23.03.2020 10:44

V. b. Birkir SU 519. TFDK.

Vélbáturinn Birkir SU 519 var smíðaður í Vestnes í Noregi árið 1934 fyrir Útgerðarsamvinnufélagið Kakala á Eskifirði. Eik og fura. 48 brl. 130 ha. June Munktell vél. Seldur í febrúar 1936, Þorláki Guðmundssyni, Björgvin Guðmundssyni og Ara Hallgrímssyni á Eskifirði. Báturinn var lengdur árið 1941 og mældist þá 64 brl. Seldur í janúar 1945, Hólmaborgu h/f á Eskifirði. Ný vél (1946) 180 ha. June Munktell vél. Seldur í maí 1951, Höskuldi Jóhannessyni í Reykjavík, báturinn hét Birkir RE 74. Báturinn eyðilagðist af eldi á Húnaflóa, 21 ágúst árið 1951. Breski togarinn Reighton Wyke H 425 frá Hull bjargaði áhöfninni, 7 mönnum til lands. Togarinn dró síðan bátinn upp undir Skaga. Birkir var svo tekinn í tog af varðskipinu Ægi sem dró hann til Höfðakaupstaðar (Skagastrandar). Var báturinn síðan dreginn á land við Hólsnes. Eldurinn logaði í bátnum alla nóttina eftir að hann var dreginn upp í fjöruna og gereyðilagðist.


Vélbáturinn Birkir SU 519. Bátnum nýlega hleypt af stokkunum í Vestnes í Noregi árið 1934. Mennirnir fram við lúkarskappann er áhöfnin sem sigldi honum heim.    (C) Ljósmyndasafn Eskifjarðar.

             M.b. Birkir SU 519

M.b. Birkir kom til Eskifjarðar í gær frá Molde í Suður-Noregi, eftir 3 ½  sólarhrings ferð. Mótorbátur þessi er 50 smálestir að stærð og er eign Samvinnufélagsins Kakala á Eskifirði. Formaður bátsins er Bjarni Jónsson, frá Fáskrúðsfirði. - Kakali hefir látið smíða alls 4 báta erlendis og er Birkir sá 4. í röðinni. Hinir eru um 20 smálestir að stærð hver og heita Einir, Reynir og Víðir. Alþingi samþykkti heimild til þess að ríkið ábyrgðist 120,000 kr. lán fyrir Samvinnufélagið Kakala til bátakaupa. - Bátarnir eru keyptir fyrir milligöngu Gísla J. Johnsen, sem einnig útvegaði félaginu bankalán erlendis.

Vísir. 1 febrúar 1934.


Birkir SU 519 á Eskifirði eftir lenginguna árið1941.                    Ljósmyndari óþekktur.

