07.06.2020 10:44

E. s. Gullfoss. LCDM / TFGA.

Eimskipið Gullfoss var smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsvært í Kaupmannahöfn árið 1915. 1.414 brl. 1.200 ha. 3 þennslu gufuvél. Gullfoss var fyrsta skip  h/f Eimskipafélags Íslands (Óskabarns þjóðarinnar) sem stofnað var, 17 janúar árið áður  Skipið var fyrsta millilanda og farþegaskip sem smíðað var fyrir Íslendinga og var auk þess útbúið frystilest. Gullfoss varð innlyksa í Kaupmannahöfn þegar Þjóðverjar hernámu Danmörk, 9 apríl 1940 og var skipið í þjónustu þeirra allt til stríðsloka. Er bandamenn hertóku Kiel í maí árið 1945 fannst þá skipið þar, þá mjög illa farið, en það hafði verið notað sem spítalaskip. Selt 1945-46, Baldvin Einarssyni og Pétri Guðmundssyni í Reykjavík. Þeir komu skipinu til Gautaborgar í Svíþjóð þar sem það var gert upp. Þeir seldu skipið árið 1947, P/F Skipafélag Föroyja, hét þar Tjaldur. Selt til niðurrifs árið 1953, Eisen & Metall K.G.- Lehr & Co í Hamborg í Þýskalandi og var rifið þar sama ár. 


E.s. Gullfoss.                                                                                        (C) Handel & söfart museet.dk

          Gullfoss kominn
      Borgin fagnar skipinu

Börnin vakna snemma þegar hátíð fer í hönd. Tilhlökkunin vekur þau fyrir allar aldir. Svo var það jafnan á "laufabrauðsdaginn" í sveitinni, enda er hann þar sem laufabrauð tíðkast, mesta hátíð barnanna, önnur en jólin. Við erum stundum börn þótt æskuskeiðið sé á enda runnið. Svo var það í gær. Maður vaknaði í sólarupprás og fór á fætur. Rúmletin gat ekki haldið manni í skefjum. Tilhlökkunin knúði mann á fætur og út á götuna. Því nú var sögulegur dagur í vændum, sá dagur, þegar Ísland átti að fagna fyrsta farþegaskipi sínu, fyrsta vorgróðri þeirrar vonar, er þjóðin hefir alið í brjósti um ótal mörg ár, að verða sjálfstæð. Sá bóndi er eigi talinn höldur góður, sem eigi á reipi til þess að binda í hey sitt. Sú þjóð, sem eigi er svo sjálfbjarga, að hún geti flutt að sér lífsnauðsynjar sínar, getur eigi talist með þjóðum, hvað þá heldur öndvegisþjóð. En það voru Íslendingar einu sinni. Hlutur þeirra var fyrir borð borinn, bæði af þeim sjálfum og öðrum, en kyngöfgin, sem með þjóðinni býr gat eigi þolað það um allar aldir. Því er nú margs þess freistað er djarft má teljast og engi örkvisaháttur. Svo er um Eimskipafélagið, en fyrsta skip þess kom í gær. Sem sagt, maður var snemma á ferli. Norðvestangustur næddi yfir borgina, en sólin reis í austri og boðaði ljós og yl yfir landið. Aldrei þessu vant var fólk á ferli hvar sem maður kom. Öllum varð þráin svo sterk að þeir gátu eigi sofið.


E.s. Gullfoss við komuna til Reykjavíkur. Til hægri er togarinn Íslendingur RE 120. (C) Þjóðminjasafn.
  
