16.09.2020 17:01

B. v. Fylkir RE 171. TFCD.

Togarinn Fylkir RE 171 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1958 fyrir samnefnt hlutafélag í Reykjavík. 642 brl. 1.500 ha. Holmes Werkspoor díesel vél. Samið var um smíði þessa skips stuttu eftir að Nýsköpunartogarinn Fylkir RE 161 sökk 2 árum áður á Halamiðum eftir að hafa fengið tundurdufl í veiðarfærið og það sprungið undir síðu þess. Skipið var selt í janúar 1966, Newington Steam Trawlers Ltd í Hull, fékk nafnið Ian Fleming H 396. Togarinn strandaði og sökk í Havöy sundi í Norður Noregi á jóladag árið 1973. Áhöfnin, 20 menn, komust í 2 gúmmíbjörgunarbáta. Öðrum bátnum hvoldi með þeim afleiðingum að 3 skipverjar fórust. Þeim 17 skipverjum sem komust af var bjargað um borð í báta úr byggðunum við Havöy sund.


B.v. Fylkir RE 171 á toginu.                                                                        (C) Ingi Rúnar Árnason.

                  Nýr b.v. Fylkir

Nafnið Fylkir, sem féll út af skipaskrá togaranna í nóvember 1956, hefur nú verið fært aftur inn á þá skrá með einkennisstafina RE-171. Nýi Fylkir, eign hlutafélagsins Fylkis hér í Reykjavík, sigldi inn á Reykjavíkurhöfn 6. júní s.l. Hinn kunni togaraskipstjóri og síðar útgerðarmaður, Aðalsteinn Pálsson, stofnaði hlutafélagið Fylki og keypti, er nýsköpunartogararnir voru byggðir, eldri Fylki, sem fórst á Halamiðum í nóvembermánuði 1956, er tundurdufl sprakk í vörpunni undir skipinu. Aðalsteinn var þá fallinn frá, en áður var orðinn framkvæmdastjóri hlutafélagsins, Sæmundur Auðunsson, skipstjóri, einn kunnasti aflamaður togaraflotans. Hóf félagið þegar í stað eftirgrennslan um kaup á togara, og varð það úr, að í febrúar 1957 fékk Fylkir h.f. smíðasamning við Beverley skipasmíðastöðina, sem smíðaði eldri Fylki, um smíði á 176 feta togara, rúmlega 640 tonna. Hófst svo smíði togarans í septembermánuði síðastliðinn.
Fylkir er dieseltogari, og var ganghraði hans í reynsluför 14,2 mílur en vélin er 1400 hestafla. Á heimleið frá Hull var siglt með 11 mílna hraða, og var togarinn 3 sólarhringa og 15 klst. hingað heim. Auðunn Auðunsson skipstjóri taldi það einna helzt frásagnarvert um skipið, að vél þess væri mjög sparneytin, eða færi með 2 ½  tonn af svonefndri gasolíu á sólarhring. Aðalvélin er þannig byggð, að enginn gír er milli hennar og skrúfunnar, eins og er í eldri dieseltogurunum. Aðalvélin knýr rafal á siglingu, sem er fyrir allt rafkerfi skipsins. Spilið, sem er rafknúið, er rúmlega 300 hestafla og er fyrir það sérstök vél. Fylkir mun vera fyrsti togarinn hér í Reykjavík, sem er með sjálfvirkt stýri, sem hægt er að setja í samband í lengri siglingum og síðan þarf ekki að fást um stefnuna og aðeins einn mann þarf í brú til að vera á varðbergi. Getur sá án efa gripið í stýrið ef eitthvað óvænt ber að höndum og skyndilega þarf að breyta stefnu skipsins. Þá er Fylkir fyrsti togarinn, þar sem aðeins einn björgunarbátur er á bátapalli. Hægt er að setja hann út hvoru megin sem vill og tekur aðeins 20 sek. Hann getur borið alla áhöfn skipsins, en auk hans eru á skipinu gúmmíbjörgunarbátar mjög burðarþolsmiklir hver um sig.
Fylkir er fyrsti togarinn, sem byggður er eftir stríð, þar sem öll siglingatæki og loftskeytastöð er að öllu leyti brezk smíði, en hann er búinn að öllum þeim öryggis- og fiskveiðitækjum, sem nú tíðkast. Auðunn skipstjóri skýrði frá því, að togari þessi væri nokkuð breiðari en tíðkast hefði um smíði togara af þessari stærð. Væri það m. a. af því, að eftir að sjóslysið mikla varð hér á árunum út af Horni, er tveir brezkir togarar, annar nýbyggður fórust, þá var talið að óstöðugleiki skipanna hefði átt sinn þátt í því hversu fór. Var því stöðugleiki togaranna aukinn, og er Fylkir einn þeirra. Athyglisvert er hversu brúin á Fylki er lítil, t. d. miðað við togara bæjarútgerðarinnar, Þormóð goða. Sagði Auðunn að vegna þessa þyrfti ekki að hafa hreyfanlegt stýri í brúnni, því auðveldlega sæist frá stýri, þegar verið væri að toga. Þar er og miðstöð hátalarakerfis, sem er um allt skipið og fram á þilfarið. Hinir kunnu bræður, sem báðir hafa víðtæka þekkingu á öllu, sem lýtur að hæfni togara, og um góðan frágang á öllu handbragði, kváðust vera mjög ánægðir með hinn nýja togara, er kostaði kringum 260 þús. sterlingspund, sem er tæplega 12 milljónir króna.

Sjómannablaðið Víkingur. 6 júní 1958.


B.v. Fylkir RE 171 við komuna til landsins hinn 6 júní árið 1958.          (C) Jón Hákon Magnússon.


Ian Fleming H 396.                                                                                   Mynd úr safni mínu.


Málverk af Ian Fleming H 396.                                                                      (C) P. Dell.

      Sóttu Ian Fleming til Íslands

Eins og lesendum er kunnugt var togarinn Fylkir frá Reykjavík seldur til Hull í fyrra mánuði. Kaupandi var togarafélagið Newington Steam Trawling þar í borg, en það skírir skip sín í höfuðið á frægum brezkum rithöfundum, t. d. Somerset Maugham, Joseph Conrad, James Barrie o.s.frv. Nú er svo búið að skíra Fylki upp og hlaut hann nafnið lan Fleming, hvorki meira né minna. lan Fleming, sem er nýlega dáinn, var sem kunnugt er höfundur hinna víðfrægu James Bond bóka, sem lesnar eru af milljónum manna um allan heim. Við verðum aðeins að vona, að hinn upprisni Ian Fleming hafi ekki neina James Bond tilburði í frammi í íslenzkri landhelgi, þegar fram líða stundir.

Alþýðublaðið. 23 febrúar 1966.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30