28.06.2020 13:36
B. v. Menja GK 2. LCJP.
Botnvörpungurinn Menja GK 2 var smíðaður í Hamborg í Þýskalandi árið 1920 fyrir Grótta hf (Hjalti Jónsson) í Hafnarfirði. 296 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél. 41,76 x 7,34 x 3,80 m. Skipið sökk á Halamiðum í blíðskaparveðri hinn 9 júní árið 1928. Áhöfninni var bjargað um borð í breska togarann Imperialist H 143 frá Hull.
Það einkennilega við þetta sjóslys er að aðfaranótt 9 júní er Hallgrímur Matthíasson loftskeytamaður á vakt í loftskeytastöðinni í Reykjavík. Heyrir hann þá greinilega neyðarkall frá skipi, en nafn sendandans svo óskýrt að hann heyrir það ekki. Hallgrímur skráir niður tímann þegar skeytið berst. Klukkan er þá 2,47. Síðan sendir hann út fyrirspurn um það hver hafi sent neyðarmerki. Þá fær hann svar frá togaranum Imperialist H 143 sem er á Halamiðum:
"Menja er að sökkva. Erum skammt frá henni. Förum þangað strax" Hallgrímur er þess fullviss að neyðarskeytið hafi verið frá Menju. Síðar upplýstist það svo að loftskeytastöð togarans var biluð þegar hann sökk, og skeytið gat því ekki verið þaðan komið. Aldrei upplýstist hvaðan umrætt neyðarmerki kom. Var hér kannski um að ræða eitt þeirra atvika sem aldrei verður hægt að skýra ?
Heimild: Þrautgóðir á raunastund. 1 bindi.
B.v. Menja GK 2 á veiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Nýr togari
Síðastliðið laugardagskvöld kom hingað nýr togari frá Þýzkalandi. Er hanu eign hf. Grótti og heitir Menja. Togarinn er smíðaður í Hamborg og hefir Hjalti Jónsson framkvæmdastjóri dvalið þar undanfarna mánuði til þess að líta eftir smíðinni. Kom hann með skipinu. Menja er 135 feta löng, vélin hefir 560 hestöfl. Skipið er mjög vandað í alla staði. Fór það frá Hamborg á laugardaginn fyrir páska og var þannig rétta viku á leiðinni. Skipstjóri er Karl Guðmundsson.
Morgunblaðið. 5 apríl 1921.
B.v. Menja GK 2 öslar yfir úfinn sæ. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Hellyerstogarinn Imperialist H 143 frá Hull sem bjargaði áhöfn Menju GK. ImperialistHellyers Bros Ltd í Hull. 488 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 457. Tryggvi Ófeigsson skipstjóri og útgerðarmaður í Hafnarfirði og síðar í Reykjavík var skipstjóri á þessu skipi í nokkur ár, þá ungur að árum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Menja GK 2 sekkur í blíðskaparveðri á Halamiðum
Það sló flemtri á menn, er þeir fréttu að "Menja" væri sokkin. "Það er naumast okkur helzt á togurunum," sögðu sumir og auðheyrt var, að skelfingar "Forsetaslyssins vöknuðu upp í huga þeirra. En menn vildu ekki trúa því" að "Menja" hefði sokkið, án þess að árekstur hefði orðið. Töldu sumir fullvíst, að annaðhvort hefði skip siglt á hana eða hún lent á hafísjaka. Kl. 7 í gærmorgun kom togarinn "Surprise" með skipshöfnina af "Menju" til Hafnarfjarðar, bg í gærdag hitti Alþbl. að máli tvo af skipshöfninni. Sögðu þeir söguna á sömu leið báðir. "Menja" fór héðan út á þriðjudagskvöldið var. Fór hún norður að Reykjarfjarðarál og var þar fyrst að veiðum. Síðan var haldið suður á Hala og var þar fjöldi togara að veiðum, 45 sjómílur undan landi. Síðari hluta föstudagsins var stinningsgola, en hægði með kvöldinu.
Um nóttina var hægviðri, en þó var allmikil alda. Hafði aflast dável, og mun hafa látið nærri, að "Menja" hafi haft um 20 tn. lifrar á föstudagskvöldið. Kl. 2 um nóttina tók kyndari eftir því, að sjór fór að koma í vélarrúmið. Streymdi hann allört upp, og fór kyndarinn því inn til yfirvélmeistarans og sagði honum tíðindin. Vélmeistari vildi í fyrstu vart trúa, en fór þó niður í vélarrúmið. Var þá sjórinn þar í ökla. Nú var skipstjóra gert aðvart.
Var þegar tekið að dæla og varpan dregin upp. En dælurnar höfðu ekki við. Sjórinn jókst í skipinu, og ómögulegt reyndist að komast að lekastaðnum. Neyðarfáni var dreginn upp, eimpípan blés og þeir af skipshöfninni, er sváfu, voru vaktir. Bátar voru settir út, og tók það alllangan tíma. Kl. um 31/2 kom togarinn "Imperialist" og fór öll skipshöfnin af "Menju" yfir í hann. Skömmu seinna bar að "Surprise", og kvaðst skipstjóri vera á leið heim. Fór þá "Menju" skipshöfnin yfir í "Surprise". En kL 4 og 40 mínútur seig "Menja" í djúpið. "Surprise" lagði af stað heimleiðis kl. 10 f. h. á laugardag, og eins og sagt hefir verið, kom hann til Hafnarfjarðar kl. 7 í gærmorgun. Skipverjar á "Menju" héldu lífi og limum, en mistu allan sinn farangur.
Á þinginu í vetur kom íhaldið í veg fyrir það, að fram næði að ganga lög um skyldu útgerðarmanna til að tryggja föt og farangur skipverja, þó að svo sé ákveðið í sjólögum margra annara þjóða, að útgerðinni beri að greiða skipshöfnum tjón á fötum og farangri, er þeir verða skipreika. "Menja" sökk án þess að hún ræki sig á önnur skip ,sker eða ís. Ís var ekki einu sinni. nokkurs staðar sjáanlegur. Fólk er slegið ótta, sem vonlegt er. Hverjir verða næstir, og hvernig fer þá? Verða skip í nálægð, og er víst að veður verði sæmilegt, svo að tiltök verði að fara í bátana? Svo spyrja menn. "Menja" var smíðuð í Hamborg árið 1920. Hún var 296 br. smálestir að stærð. Félagið "Grótti" átti hana. Skipstjóri var Kolbeinn Þorsteinsson. Framkvæmdarstjóri "Grótta" er Hjalti Jónsson. Skipið var vátryggt hjá "Trolle & Rothe", og er vátryggingarupphæðin um 400 þús. krónur.
Alþýðublaðið. 11 júní 1928.