17.05.2020 15:54

Ilivileq GR 2 - 201.

Frystitogarinn Ilivileq GR 2-201 var smíðaður hjá Astilleros Armon S.A. í Gijon á Spáni árið 2020. Smíðanúmer G-017. Skipið mun vera um 5.000 bt að stærð. 5.400 Kw Rolls Royce vél. 81,3 m. á lengd og 17 m. á breiddina. Upphaflega var skipið smíðað fyrir H.B.Granda hf og átti að heita Þerney, en Grandi hætti við að ég held. Skipið er í eigu grænlensk dótturfélags Brims hf sem er að öllu leiti í eigu Brims. Fullkominn vinnslubúnaður er í skipinu sem á að geta unnið um 150 tonn á sólarhring og einnig er um borð fiskimjölsverksmiðja, þannig að allt sem skipið veiðir er nýtt. Sannarlega glæsilegt skip Ilivileq. Tók þessar myndir af skipinu um síðustu helgi þegar skipið lá við Grandagarð í Reykjavíkurhöfn.


Ilivileq GR 2-201 við Grandagarð.                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 maí 2020.


Ilivileq GR 2-201 við Grandagarð.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 maí 2020.


Úr brú Ilivileq.                                                                                 (C) Astilleros Armon.


Aðalvél skipsins, Rolls Royce 5.400 Kw.                                          (C) Astilleros Armon.


Í eldhúsi skipsins.                                                                                (C) Astilleros Armon.


Úr káetu skipsins.                                                                                           (C) Astilleros Armon.


Í vinnslusal skipsins.                                                                                       (C) Astilleros Armon.


Í vinnslusal skipsins.                                                                                        (C) Astilleros Armon.


Í frystilest skipsins.                                                                              (C) Astilleros Armon.


Í borðsalnum.                                                                                                    (C) Astilleros Armon.


          Nýr frystitogari Brims

Nýr frystitogari Brims lagðist við bryggju í Reykjavíkurhöfn í hádeginu í dag. Beðið hefur verið eftir skipinu með mikilli eftirvæntingu. Skipið er eitt það fullkomnasta í Norður-Atlantshafi. Skipið sem smíðað var á norður Spáni var hannað af Rolls Royce í Noregi í samstarfi við Brim.
Frystitogarinn er 81,8 metrar að lengd, 17 metra breiður og um 5000 brúttótonn að stærð. Við hönnun skipsins var orkusparnaður hafður að leiðarljósi, sem og sjálfvirkni. Aðstaða sjómanna er til fyrirmyndar og fullkomnasti búnaður til flökunar og frystingar er bæði byltingarkenndur fyrir vinnuaðstöðuna um borð og margfaldar framleiðslugetuna.

Fiskimjölsverksmiðja er í skipinu fyrir bein sem falla til við vinnsluna. Allur afli verður því fullnýttur og afkastageta vinnslunnar getur verið allt að 150 tonn á sólarhring. Í frystilestum verður rými fyrir allt að 1000 tonn af afurðum, flokkuðum á bretti.
Skipið er búið nýrri kynslóð af vélum frá Bergen-Diesel og Rolls-Royce með 5400 kW afli. Um borð er öflugt rafvindukerfi þar sem rafmagn fyrir vindurnar og annan búnað er framleitt með ásrafali.
Vinnsludekkið kemur frá Danmörku og flökunarvélarnar frá Vélfagi á Ólafsfirði.
Samspilið í hönnuninni gerir það að verkum að öll stýring vinnsluferla í skipinu er mjög nákvæm.
Skipið hóf heimferð fyrir fimm dögum frá Spáni með Pál Þóri Rúnarsson skipstjóra og Guðmund Kristján Guðmundsson stýrimanni í fararbroddi.
Skipið, sem fékk nafnið Ilivileq, er skráð í Qaqortoq á suður Grænlandi og er í eigu dótturfélags Brims á Grænlandi sem er í 100% eigu Brims. 

Brim hf. 5 maí 2020.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30