30.09.2020 06:44

2. m. kt. Helga EA 2. LBHP / TFMH.

Þilskipið Helga EA 2 var smíðuð hjá John Wray and Son í Burton Stather á Englandi árið 1874. 71,61 brl. Hét áður Onward og var í eigu John Gilliat í Hull á árunum 1880-90. Árið 1898 kaupir Þórarinn (Thor) Tulinius útgerðar og kaupmaður á Eskifirði skipið og fær það þá nafnið Helga (sennilega skírð í höfuðið á eiginkonu Þórarins, en hún hét Helga Frich.) og er þá gerð út á handfæraveiðar frá Eskifirði. Ottó Tulinius, bróðir Þórarins, keypti skipið árið 1901 og var þá Helga gerð út á handfæra og reknetaveiðar frá Akureyri. Árið 1908 fór fram viðgerð á Helgu, en hún var endurbyggð mikið veturinn 1915-16 af Bjarna Einarssyni skipasmið á Akureyri. Einnig var þá sett 40 ha. Dan vél í skipið. Á árunum 1919 til 1930 er Helga gerð út af Tuliniusarversluninni á Akureyri. Seld 26 nóvember 1930, Ludvig Möller á Hjalteyri í Eyjafirði. Seld 24 september 1931, Viglundi Möller á Hjalteyri. Ný vél (1934) 130 ha. June Munktell vél. Helga var talin ónýt og tekin af skipaskrá 29 ágúst árið 1944.
Þegar þarna var komið er Helga ekki búin að syngja sitt síðasta. Hún var fyllt af kolum á Akureyri og póstbáturinn Ester EA 8 dró Helgu til Drangsness við Steingrímsfjörð og var þar notuð sem veiðarfæra og tunnugeymsla. Var þá búið að rífa af henni stýrishúsið og taka vélina úr. Hún slitnaði upp af legunni seint í september sama ár í stormi og rak út fjörðinn og út á Húnaflóa. Sennilega hefur hún tekið niðri á einhverjum boðunum sem þarna eru margir og brotnað í spón. Til er saga um endalok Helgu sem rituð er af Grími Karlssyni skipstjóra í Njarðvík, en hún er mjög svo sveipuð dularljóma. Grein hans fylgir hér með að neðan 


Kútter Helga EA 2 út við Látraströnd.                                                    (C) Hallgrímur Einarsson.

     Landtökusigling fyrir Vestfjörðum        

          í maímánuði árið 1908

Veturinn og vorið 1908 var ég skipstjóri á kútter "Helgu" á handfærafiskiríi út af Vestfjörðum, en fyrst um vorið fiskuðum við mest á Húnaflóa. Kútter "Helga" var rúm 70 tonn að stærð, mig minnir 72 tonn. Hún var orðlögð fyrir að vera ágætis sjóskip og siglari í meðallagi. Kútter "Helga" var" þá orðin eign Otto Tuliniusar, kaupmanns og útgerðarmanns á Akureyri. Um sumarið var ég einnig skipstjóri á "Helgu". Þá lét Otto Tulinius mig kaupa fisk í hana af þremur þilfarsmótorbátum. Áhöfn þeirra var um borð í skipinu. Einnig keypti ég fisk af litlum, norskum fiskikútter, sem hét "Norðurljósið", og líka af opnum, norskum róðrabát, sem lá við um borð í "Norðurljósinu". "Norðurljósið" keypti síðar Stefán Jónasson, útgerðarmaður, þá á Akureyri. Líka keypti ég nýjan og saltaðan fisk af öðrum norskum mótorfiskiskipum öðru hvoru, sem voru þá að fiska hér við norðurströndina um sumarið. Fyrri part sumarsins lágum við á Siglufirði, en seinni partinn vorum við á Raufarhöfn. En þessi fiskikaup fyrir Otto Tulinius á kútter "Helgu" er nú önnur saga, sem ekki verður skráð hér nánar. Það var snemma í maímánuði þetta ár, að við vorum að fiska snemma morguns í slæmu sjóveðri út á vesturkantinum við Ísafjarðardjúp. Vindstaðan var norðaustan og ástaðan mjög slæm. Fiskur var þess vegna mjög tregur. Við slitum upp einn og einn fisk, við og við. Við lágum með stjórnborðshálsi, og höfðum rif í stórsegli og messanum.
Veður fór sízt batnandi, svo útlit var fyrir að engin ástaða yrði, þegar á daginn leið. Við vorum að verða neyzluvatnslausir, ég ákvað því að nota daginn til að sigla inn á Önundarfjörð og taka vatn. Við leystum rifin úr seglunum og lensuðum því með bakborðshálsi inn á Önundarfjörð. Klukkan 8 um kvöldið vorum við búnir að sækja vatnið og komnir út af Súgandafirði, fremur grunnt. Þar var þá kútter "Samson" frá Akureyri, sem var eign Ásgeirs Péturssonar, útgerðarmanns á Akureyri, að fiska. Skipstjóri á honum var Sigtryggur Jóhannsson, Eyfirðingur, ættaður frá Skipalóni í Eyjafirði. Sigtryggur fiskaði ágætlega, og fór ekki að landi nema veður væri ískyggilegt. Kútter "Samson" var um 90 tonn, en heldur verra sjóskip en kútter "Helga".


