17.08.2020 07:51

V.b. Auður djúpúðga DA 1.

Vélbáturinn Auður djúpúðga DA 1 var smíðaður í Bátasmíðastöð Breiðfirðinga í Hafnarfirði árið 1955 fyrir þá útvegsbændur Lárus Magnússon á Heiðnabergi og Guðmund Lárusson á Fremribrekku í Dalasýslu. 10 brl. 44 ha. Kelvin vél. Heimahöfn bátsins var í Salthólmavík. Auður var fyrsti báturinn sem skráður var í Dalasýslu (DA). Báturinn var seldur 29 maí 1958, Sigurði Árnasyni, Jóni Stefánssyni, Stefáni Stefánssyni og Jósep Stefánssyni á Skagaströnd, sama nafn en HU 12. Báturinn er talinn hafa farist utarlega á Húnaflóa í ofsaveðri hinn 24 mars árið 1961. Áhöfnin, 2 menn, fórust með honum. Auður hafði verið seld til Akraness og voru hinir nýju eigendur á heimleið með bátinn frá Skagaströnd.

Löngu síðar eða 10 maí fannst báturinn. Vélbáturinn Sædís ÍS frá Bolungarvík fór þá á Hornstrandir og var ætlunun að huga að reka. Í svokölluðum Smiðjuvíkurvogi um 2 klukkustunda frá vitanum á Látrum fannst flakið af Auði djúpúðgu rekið. Var botninn úr bátnum og vélin var farin, en gúmmíbjörgunarbáturinn var óhreyfður á sínum stað. Líklegt þótti að báturinn hafi strandað á þessum slóðum en úti fyrir Smiðjuvík eru miklar grynningar. Þótti ekki ólíklegt að báturinn hefði sokkið, en skolað síðan upp á land í næsta stórbrimi.

Heimild: Þrautgóðir á raunastund. XlV bindi.


Vélbáturinn Auður djúpúðga DA 1.                                Ljósmyndari óþekktur.

      Fyrsti báturinn skrásettur í                Dalasýslu er nú á förum vestur

Nýlega var sjósettur hjá bátasmíðastöð Breiðfirðinga í Hafnarfirði 9,6 smálesta fiskibátur, er hlaut nafnið Auður Djúpúðga DA-1. Heimahöfn bátsins verður Salthólmavík og er þetta fyrsti báturinn, sem er skrásettur í Dalasýslu. Í bátnum, sem er aldekkaður, er 45 hestafla Kelvin disel vél, sjálfritandi dýptarmælir og talstöð. Báturinn er með þeim vönduðustu, sem hér hafa verið smíðaðir. Í reynsluför gekk hann 9 sjómílur. 
Eigendur bátsins eru þeir Lárus Magnússon á Heiðnabergi og Guðmundur Lárusson á Fremri-Brekku. Þeir munu ætla að sækja sjó á bátnum mest á Breiðafirði og aðallega að sumrinu. Í lúkar eru hvílur fyrir þrjá menn. Einnig er þar eldavél og handlaug, einnig fataskápur.

Tíminn. 19 apríl 1955.


Bátasmíðastöð Breiðfirðinga í Flatahrauni í Hafnarfirði 1948. Fyrstu 3 bátarnir sem smíðaðir voru þar. Húsnæðið var hermannabraggi. (C) Þorbergur Ólafsson.
         
              Vélbáturinn "Auður djúpúðga"                          er talinn af
    Með honum fórust tveir menn 

Vélbáturinn Auður djúpúðga er nú talinn af. Leit hefur verið haldið uppi svo sem fært hefur verið frá því að tilkynnt var síðastliðið föstudagskvöld að um bátinn væri óttazt. Í gær voru leitarskilyrði góð og tóku þá tvær flugvélar þátt í henni, bæði landhelgisvélin Rán og björgunarflugvél Björns Pálssonar. Skip tóku einnig þátt í leitinni. Leitarsvæðið var Straumnes og strandlengjan með Húnaflóa allt vestur að Hornbjargi. Einnig var leitað djúpt á haf út. 
Henry Hálfdánarson forstjóri Slysavarnafélags Íslands skýrði blaðinu frá því í gærkvöldi að svo vel hefði nú verið leitað að óhugsandi væri að nokkur stærri hlutur úr bátnum hefði farið fram hjá leitarmönnum, sem flugu mjög lágt og hefðu því auðveldlega séð hvort heldur væri um að ræða brak eða gúmmbát við eða á ströndinni. Einnig hefðu þeir séð spor í snjónum ef einhver hefðu verið. Margt bendir til þess að báturinn hafi aldrei komizt fyrir Horn og því var öll áherzla lögð á að leita á Húnaflóa. Ísing lagðist á skip í óveðrinu um helgina en þótt það hefði ekki orðið til að granda bátnum gat margt hent hann, þar sem mjög skerjótt er með Hornströndum. Sem fyrr hefir verið skýrt frá í fréttum voru tveir menn á bátnum Auði djúpúðgu, þeir Karl Sigurðsson, Skagabraut 44, Akranesi og Bernódus Guðjónsson einnig frá Akranesi. Karl var 47 ára, kvæntur og átti eina dóttur og fósturson. Bernódus var ókvæntur, hálfsextugur að aldri og átti 7 systur.
Vélbáturinn Auður djúpúðga var trébátur, 10 lestir að stærð og mun ekki hafa verið búinn ratsjá. Hann var smíðaður í Hafnarfirði 1955.

Morgunblaðið. 29 mars 1961.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30