12.03.2020 15:24
M. b. Njáll GK 456.
Njáll GK 456 í bóli sínu. Ljósmyndin er tekin á Norðfirði. (C) Carl Ólafsson.
Mótorbáturinn Njáll GK 456. Þessi teikning kom í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja árið 1972.
Bátstapi
Í Vestmannaeyjum vildi það slys til í fyrradag, að vjelbátur
sökk örstutt utan við hafnargarðinn og týndust þar allir skipverjar 4 að tölu.
Slysið bar að með þeim hætti, að vjel bátsins stöðvaðist rjett utan við
hafnargarðinn. En norðlægur vindur var og hrakti bátinn á sker, sem þarna er
skammt frá garðinum og brotnaði óðara. Höfðu tveir vjelbátar aðrir, er til hans
sáu, leitast við að koma í hann dráttarkaðli, en ekki tekist. Báturinn hjet
Njáll og var úr Skaftafellssýslu. Allir voru mennirnir ættaðir utan
Vestmannaeyja. Það fylgir þessari fregn, að slys þetta sje nær því dæmalaust,
að vjelbátur sökkvi með þessum hætti svo nálægt höfn. Er það fullyrt, að
bátsmenn hefðu ekki þurft annað en að kasta akkeri þegar vjelin bilaði, þá
hefði öllu verið borgið.
Morgunblaðið. 18 febrúar 1923.
Þeir sem fórust með Njáli GK 456 voru;
Sigurfinnur Lárusson formaður, Álftagróf í Mýrdal, 27 ára. Hafði hann farið
ungur til sjóróðra í Vestmannaeyjum, en þetta var fyrsta vertíð hans sem
formaður.
Erlendur Árnason vélamaður, Borgum í Norðfirði, um þrítugt.
Sigurður Hallvarðsson háseti, Reynisholti á Mýrum, 33 ára.
Guðfinnur Jakobsson háseti, Skammadal í Mýrdal, 24 ára.
Magnús Runólfsson háseti, Skaganesi í Mýrdal, 36 ára. Honum var bjargað á land,
einum skipverja, en lífgunartilraunir báru ekki árangur.
Þrautgóðir á raunastund Vlll bindi.