    Útgerð og aflabrögð á Eskifirði

Frá Eskifirði hafa stundað 9 dekkaðir vélbátar þegar flest var. Hafa sumir þessara báta farið örfáar sjóferðir og er því tæpast hægt að telja þá með. Heimafenginn afli þessara báta er aðeins 172 smálestir, og er það nálægt þriðjungi minna en í fyrra. 6 af þessum bátum veiddu á Hornafirði á vetrarvertíðinni og öfluðu sæmilega. Verður því heildarafli Eskifjarðarbáta álíka mikill og árið 1932. - Eskifjörður mun sú veiðistöð á Austurlandi, þar sem útgerð hefur hrakað mest hin síðari árin. Um eitt skeið voru þar nálægt 20 dekkaðir vélbátar. Þá var gerður út þaðan línuveiðari í sjö ár og togarinn »Andri" var gerður út þaðan, að nafninu til. Þegar h/f »Andri« var stofnað, var það gert með það fyrir augum, að reka togaraútgerð frá Eskifirði og var togari keyptur í þeim tilgangi. Í reyndinni var togarinn gerður út frá Reykjavík að mestu leyti, lagði aðeins dálítinn hluta af aflanum á land á Eskifirði. Af útgerð »Andra« er því lítil eða engin reynsla fengin fyrir því, hvort hagkvæmt sé að gera út togara frá Austurlandi. Engu að síður var það atvinnumissir, eigi lítill, fyrir þorpsbúa, þegar togarinn »Andri« var seldur.
Útgerðin hefur gengið svo saman á Eskifirði síðustu árin, að til vandræða horfir. Sjávarútvegur hefur verið aðal atvinnuvegur þorpsbúa. Geta og gjaldþol einstaklinga og sveitarfélags hefur aðallega byggst á útgerðinni. Nú er jafnvel svo komið, að sveitarfélagið hefur orðið að leita á náðir ríkissjóðs um hjálp til að standast nauðsynleg útgjöld. Til að reyna að ráða nokkra bót á þessu ástandi, heimilaði Alþingi 1932 ríkisstjórninni að ábyrgjast lán til handa samvinnufélagi á Eskifirði, er ræki útgerð. Félagið var stofnað og ábyrgðin notuð og hefur félagið nú látið smíða 4 báta, þrjá í Danmörku, um 19 smálestir hvern og einn í Noregi 50-60 smálestir. Var síst vanþörf á að fá nýja báta, því að flestir þeirra sem fyrir eru, eru orðnir gamlir. Er þess að vænta, að nokkuð greiðist úr fyrir Eskfirðingum við þessa aukningu útgerðarinnar, þótt reynsla undanfarinna ára á útgerð vélbáta frá Eskifirði sé ekki góð. Menn hefur talsvert greint á um það, hver bátastærð mundi hentugust, og skal enginn dómur á það lagður hér. En sú reynsla, sem fengin er á útgerð stærri vélbáta austanlands, bendir ekki til að 50-60 smálesta bátar gefi stórar tekjur. Þó má vera að þetta fari á annan veg með breyttri tilhögun. Bátarnir þrír, sem smíðaðir voru í Danmörku, komu til Eskifjarðar nú um áramótin.

Ægir. 2 tbl. 1 febrúar 1934.


Birkir SU á Eskifirði á styrjaldarárunum.                                                       (C) Sveinn Guðnason.

              Bátur hætt kominn

Vjelbáturinn Birkir úr Eskifirði var hætt kominn úti fyrir suðurströnd landsins síðastliðinn laugardag. Báturinn er nú kominn til Eskifjarðar. Frjettaritari útvarpsins á Eskifirði skýrir þannig frá hrakningum bátsins: "Síðastliðið föstudagskvöld lagði vjelbáturinn Birkir úr Eskifirði, skipstjóri Þorlákur Guðmundsson, af stað frá Vestmannaeyjum til Seyðisfjarðar, fermdur saltfiski. Undan Ingólfshöfða skall á hann norðaustan hríðarveður, með miklum stormi og sjógangi. - Tók þá að ganga sjór yfir bátinn og sópaði sjórinn fiskstakki, sam var aftan við stýrishúsið, fram gangana beggja megin. Við það stíflaðist sjórás úr bátnum og var ekki annað sýnna en að fiskurinn mundi lenda í stýrisumbúnaði bátsins, svo að ekki yrði hægt að stjórna honum, jafnframt því að hleðslujafnvægi haggaðist og báturinn varð svo framhlaðinn, að til háska horfði. Voru þá bæði farþegar og hásetar kallaðir á þilfar og tókst að ryðja framþiljur, sem einnig höfðu verið hlaðnar fiski, og rjettist þá báturinn. Munu um 10 smálestir af fiski hafa farið útbyrðis. Báturinn lá lengi undir áföllum og er talinn hafa verið hætt kominn. - Kom hann til Hornafjarðar á sunnudag, lá þar um hríð, en fór síðan til Seyðisfjarðar og kom til Eskifjarðar í fyrradag."

Morgunblaðið. 12 maí 1938.


Birkir RE í ljósum logum á Húnaflóa.                Ljósmyndari óþekktur.