Gullfoss fer að koma! Eins og fyrr er sagt var svo til ætlast að Ingólfur færi á móti Gullfossi. En Ingólfur varð veðurteptur uppi í Borgarnesi. Þá fékk stjórn Eimskipafélagsins botnvörpunginn "Íslending" til þess að fara á móti skipinu. Hann átti að leggja af stað klukkan hálf átta og það gerði hann líka. Úti fyrir var allsnörp kvika og ekkert var til þess að hressa sig á. Hefði það verið auma lífið ef Elías hefði ekki gefið manni vindla. Nokkru utar eyjum mættum við Gullfossi. Íslendingurinn skreytti sjg fánum og Gullfoss var þegar skreyttur sömu prýði. Rétt áður en skipin mætast kallar Halldór Daníelsson, fyrverandi bæjarfógeti, að allir þeir, sem vilji hrópa húrra fyrir íslenzka skipinu, skuli ganga fram í stafn og urðu allir til þess. Kvað þá við nífalt fagnaðaróp, svo undir tók í fjöllum beggja vegna við landnám Ingólfs Arnarsonar. En er bergmál fagnaðarópsins dó út, kastaði íslendingurinn kveðju á Gullfoss og svaraði íslendingaskipið. Var nú snúið við og kom þá vélskipið "Hera" sem Garðar Gíslason á, og var hann þar sjálfur í stafni. "Hera" var svo fánum skreytt sem frekast var unnt og efst við sigluhúna blöktu tveir stórir íslenzkir fánar.


Gullfoss í Kaupmannahöfn á stríðsárunum.                                       Ljósmyndari óþekktur.
  
Hvar er "Danmark" ? Hvar er "Dannebrog" ? spurði hver annan og gláptu á Gullfoss. Hvar eru þjóðernismerkin, sem skip verða að hafa til þess að Þjóðverjar skjóti þau eigi í kaf ? Jú, við nánari athugun sáust merki eftir rauðar og hvítar randir niður við sjómál á skipinu. Dönsku þjóðernistáknin höfðu verið afmáð í Vestmanneyjum, en sjórinn hafði þvegið hið neðsta af, aðeins til þess að sýna, að þau hefðu verið þar einu sinni. Þá er að minnast á fánana á Gullfossi. Efst við sigluhúna blöktu einkennisfánar félagsins, blár kross (Þórshamar) á hvítum feldi og ýmsar skrautveifur teygðust niður að þilfari. Í afturstafni var Dannebrog póstfáni. Málað var yfir dönsku þjóðernistáknin á hliðum skipsins, svo sem fyrr er sagt, og skal þar ekki fleiri orðum að vikið. En í landi blöktu margir danskir fánar og var það skiljanlegt og fyrirgefanlegt af þeim er danskir eru þótt þeir veifi sinnar eigin þjóðar fána. En íslendingum, bornum og barnfæddum hér, er það eigi afsakanlegt að vilja heldur sýna lit annara þjóða en sinnar eigin. Þá var Th. Thorsteinsson betri. Eigi aðeins lét hann verzlanir sínar veifa íslenzkum fánum, heldur sendi hann einnig bát í móti Gullfossi og var þar veifað óteljandi íslenzkum fánum. Og milli siglutrjánna var sími strengdur og á honum miðjum fangamark verzlunarinnar, en beggja vegna íslenzkir fánar. Var það falleg kaupmannskveðja.


Gullfoss nær flaki er hann fannst í Kiel í stríðslok.                                          Ljósmyndari óþekktur.