Kútter Helga EA 2 í uppsátri á Oddeyrartanga haustið 1915. Þennan vetur var skipið mikið endurbyggt og vél sett í það. Spurning hvort stýrishúsið hafi verið þá sett á það.  (C) Hallgrímur Einarsson.  

Hann var að fiska eins og við á Vesturkantinum við Ísafjarðardjúp um morguninn, en hafði um daginn grynnt þetta á sér, vegna ástöðunnar. Hann lá þarna með bakborðshálsi og hafði tvö rif í seglum. Ástaðan var engin orðin. Nótt var orðin að mestu leyti björt, nema skuggsýnt rétt fyrir lágnættið í um tvær klukkustundir. Við sigldum með stjórnborðshálsi rétt fram fyrir kútter "Samson" og höluðum þar niður. Veðurútlit var ískyggilegt og loftvogin heldur að falla. Vindáttin var sú sama, norðaustan og ljótur bakki til hafsins. Hálf vaktin var undir færum á kútter "Samson" og engin ástaða. Ég átti kvöldvaktina á dekki. Við fórum strax að rifa seglin, og settum tvö rif í bæði stórseglin og messan. Klukkan 10 um kvöldið var landsýn að hverfa fyrir hríðarsortanum. Enginn ástaða var og vindur orðinn allhvass norðaustan, eða sama vindstaða og verið hafði um daginn. Rétt áður heisti kútter "Samson" framseglin, og byrjar að sigla til lands með stefnu á Önundarfjörð. Það var fyrirsjáanlegt, að hann var að ganga í norðaustan garð með talsverðri snjókomu og frosti. En það var þrái í okkur að fara ekki strax aftur að landi, svo ég ákvað að leggja skipinu til með stjórnborðshálsi yfir nóttina og taka þá heldur land með morgninum, ef veður ekki batnaði, sem var nú raunar fyrirsjáanlegt að ekki mundi verða.
Ég þekkti kútter "Helgu" vel. Hún var nýlega viðgerð og fyrirmyndar sjóskip, eins og áður var sagt, og komið fram í maímánuð, svo ég áleit að ekkert væri að óttast, þó veður versnaði, því bjart yrði orðið eftir svo sem þrjá til fjóra klukkutíma, og þá væri hægt að taka land. Ég hafði nokkurn veginn vissan stað skipsins klukkan ellefu um kvöldið, en þá lögðum við skipinu til og létum hala út með stjórnborðshálsi og stormklifir í bak, eða höluðum hann á móti vindi rétt fyrir framan stefni skipsins. Var þá lítil hætta á að skipið færi fyrir stag, þó það halaði áfram upp í sjóinn. Klukkan hálf tólf um kvöldið var komið rok og snjókoman og frostið mjög að aukast. Lét ég þá þrírifa stórseglið og taka niður messaninn. Sjórinn var orðinn mjög mikill. Skipið varði sig ágætlega og tók engan sjó á sig, en vegna veðurhæðarinnar og hvað sjórinn var orðinn mikill, þá stóð alltaf sjórokið yfir skipið. Frostið var orðið svo hart, að allt, sem inn kom, fraus í krap og hlóðst utan á skipið og upp eftir reiðanum. öll vaktin, 11 menn, stóð á dekki, sumir börðu klakann utan af skipinu, en aðrir mokuðu krapa og klaka út af þilfarinu. Um vaktaskiptin klukkan 1 næsta dag, kom bakboðsvaktin (eða stýrimannsvaktin) öll á þilfar, og ég skipaði minni vakt, eða stjórnborðsvaktinni, að vera til skiptis á vakt, helmingnum í einu, því ekki hafðist við að berja utan af skipinu klakann, sem til náðist, eða moka út krapinu af þilfarinu. Sízt batnaði veðrið, þegar fór að birta og í birtingunni jók hann mjög frostið.


