25.03.2020 19:45

M. b. Gunnar Hámundarson VE 271.

Mótorbáturinn Gunnar Hámundarson VE 271 var smíðaður í Sagvaag í Noregi árið 1925. Fura. 20 brl. 35 ha. Wichmann vél. Eigendur voru Vigfús Sigurðsson, Oddsteinn Friðriksson og Sigurður Friðriksson í Vestmannaeyjum frá sama ári. Kom fyrst til heimahafnar, Vestmannaeyja hinn 13 mars sama ár. Báturinn sökk í Vestmannaeyjarhöfn ásamt öðrum bát, Frigg VE 316 hinn 3 janúar árið 1937. Blíðuveður var í Eyjum og talið að þeim hafi verið sökkt. Vegsummerki bentu til þess að svo hafi verið. Seldur 10 júní 1938, Gunnari Ólafssyni & Co í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Seldur 10 nóvember 1940, Ármanni Friðrikssyni og Kristni Friðrikssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Friðrik VE 271. Seldur 20 nóvember 1943, Guðbrandi Reykdal Jónssyni, Holberg Jónssyni og Þórði Stefánssyni í Vestmannaeyjum, hét Björgvin VE 271. Ný vél (1945) 70 ha. Hundested vél. 25 janúar árið 1951 voru Þórður Stefánsson og Arnmundur Þorbjörnsson í Vestmannaeyjum eigendur bátsins. Seldur 14 nóvember 1957, Ögmundi Sigurðssyni, Gunnari Á Helgasyni og Páli Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Guðbjörg VE 271. Ný vél (1957) 90 ha. Hundested vél. Seldur 19 júní 1961, Hafsteini Sveinssyni í Reykjavík, hét þá Guðbjörg Jónsdóttir RE 275. Báturinn sökk um 6 sjómílur suðaustur af Arnarstapa á Snæfellsnesi 4 maí árið 1962 eftir að óstöðvandi leki kom að honum. Áhöfninni, 5 mönnum, var bjargað um borð í vélskipið Ester KÓ 25 (ex Lottie EA 8) frá Kópavogi. Ester tók bátinn í tog og dró hann inn á Breiðuvík á Snæfellsnesi, en þar sökk báturinn. Talið var mjög líklegt að báturinn hafi "slegið úr sér" með fyrrgreindum afleiðingum.


Mótorbáturinn Gunnar Hámundarson VE 271 í Vestmannaeyjahöfn.               Ljósmyndari óþekktur.

                Nýr mótorbátur

Mótorbáturinn "Gunnar Hámundarson" kom hingað í gærkvöldi frá Noregi.

Þór. 14 mars 1925.


M.b. Gunnar Hámundarson VE 271 í Vestmannaeyjahöfn.                              Ljósmyndari óþekktur.

          Tveir vélbátar sökkva á                         Vestmannaeyjahöfn

Að morgni hins 3. þ, m. tóku menn eftir því, að tveir vélbátar, sem lágu hér á höfninni, voru horfnir. Þegar betur var aðgætt voru bátarnir sokknir, höfðu sokkið um nóttina í sæmilega góðu veðri. Það voru bátarnir, Frigg V.E. 316 og Gunnar Hámundarson V.E. 271. Brátt náðist Frigg upp og Gunnar Hámundarson tveimur dögum síðar. Báðir voru bátarnir óskemmdir að öðru en því, að farið hafði verið í vélarrúm beggja og lok botnkrana vélar annars bátsins hafði verið skrúfað af, en botnrör vélar hins bátsins skrúfað laust. Sjór hafði því fossað inn í bátana uns þeir sukku. Ekki er talin vafi á því, að hér sé um glæpsamlegt athæfi að ræða, þó að ekki sé skiljanlegt í hvaða tilgangi það er framið. Bæði Bátaábyrgðarfélagið og eigendur bátanna hljóta að verða fyrir tilfinnanlegum skaða, og ekki er sjáanlegt að sá er slíkt skítverk fremur, geti haft nokkurn hag af því, Það er því varla líklegt að hér sé um óþokkaskap einan að ræða, heldur öllu fremur einhverskonar brjálsemi.
Það er eftirtektarvert að tvö síðastliðin ár var kveikt í bát hér í Slippnum, og hlaust nokkurt tjón af í fyrra. Óhætt er að segja að það sé hundrað faldur glæpur í samanburði við það, sem nú hefir skeð. Því ef bátur sekkur innanhafnar, þá er nokkurnveginn fyrirfram sjáanlegt hvað af slíku hlýst, en ef að bátur logar í Slippnum, þar sem margir bátar standa hlið við hlíð, og talsverð olía er í hverjum bát, þá eru mjög litlar líkur til að slíkur eldur verði slökktur, ef hann er orðinn magnaður, þegar hans verður vart, fyrr en ógurlegt tjón hefir af hlotist. Enn er ekki vitað hver brennuvargurinn er, sem kveikt hefir í bátum hér, og litlar eru líkur til að það vitnist bráðlega hvaða aumingi hefir gaman af að sjá sökkvandi skip. Á meðan ekkert sannast, mun mörgum finnast að líkur bendi til, að sömu hendur hafi verið að verki í báðum tilfellunum.

Víðir. 13 janúar 1937.


Áhöfnin á Guðbjörgu Jónsdóttur RE 275 við komuna til Reykjavíkur. Neðri röð frá v;, Óskar Guðmundsson vélstjóri og Hjálmar Helgason skipstjóri. Efri röð frá v;,Hannes Bergsteinsson, Egill Egilsson og Erlendur Helgason.    Ljósmyndari óþekktur.

   V.b. Guðbjörg Jónsdóttir sekkur

Föstudaginn 5. maí s. l. um kl. 16 sökk vélskipið Guðbjörg Jónsdóttir frá Reykjavík sex sjómílur suðaustur af Arnarstapa. Áhöfn skipsins bjargaði vélskipið Ester frá Reykjavík og reyndi ennfremur að draga skipið til Stapa, en það tókst ekki. Skipstjórinn á Guðbjörgu Jónsdóttur, Hjálmar Helgason, skýrir svo frá:
Við vorum allir undir færum fimm skipverjar, er við tókum eftir því að vélin tók að hiksta. Er að var gáð var kominn mikill sjór í vélarrúmið og ekkert hægt að gera til að koma vélinni af stað. Ester var ekki langt frá, en þetta skeði um kl. 14. Hálfri stundu síðar yfirgáfum við skipið og fórum yfir í Ester. Norðaustan kaldi var, en annars ekki slæmt veður og sjór ekki mikill. Ester reyndi að draga skip okkar marandi í kafi inn á Stapavík eftir að við komum um borð. Var það í togi í um einn og hálfan tíma áður en það sökk. Skipstjóri á Ester er Valgarður Þorkelsson og kom hann til Reykjavíkur með áhöfn Guðbjargar Jónsdóttur um miðnætti sama dag.
Vélskipið Guðbjörg Jónsdóttir, RE 275, hét áður Guðbjörg og er 20 brúttólestir að stærð, smíðað, í Sagvaag í Noregi árið 1925. Eigandi er Hafsteinn Sveinsson, Reykjavík.

Sjómannablaðið. 5 tbl. 1 maí 1962.

Flettingar í dag: 965
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194740
Samtals gestir: 83790
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:53:57