27.09.2020 07:38
B. v. Egill rauði NK 104. TFKC. Vatnslitamynd skotans Georges Wiseman.
Skoski málarinn George Wiseman 1906-1986, málaði margar
myndir af íslensku togurunum þegar þeir lágu í höfn í Aberdeen. George og kona
hans, ráku krá eða matsölustað við höfnina og þar hafði hann gott tækifæri að
mála myndir sínar sem skipta hundruðum. Hann byrjaði ungur að mála, ekki bara
skipamyndir heldur af flestu sem fyrir augu hans bar. Íslenskir sjómenn komu
oft á matsölustað þeirra hjóna, en hvort þeir hafi beðið hann að mála mynd af
skipum sínum eða hann hafi boðið þeim þær til kaups, veit ég ekki. Hann kom
hingað til lands, ferðaðist um og málaði myndir. Vatnslitamyndin af Agli rauða
NK 104 hér að neðan er einmitt máluð af honum og sennilega máluð fyrir Jón Svan
Sigurðsson sem var framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Neskaupstaðar á árunum 1952
til ársins 1960, þegar hún var lögð niður eftir að togarinn Gerpir NK 106 var
seldur Tryggva Ófeigssyni útgerðarmanni í Reykjavík í júlí árið 1960. Myndin
hékk upp á vegg á skrifstofu Bæjarútgerðarinnar þann tíma sem Jón Svan var þar.
Grétar, sonur Jóns, fékk svo myndina hjá föður sínum og var hún hjá honum um
áratuga skeið. Fyrir nokkrum árum færði Grétar, Hólmfríði Guðjónsdóttur myndina
að gjöf, en hún er dóttir Guðjóns Marteinssonar sem var stýrimaður á togaranum
um skeið, og væntanlega hangir hún upp á vegg á heimili hennar.
Nýsköpunartogarinn Egill rauði NK 104 á ferð um úfinn sæ. (C) Hólmfríður Guðjónsdóttir.