Helga EA 2 með fullfermi af síld, sennilega á Siglufirði.                           Ljósmyndari óþekktur.

Allt varð að krapa og klaka, sem festist á skipinu og sem inn kom, og skipið fór að erfiða þyngra í sjónum, en varði sig þó prýðilega eftir ástæðum, og tók aldrei, svo heitið gæti, á sig sjó. Riðu þó margir stórsjóarnir að því, en kútter "Helga" kláraði sig næstum ótrúlega vel af þeim. Klukkan 8 um morguninn var skipið að verða svo hlaðið að utan af klaka, að fyrirsjáanlegt var, að það mundi sökkva eða leggja sig á hliðina eftir nokkra klukkutíma, svo við vorum nauðbeygðir til, upp á líf og dauða, að leita lands, þó ekki væri það árennilegt, því skyggnið var ekkert vegna snjókomunnar, á að gizka 5 til 10 faðmar, og sjórinn svo mikill, að segja mætti ósiglandi væri fyrir stórsjó og veðurofsa. Og nú þurfti að leggja skipinu yfir stag, og hvernig mundi það takast í slíkum veðurofsa? En þetta varð að gerast, því eftir nokkra klukkutíma yrði skipið yfirísað, þó nú stæði öll áhöfn þess við að berja af því klakann og ryðja út af því snjókrapinu og klakanum, sem barinn var niður. En heppnin var með okkur, því rétt í því að ég ákvað að reyna að leggja skipinu yfir, þá fór það sjálft fyrir stag, en við vorum viðbúnir að hala inn á stórskautinn, en þá slitnaði stopptalían áður en stórseglið, sem uppi var tvírifað, varð vindfullt, og það bjargaði því, að ekki fór stórskautið líka. Og jafn snemma þessu var tveim hásetum skipað að taka stýrið, og landtökusiglingin var hafin, en hvernig mundi hún takast? Rétt strax var þríhyrna af tvírifuðum messanum heist og þrírifuð stagfokka, en við urðum strax að taka þessi segl niður aftur, því skipið bar þau ekki. Og von bráðar var fjórða rifið tekið í stórseglið, því skipið bar ekki meiri segl fyrir veðurofsanum.
Mjög var erfitt að verja skipið áföllum. Við hengdum þrjá tvöfalda lifrarpoka utan á kulborðssíðu skipsins. Einn á bóginn að framan, annan um stórvantinn og þann þriðja rétt fyrir framan afturvant. Tel ég, að það ráð hafi bjargað landtökusiglingunni, því sjórinn óð svo inn á skipið, vegna þess hvað það var mikið yfirísað, og þoldi miklu verr fyrir það. Þó seglið væri ekki stærra en þetta, aðeins fjórrifað stórsegl, var það samt of stórt, urðum við þess vegna að beita svo nærri vindi, að seglið var ekki að fullu vindfullt eða kól úr því vindinn við fram jaðar. Eftir ágizkaða drift skipsins um nóttina, til kl. 8 um morguninn næsta dag, áleit ég vera það mikla, að við mundum ná að líkindum einhvers staðar upp í Önundarfjarðarmynnið. Það dró fremur úr sjónum og veðurofsanum, þegar nær kom landi. Klukkan hálf tólf um morguninn hjó í land. Var dimmviðrið vegna snjókomunnar ekki alveg eins mikið, og sjórinn orðinn mikið minni og veðurhæðin líka. Við þekktum landið strax. Við vorum vestan til í Önundarfjarðarmynninu. Ég lét þá strax heisa tvírifaðan messaninn og tvírifaða fokku, einnig slógum við fyrir stormklífirnum og tókum hann fram á miðja klífisbómu.