Hulltogarinn Reighton Wyke H 425 sem bjargaði áhöfninni á Birki. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1937. 465 brl. Var þá í eigu West Dock Steam Fishing Co Ltd í Hull. Hét síðar Arctic Trapper H 425 og var þá í eigu Boyd Line Ltd í Hull.            (C) James Cullen.

   Vélbáturinn Birkir brennur á hafi úti

 Dóttur skipstjórans bjargað á síðustu stundu

Laust fyrir klukkan 8 þriðjudagsmorguninn 21. þ. m. kom eldur upp í vélbátnum Birki frá Reykjavík, þar sem hann var staddur 40 sjómílur norðvestur af Siglufirði á suðurleið með farm af síldartunnum, fullum og tómum. Breiddist eldurinn óðfluga út aftur á skipinu og einn hásetanna, Eggert Ó. Kristinsson, bjargaði á síðustu stundu 10 ára gamalli dóttur skipstjórans, Hildu, sem svaf í brúnni. Þegar eldurinn kom upp miðskips, var Eggert á vakt og gerði hann skipstjóranum, Guðmundi B. Péturssyni, aðvart. Guðmundur hafði brugðið sér fram í lúkarinn og verið þar svo sem 5 mínútur, er Eggert tjáði honum að það væri kviknað í skipinu. Guðmundur hafði konu sína, Lydíu Guðmundsdóttur, og tvö börn, 10 ára dóttur og 3 ára son, með sér í ferð þessari. Skipsmenn voru 11. Varð þegar á öllu séð, að eldurinn magnaðist svo fljótt, að ekki varð við neitt ráðið. Var þá það ráð tekið að forða sér í nótabátinn, sem dreginn var á eftir. Komust margir þangað mjög fáklæddir, því að óttast var, að sprenging kynni að verða aftur á og þess vegna reynt að komast sem fyrst burt frá brennandi skipinu. Til þess að hafa hugmynd um hve óðfluga eldurinn læsti sig um aftur á, skal þess getið að mjög óvíst er hvort Hildur litla hefði bjargast úr brúnni ef Eggert hefði ekki gefið sér tíma til þess að hlaupa upp í brúna til hennar og ná henni út úr reykhafinu, áður en hann hJjóp fram í lúkar til þess að tilkynna skipstjóranum, hvernig komið væri og vekja skipsmenn.
Það vildi til happs, að sjór var ládauður og skip nærstatt, því að allir voru fatalitlir og jafnvel fatalausir og algerlega matarlausir, því að ekki gafst tími til þess að bjarga neinu. Skipsmenn og farþegar misstu þarna allt, sem þeir höfðu meðferðis og auk þess brann þarna verðmætur farmur (230 tunnur af sykursaltaðri síld, 140 tunnur af saltsíld og 130 tómar tunnur) og skipið gjöreyðilagðist. Eftir 2-3 stundarfjórðunga kom enskur togari, sem var á veiðum skammt undan á vettvang og tók bátsverja um borð. Síðan var lagt í ferð að hinu brennandi skipi á ný, og tókst að koma taug í það. Enski togarinn dró Birki síðan í áttina að Skaga, og þegar tólf mílna leið var eftir, kom Ægir á vettvang frá Siglufirði og var þá reynt að slökkva eldinn. Tókst að lægja hann nokkuð, en svo miklu af sjó hafði verið dælt í skipið, að ekki þótti fært að dæla meiru. Eftir tveggja tíma ferð var komið undir Kálfshamarsvík, og var þá aftur tekið til við slökkvistarfið. Brátt var þó sýnt, að ekki mundi verða hægt að ráða niðurlögum eldsins nema með því að sökkva skipinu. Var þá horfið að því ráði að draga það til Höfðakaupstaðar og þar var því rennt upp i fjöru um kvöldið. Eldurinn logaði góða stund eftir það og gjöreyðilagðist skipið að heita má. Eigandi skipsins var Höskuldur Jóhannesson, Drápuhlíð 48, Reykjavík.

Fálkinn. 31 ágúst 1951.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30