15.08.2020 21:22
Togaraverkfallið 1950.
Frá togaraverkfallinu árið 1950. Togararnir liggju bundnir við bryggju í Reykjavíkurhöfn. Við Ingólfsgarðinn liggja 7 togarar. Fremstur er Bjarni Ólafsson AK 67. Svo koma Júlí GK 21, Egill rauði NK 104 og þar innan við er Helgafell RE 280. Svo koma þar innan við 3 bakkaskip og þau eru að ég held, Skúli Magnússon RE 202, Hvalfell RE 282 og 3 skipið gæti verið Röðull GK 518 að ég held. Til hægri er "sáputogarinn" Kári RE 195. (C) Sigurður Guðmundsson.
Togaraverkfallið
Togaraverkfallið hefur nú staðið í 118 daga. Á því tímabili
hafa þrjár miðlunartillögur til lausnar deilunni komið fram. Þá fyrstu þeirra
flutti sáttanefndin í deilunni, þegar verkfallið hafði staðið 79 daga. Í henni
var að engu leyti gengið til móts við sjómenn um raunverulegar kjarabætur,
krafa þeirra um 12 stunda hvíldartíma, jafnt á ísfisk- og saltfiskveiðum, að
engu höfð, ísfiskkjörin engu betri en eftir gömlu samningunum, en
saltfiskkjörin ofurlítið skárri, en hins vegar engin kjarabót frá því, sem
greitt mun hafa verið síðast á saltfiskveiðum. Tillaga þessi var kolfelld, bæði
af sjómönnum og togaraeigendum. Þess má geta í sambandi við þessa fyrstu
miðlunartillögu, að stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur lýsti yfir hlutleysi
gagnvart henni. Næsta tilraun er gerð um mánuði síðar, þá kemur fram ný
miðlunartillaga, sem er í engu betri en sú fyrri. Sú tillaga er þó ekki borin
undir togarasjómenn við allsherjaratkvæðagreiðslu, heldur bregður nú svo
kynlega við að stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur boðar til fundar í félaginu,
en til þess hafði hún ekki fengist áður, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. Á
þeim fundi er sjómönnum sagt undan og ofan af um tillöguna, en farið fram á að
stjórn sjómannafélagsins fái fullt umboð til að semja á grundvelli hennar. Fram
á sama er farið í Hafnarfirði, Keflavík og á Akranesi. Í Reykjavik, Hafnarfirði
og Keflavík neita sjómenn með yfirgnæfandi meirihluta að veita þetta umboð, en
á Akranesi tekst að fá það samþykkt með þeim afleiðingum, að þar er samið upp á
smánarkjör miðlunartillögunnar og þannig vegið aftan að heildarsamtökum
sjómanna. Talið er fullsannað að stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur hafi staðið
þar á bak við.
Hér á Ísafirði var talsvert annar háttur hafður á um afgreiðslu annarrar
miðlunartillögunnar. Hásetar á Ísborg voru boðaðir á fund. Formaður Sjómannafélagsins,
Jón H. Guðmundsson, skýrði fyrir þeim í hverju þessi miðlunartillaga væri
frábrugðin hinni fyrri. Urðu síðan allmiklar umræður um málið. Sjómenn stóðu
einhuga gegn tillögunni, enda höfðu þeir enga aðstöðu til að kynna sér hana,
þar sem formaður hafði ekki aðrar upplýsingar í höndum en það, sem hann hafði
skrifað niður eftir símtali við Torfa Hjartarson, sáttasemjara ríkisins.
Formaður lagði aftur á móti kapp á að tillagan yrði samþykkt, hótaði sjómönnum
gerðardómi að öðrum kosti og að hún skyldi samþykkt þótt síðar yrði. Þessi
hamagangur og hótun formanns hafði þó engin áhrif á sjómenn, þeir feldu
tillöguna með 17 samhljóða atkvæðum, en 6 sátu hjá. Þriðja og síðasta
miðlunartillagan var lögð fram 23. þ.m. bak við hana standa þeir Ólafur Thors og
Emil Jónsson. Sú tillaga er í engu, sem máli skiptir, frábrugðin hinum fyrri.
T.d. er þar ekki gengið að aðalkröfu sjómanna um 12 stunda hvíld á öllum
veiðum, ekki einu sinni á saltfiskveiðum, nema fyrirhugað sé að leggja aflan
upp í íslenzkri höfn, fari t.d. togari í lengri veiðiför og sigli með afla sinn
til erlendrar hafnar, helst 16 stunda þrældómurinn áfram. Hvað kaupkjör snertir
er miðlunartillaga þessi heldur ekkert betri en hin fyrri nema síður sé.
S.l. þriðjudag fá hásetar á Ísborg enn eitt fundarboð. Ekki vissu þeir þó með
vissu hver fundinn boðaði, héldu sumir að það væri formaður, en aðrir stjórn
Ísfirðings h.f., þar sem fundurinn var boðaður á skrifstofu félagsins. Þegar á
fundinn kom reyndist hvorugur þessi aðili fundarboðandi, heldur einn háseti á
Ísborg, eftir því sem næst varð komist. Tilefni fundarins var tillaga, sem hann
flutti um að samið væri við Ísfirðing h.f. upp á væntanleg kjör. Er hann hafði
talað fyrir tillögunni gáfu félagar hans á Ísborg honum rækilega hirtingu og
gengu síðan í einum hóp af fundi. Á þessum fundi voru einnig mættir formaður
sjómannafélagsins og nokkrir menn úr trúnaðarráði félagsins. Sótti formaður
fast að miðlunartillaga Emils og Ólafs Thors yrði samþykkt við væntanlega
allsherj -aratkvæðagreiðslu, sem fer fram í dag, og ítrekaði fyrri hótanir.
Þessi hótun formanns mun engin áhrif hafa. Hásetar á Ísborg standa einhuga gegn
smánartilboðinu og félagar þeirra í sjómannafélaginu munu áreiðanlega ekki láta
hafa sig til að samþykkja það.
Baldur. 26 október 1950.