Kútter Helga EA 2. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Beittum við nú skipinu það, sem hægt var og náðum við á þessum slag með bakborðshálsi lengra inn í Önundarfjörðinn, svo alltaf dró úr sjónum. Tókum við einn stuttan slag, þar til við náðum inn á leguna í Önundarfirði. Eftir því, sem við komum innar í fjörðinn, rofaði betur til. Svo var skipið yfirísað að framan, að slétt var af spili og fram á stefni. Urðum við því að halda okkur við þarna á höfninni með smá slögum í klukkutíma, meðan við vorum að berja klakann af akkerisspilinu, þar til við gátum látið akkerið falla. Og ennþá var eftir að ná niður seglunum. Til klukkan 3 eftir miðdag var öll áhófn skipsins á þilfari að berja af klaga og ryðja út. Þá fyrst vorum við búnir að ná niður fjórrifuðu stórseglinu. Fékk þá fyrst frívaktin að fara niður og hin dekkvaktin, nema einn maður, sem var uppi, fékk að fara niður að fá sér kaffi. Enginn smakkaði vott né þurrt frá því klukkan 11 kvöldið áður. Sigtryggur Jóhannesson á kútter "Samson", sem lá þarna inni á Önundarfirði, sagði mér, að ómögulegt hefði verið að þekkja skipið fyrir ís og klaka. Hvergi nokkurs staðar sást á óísaðan blett á því, nema efri hluta reiðans. En af því að hann vissi hvar við vorum úti, þegar hann tók Önundarfjörð kvöldið áður, þá sagðist hann hafa gizkað á að þessi íshrúga væri kútter "Helga". Ekki frétti ég um neinar slysfarir af völdum þessa aftakaveðurs, eða að skip hefðu farizt, enda vissi ég ekki til að eitt einasta fiskiskip hefði verið úti í þessu ofsaveðri úti fyrir Vestfjörðum, nema við. Veðrið var líka fyrirsjáanlegt kvöldið áður, svo öll fiskiskipin hafa leitað lands, þó fáa hafi líkast til grunað að slíkt ofsaveður, með jafnmikilli frosthörku, mundi skella á í byrjun maímánaðar. Reyndar hafa margir maí-garðar kollvætt margan sjómanninn áður hér út af Vestfjörðum og fyrir Norðurlandi, og mörg fiskiskip farizt í þeim. Í tólf og hálfan klukkutíma var að hlaðast á skipið allur þessi ís og klaki, ekki var það nú lengri tími, þó meginhluti skipshafnarinnar berðist við að berja utan af því á þessu tímabili. Ég tel víst, að skipið hefði verið búið að vera eftir um 15 tíma útiveru vegna yfirísunar. Ekki er ég heldur í neinum vafa um það, að þetta ágæta sjóskip, kútter "Helga", hefur varið sig betur fyrir öllum áföllum og yfirísun, heldur en nokkur nýsköpunartogari nú á dögum. Er það líka vegna þess, að tréskipin taka ekki eins á móti yfirísun eins og járn- eða stálskip. Það er nú líka svona, að skip verja sig betur undir seglum, ef þeim er rétt lagt til, heldur en fyrir vélakrafti. Það skyldi því engan undra, þó ensku togararnir "Lorella" og "Roderigo" færust síðastliðinn vetur vegna yfirísunar, úr því þeir tóku ekki þann kostinn í tíma að leita til lands, því það er engum nýsköpunartogara fært að liggja úti fyrir Vestfjörðum í miklu frosti og norðaustan veðurofsa um lengri tíma, vegna yfirísunar.
Ég lýk svo þessari seinni frásögn minni, sem getur vel sýnt nýsköpunartogara-skipstjórunum nú til dags, að það er ekki ráðlegt fyrir þá að liggja úti í norðaustan görðum og miklu frosti úti fyrir Vestfjörðum, jafnvel þó maímánuður sé kominn, þó ég væri svo vitgrannur og sauðþrár, að treysta of mikið á þetta ágæta skip, sem ég var þá skipstjóri á, til þess að þurfa ekki strax að sigla að landi aftur.

Sjómannablaðið Víkingur. 1 október 1955.
Frásögn Sigurðar Sumarliðasonar skipstjóra.


Helga EA 2. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                       (C) Grímur Karlsson.

        Mannlaust skip á reki fyrir                             Norðurlandi

Mannlaust skip er á reki fyrir Norðurlandi. Er þetta skipið Helga, EA 2, frá Hjalteyri. Skipið lá við festar við Drangsnes, en slitnaði upp af legunni fyrir nokkru síðan og rak það til hafs. Síðan hefir tvisvar sinnum spurst til þess á reki fyrir Norðurlandi og nú síðast, er það var út af Skaga. Skipið er vjelarlaust og hefir það legið við Drangsnes nokkurn tíma. M.s. Helga er byggt árið 1874; er það 72 smálestir. Núverandi eigandi þess er Kristján Einarsson, framkvæmdastjóri í Reykjavík.

Morgunblaðið. 23 september 1944.


