09.03.2020 20:39
3 m. Sk. Sólarris VA 226. KBNT / OXUG.
Þriggja mastra skonnortan Sólarris VA 226 var smíðuð hjá
Chantiers Navala St. Malo í Frakklandi árið 1910. Eik og álmur. 235,58 brl. 135
ha. Vél. Djúprista skipsins var 12 ft. Skipið var keypt til Færeyja árið
1929, Hét þá Grande Hermine. Það var C.C. Johansen í Þórshöfn sem átti skipið
fyrst í Færeyjum, hét þá Ella TN 331. Á árinu 1930 fær skipið nafnið Sólarris TN 331, sami eigandi. Selt árið 1933, Firmanu Jegvan Elias
Thomsens Eftf, í Sandavogi, hét þá Sólarris VA 226.. Skipið sökk eftir að hafa siglt á
tundurdufl út af Berufirði, hinn 18 ágúst árið 1941. Var skipstjórinn, Peter
Steig við stýrið, en matsveinn og háseti voru aftur í stýrishúsi. Skipstjórinn,
matsveinninn og hásetinn, köstuðu sér allir í sjóinn og náðu til
björgunarflekans. Áttu þeir ömurlega vist á flekanum og voru þeir í þann mund
að bugast af þorsta, að þeir gátu fangað selskóp og drukkið úr honum blóðið.
Það var síðan aðfaranótt hinn 21 ágúst að mótorbáturinn Höfrungur frá Djúpavogi
sem bjargaði mönnunum og fór með þá til Djúpavogs. Nöfn mannanna sem björguðust
auk skipstjórans voru, Alfred Jacobsen matsveinn og David Maggnúsen háseti.
Það er mikil missögn af þessu sjóslysi, því hér að neðan í frétt Morgunblaðsins segir "að þeir hafi komið siglandi á báti til Djúpavogs og sagt tíðindin. Ennfremur segir að fimm skipverjar hafi farist en tveir bjargast. Í þrautgóðum á raunastund ll bindi segir að það hafi verið mótorbáturinn Höfrungur frá Djúpavogi sem bjargaði mönnunum, aðfaranótt hinns 21 ágúst. Þar segir ennfremur að þeir hafi verið þrír. Á færeyska skipavefnum, www.vagaskip.dk segir að skipverjar á Sólarris hafi verið átta og að þremur þeirra hafi verið bjargað eftir 84 klukkustunda hrakninga.
Færeyska skonnortan Sólarris VA 226. Þegar þessi ljósmynd er tekin heitir skipið Grande Hermine. Fann þessa mynd í morgun eftir mikla leit. Mynd á gömlu póstkorti.
Skonnortan Sólarris VA 226 sennilega á Grænlandi. Úr safni Finn Björn Guttesen.
Færeysk
skúta ferst á tundurdufli
fyrir Austfjörðum
Fimm menn drukkna Tveir bjargast
Seint í gærkvöldi barst hingað sú fregn að færeysk skúta,
"Sólaris", hafi rekist á tundurdufl út af Austfjörðum og sokkið. Fimm menn af
áhöfninni fórust en tveir björguðust.
Slys þetta mun hafa átt sjer stað út af Djúpavogi. Seint í gær komu tveir menn
róandi á báti til Djúpavogs. Voru það skipstjórinn af "Sólaris" og einn
hásetanna. Þeir höfðu bjargast og sögðu þeir tíðindin. Ekki var getið að fleiri
en 7 hefðu verið á skútunni og getur það vel átt sjer stað, því skipið hefir
verið í fiskflutningum.
"Sólaris" var á leið til Seyðisfjarðar og átti að taka fisk þar. Skipið hefir
sennilega farið yfir hið auglýsta hættusvæði fyrir Austurlandi.
Morgunblaðið. 22 ágúst 1941.