaust nýjung í íslenzkri útgerð, ertu bjartsýnn á hana, Jóhann ? - Það má segja, að hér sé rennt dálítið blint í sjóinn og nokkur áhætta tekin. Við förum hér inn á nýja braut, eins og við gerðum, er við keyptum Barða. En við teljum, að breyta þurfi útgerðarrekstrinum og skipin þurfi að stækka. Ef lokað verður fyrir veiðar í Norðursjó, sem vel getur orðið, eru minni bátarnir úr leik, nema yfir vetrarvertíðina. Verksmiðjan þarfnast aukins hráefnis, en að undanförnu hefur hún aðeins getað unnið samfellt í 2 mánuði á ári. Loðnuafli á að geta haldizt, ef spár fiskifræðinga rætast, og nú eigum við að geta náð honum hingað heim til vinnslu.


1137. Barði NK 120. TFTS. Smíðaður hjá Ateliers et Chantters de la Manghe í Dieppe í Frakklandi árið 1967. 328 brl. 1.200 ha. Deutz vél.           (C) Sigurður Arnfinnsson.
  
Talið er, að 10 millj. lesta af kolmunna séu hér í hafinu, og að því hlýtur að koma, að hann verði veiddur í ríkum mæli og nýttur. Hann er hér skammt undan á vissum tímum og gengur upp að suðausturströndinni á sumrin upp á 40-50 mílur. Trúlegt er, að unnt verði að veiða kolmunnann í flotvörpu með góðum árangri í framtíðinni. Norðmenn hanna nú stærri skip bæði fyrir nóta- og flotvörpuveiðar. Ríkið ætti að koma á móts við okkur í þessum tilraunum. Ég vil að lokum segja það, að það hefur verið lán þessarar útgerðar, að í sjö ár hafa verið á skipum hennar nær sömu skipstjórar og vélstjórar og margir aðrir yfir- og undirmenn. Ekkert er eins dýrmætt í útgerð eins og traustir og hæfir sjómenn. Þar með slítum við talinu, og ég þakka Jóhanni kærlega fyrir spjallið. Austurland óskar Síldarvinnslunni til hamingju með bæði þau nýju skip, sem brátt munu sigla undir merki hennar og eiga vonandi eftir að reynast happafleytur.

Austurland. 18 ágúst 1972.
Birgir Stefánsson.

Flettingar í dag: 248
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074626
Samtals gestir: 77510
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 19:09:21