                       Helga EA 2

Helga EA 2 var keypt til Íslands nokkru fyrir aldamót. Hún var smíðuð í Englandi 1874 og var 80-100 rúmlestir, skipið hlaut í upphafi nafnið "Onvard". Skipið var smíðað í litlu þorpi og var smíðin framkvæmd nokkuð langt frá byggðinni vegna aðstæðna til sjósetningar. Þegar skipinu var hleypt af stokkunum misstu þeir það á stjórnborðs hliðina. Unnusta yngsta smiðsins varð undir skipinu. Hún var borin stórslösuð um borð í skipið og lögð í koju stjórnborðs megin, þar sem hún andaðist. Svipur þessarar ungu stúlku fylgdi skipinu alla tíð og varði það áföllum og grandi. Þetta slys var það fyrsta og síðasta sem henti þetta skip í sjötíu ára sögu þess. Fyrsta verk íslendinga þegar þeir eignuðust skipið var að skíra það upp og gefa því nafn stúlkunnar, hét það síðan alla tíð Helga EA 2. Ekki var óalgengt að Helga snéri við í blíðskapar veðri og leitaði til lands. Þeir sem sáu til skipsins héldu hiklaust á eftir Helgu og komust þá ósjaldan hjá því að lenda í mannskaða veðrum.
Helga mun vera fyrsta íslenska skipið að hefja síldveiðar fyrir Norðurlandi 1902-1903. Næstu íslensku skipin til síldveiða 1903 voru Júlíus, Helena og Familien. Það þarf ekki að taka það fram að þessir kútterar voru vélarlausir með öllu og veiðarfæri varð að spila inn með handafli einu saman. Jakob Jakobsson var lengst allra skipstjóra með Helgu eða í 20 ár. Árin 1919 og einnig 1920 var pabbi minn, Karl Dúason, á Helgu með Jakobi. Þá var komin 60 hestafla vél í Helgu. Sumari 1919 var mikill skortur vegna heimsstyrjaldarinnar fyrri og nánast ekkert hægt að fá. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun um að skammta flesta hluti, þar á meðal olíu. Urðu menn að gera það upp við sig hvort þeir treystu sér að hefja síldveiðar með þann skammt af olíu sem þeim var úthlutað fyrir sumarið. Helga stundaði síldveiðar 1919 með herpinót, og voru henni skömmtuð níu föt af olíu fyrir sumarið. Pabbi sagði mér að mikið aukaálag hefði verið á Jakobi út af þessu, t.d. þegar þeir höfðu komið sér á líklega staði var látið reka.
Margar síldartorfur sáust vaða en Jakobi var ekki haggað og beið þess að torfan kæmi upp það nærri þeim að hægt væri að róa bátnum til hennar og spara þannig gangsetningu. Eitt sinn höfðu þeir fyllt Helgu grunnt inn á Héðinsfirði. Þegar kom að því að mjaka skipinu af stað hreyfðist það ekki hvernig sem reynt var. Varð að hleypa slatta út af dekkinu og kasta utar til að fylla aftur því Helga stóð á grunni.
Ekkert minntist pabbi á að olían hefði ekki enst út sumarið. Samskipa pabba á Helgu og jafnaldri, 19 ára var skáldið Ragnar S. Helgason frá Hlíð í Álftafirði Norður- Ísafjarðarsýslu. Hann orti fallegt ljóð um ævi þessa farsæla skips Helgu EA 2. Endalok Helgu EA 2 voru þau að hún slitnaði upp á legunni á Drangsnesi síðla sumars 1944 í suðvestan stormi. Skipið hafði verið notað til að geyma ýmislegt varðandi síldarsöltun á staðnum, svo sem tómar síldartunnur. Búið var að taka af henni brúna og var stýrishjólið komið aftur á þilfarið. Bryndís 15 tonna bátur var sendur á eftir Helgu, þar sem hún sigldi á reiðanum út leiðina. En þeir komu engum manni um borð í Helgu og sneru við svo búið frá við illan leik. Skömmu síðar hringir Halldór bóndi á Bæ, sem er framan á nesinu til Drangsness og segir að Helga sé að sigla hjá á milli grunna, og spyr hvað sé af mannskap um borð. Honum er sagt að það sé enginn um borð. Hann segir það ekki vera rétt því það standi manneskja við stýrið. Síðan sigldi Helga út Húnaflóann og hvarf út við ystu sjónarrönd.

Frásögn Gríms Karlssonar skipstjóra.
Faxi. 3 tbl. 1 apríl 1993.




Flettingar í dag: 787
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194562
Samtals gestir: 83786
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:32:45