Þegar Gullfoss kom inn á milli eyja fluttust farþegar Íslendingsins yfir í hann. Dreif þá jafnharðan að marga báta, stóra og smáa, sem vildu fagna skipinu og voru á flestum þeirra margir menn sem komnir voru til að skoða skipið. Og er það lagðist í hafnarmynninu dreif svo mikill fjöldi fólks um borð að naumast varð þverfótað á þiljum. Allir vildu fá að sjá "skipið sitt", enda var það heimilt. Hélst svo lengi dags að svo krökt var af fólki í skipinu sem fé í rétt þá er þéttast er. Og alltaf kvað við sama viðkvæðið: "En hvað skipið er fallegt" ! "En hvað það er traustlega byggt og snoturlega ! Óhóf ekkert en þægindi sem bezt má verða á slíkum skipum. Og margt fleira var sagt Gullfossi til verðugs lofs. Hvar sem í land var litið úði og grúði af fólki, sem komið var niður að sjónum til þess að fagna skipinu  Kvað þar við lúðrablástur, söngur og fagnaðaróp. Stóðu menn sem þéttast á hafnargörðum beggja megin, steinbryggjunni og Arnarhólstúni. Mátti engri tölu á þann manngrúa koma, en það sögðu þeir, er minnugir eru, að eigi hefði fleira fólk verið hér fram við höfnina þegar Friðrik 8. Danakonungur kom hingað, og verður þó eigi lengra jafnað. Dauf var koman inn á höfnina hefðu eigi bátarnir verið. Hér lágu mörg skip, flest dönsk, en ekkert þeirra fann hvöt hjá sér til þess að varpa kveðju á Gullfoss. "Vesta" og "Sterling" lágu á bakborða og þögðu. "Fálkinn" kvaddi skipið með fánanum á afturstafni en "spariflöggin" sparaði hann og hin dönsku skipin auðvitað líka.


Tjaldur ex Gullfoss l í Kaupmannahöfn.                                           (C) Handel & söfart museet.dk
  
Eina skipið, sem hér lá á höfn og hafði svo mikið við að varpa kveðju á Gullfoss, var franskur botnvörpungur og einn af fyrstu bátunum sem koma til móts við skipið sigldi undir frönsku flaggi og átti hann Chouillou kaupmaður. Þegar Gullfoss staðnæmdist inni á höfninni hélt ráðherra ræðu. Hann stóð á stjórnpalli, en manngrúinn fyrir neðan og hlýddi á. Hann mælti á þá Ieið að þetta væri íslendingum gleði- og gæfudagur. Íslenzka þjóðin fagnaði hér sínu eigin skipi, sem hún hefði eigi einungis lagt fé sitt í, heldur vonir sínar og framtíðarþrá. Sagði hann og, að íslenzka þjóðin færði á þessum degi stjórn Eimskipafélagsins hugheilustu þakkir sínar fyrir ósérplægni hennar og dugnað. Bað hann þess að allar góðar fylgjur yrðu þessu skipi hollar og leiddu það höfn úr höfn og frá hafi til hafs. Að endingu bað hann menn hrópa fagnaðaróp fyrir skipinu og komu þess og kvað þá við margfalt húrra.
Vér áttum tal við nokkra farþega á Gullfossi í gær. Luku þeir allir upp einum munni með það, að eigi hefðu þeir ferðast með skipi, er betra væri í sjó að leggja. Auk þess væru á skipinu ýms þægindi, er menn væru óvanir á þeim skipum, sem til Íslands sigla. Alla aðhlynningu kváðu þeir góða, enda eru veitingaþjónar gamalkunningjar íslendinga, flestir þeirra.

Morgunblaðið. 17 apríl 1915.


Eimskipið Gullfoss, fyrsta skip Eimskipafélags.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.

             Gullfoss í                         Vestmannaeyjum

Vel fögnuðu Eyjamenn íslenzka skipinu. En sem við mátti búast varð koman þar eigi jafn hátíðleg sem hér. Geta skal þó þess, að Eyjabúar færðu skipinu skrautritað ljóð í gyltri umgerð, og er það fest á vegg í matsofu fyrsta farrýmis. Sigurður Sigurðsson hafði ort og er það svolátandi:

Heill og sæll úr hafi
heill þér fylgi jafna.
Vertu giftugjafi
gulls, í milli stafna,
sigldu sólarvegi
signdur drottins nafni,
ötult, djarft að eigi
undir nafni kafnir.

Morgunblaðið. 17 apríl 1915.

Flettingar í dag: 552
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194327
Samtals gestir: 83781
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 06:22:25