29.08.2020 19:32

Siglufjörður á millistríðsárunum.

Þegar Siglufjörður var nefndur á nafn hér á landi um miðja síðustu öld kom flestum saman um að þar væri vagga síldveiðanna hér við land og einnig Eyjafjörður, sem auðvitað er rétt. Segja má að Siglufjörður hafi verið stærsti síldarbær í heimi miðað við höfðatölu, en á þessum krepputímum streymdi fólk hvaðanæva af landinu til að vinna í síldinni. Fólk úr sveitum landsins sá þar tækifæri til að losna úr hinum alræmdu"vistaböndum". Þar fékk fólk borgað í peningum sem var ekki títt á þessum tíma. Á Siglufirði voru margir síldargrósserar. Í hugan kemur nafn Óskars Halldórssonar sem má segja að sé "holdgerfingur" síldarævintýrisins hér á landi nánast frá upphafi fram yfir árið 1950. Alveg magnaður karakter. Marga aðra má nefna, danann Sören Goos, Ásgeir Pétursson, Anton Jónsson, Ingvar Guðjónsson og margir fleiri. En það var ekki bara við Eyjafjörðinn sem síldarplönin og síldarbræðslurnar voru reistar, þær voru það einnig víða á landsbyggðinni. Síldin átti sinn þátt ásamt mörgu öðru við sjávarsíðuna að koma þjóðinni endanlega úr moldarkofunum inn í þá tækniveröld sem á þessum árum var að byggjast upp hér á landi, hægt og rólega.


Siglufjörður um árið 1930. Síldarævintýrið í algleymingi.                                (C) Jón & Vigfús.

 Síldarolíu og fiskimjölsverksmiðjur
             á Íslandi fyrr og nú

Evangers verksmiðjan á Siglufirði, var reist árið 1912, en eyðilagðist í snjóflóði 1919. Verksmiðjan »Ægir« í Krossanesi við Eyjafjörð, er einnig reist árið 1912 og sama ár byggir Goos verksmiðju sína á Siglufirði. Árið 1913 var verksmiðja reist á Dagverðareyri við Eyjafjörð, en hún brann árið 1916; var hún byggð upp aftur en hætti eftir fá ár og var flutt til Raufarhafnar 1926. 1918 reistu hinar sameinuðu íslenzku verzlanir, verksmiðju á Siglufirði, en hana keypti síðar Goos.
1913 byrjuðu Þjóðverjar síldarbræðslu á Sólbakka við Önundarfjörð, sem lagðist niður um tíma. Síðar byrjaði h. f. Andvari, sem stofnað var 1925. H. f. »Kveldúlfur« í Reykjavík á verksmiðju á Hesteyri við Ísafjarðardjúp, sem byrjað var að starfrækja árið 1923. Var þar áður hvalveiðastöðin »Hekla«, 1926 var verksmiðjan á Dagverðareyri flutt til Raufarhafnar og er starfrækt þar. 1929 er byrjað að reisa síldarbræðslustöð ríkisins á Siglufirði.
Árið 1915 reisti ræðismaður Gísli Johnsen verksmiðju í Vestmannaeyjum, sem starfrækt er enn og aðra verksmiðju reisti Thomsen o. fl. á sama stað, árið 1924. Það ár var verksmiðja á Norðfirði sett á fót af Dr. Paul. 1926 var verksmiðja reist á Ísafirði, sem nú er eign »Fiskimjöl h. f.« á Ísafirði, og sama ár byrjaði Dr. Paul að reka verksmiðju á Siglufirði og er hún einnig síldarolíuverksmiðja. 1927 reisti ræðismaður Gísli Johnsen fiskimjölsverksmiðju á Vatnsnesi við Keflavík, en hún brann skömmu síðar, var endurreist 1929 og er nú eign h. f. Lýsi og mjöl. 1928 var verksmiðja reist í grennd við Reykjavík og rekur h.f. »Fiskimjöl hana. H. f. »Bein« reisti verksmiðju á Siglufirði árið 1929, sem tók til starfa hið sama ár.

Ægir. 6 tbl. 1 júní 1930.


Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31