29.10.2020 13:34

566. Hilmir KE 7. TFKY.

Vélskipið Hilmir KE 7 var smíðað í Trawemunde í Þýskalandi árið 1960 fyrir Sigurbjörn Eyjólfsson útgerðarmann í Keflavík. Eik. 74 brl. 400 ha. Mannheim vél. Skipið var smíðað eftir teikningu Egils Þorfinnssonar skipasmíðameistara. Selt 28 desember 1965, Jóni Sæmundssyni í Keflavík, sama nafn og númer. Selt 30 júlí 1968, Sigurði Kristinssyni, Einari Kristinssyni og Kristni Kristinssyni í Keflavík, enn sama nafn og númer. Selt 15 október 1970, Guðlaugi Guðmundssyni og fl. Í Ólafsvík, hét Jökull SH 77. Selt 10 september 1972, Þinganesi hf á Höfn í Hornafirði, hét þá Þinganes SF 25. Ný vél (1974) 425 ha. Caterpillar vél. Skipið var talið ónýtt eftir bruna sumarið 1989 og tekið af skrá 29 október árið 1990. Að lokum var skipinu svo sökkt.


Hilmir KE 7 á síldveiðum.                                                                      (C) Hafsteinn Jóhannsson.

 Tveir glæsilegir bátar til Keflavíkur

Þann 2. þessa mánaðar kom nýr bátur til Keflavíkur, sem ber nafnið Bergvík KE 55. Eigandi er Hraðfrystihús Kaupfélags Suðurnesja í Keflavík. Báturinn er 72 smálestir, smíðaður úr eik í Nýborg í Danmörku. Í bátnum er Lister dieselvél (Blackstone). Er báturinn búinn öllum fullkomnustu siglingatækjum, m. a. Dekka radar (50 mílna) og sjálfleitandi síldar Asdic af Simrad gerð og 2 Simrad dýptarmælum. Þá er báturinn með sjálfvirkum stýrisútbúnaði. Vistarverur skipverja eru allar mjög rúmgóðar og rafmagnshitaðar. Í bátnum er rúmgóður frystiklefi fyrir matvæli bátshafnarinnar. Í reynsluför gekk báturinn 10 ½  mílu. Var hann 6 sólarhringa á leiðinni heim, enda hreppti hann mjög slæmt veður. Skipstjóri á Bergvík verður hinn kunni aflamaður, Magnús Bergmann, en hann sigldi einnig skipinu heim. Fyrsti vélstjóri er Björgvin Hilmarsson og stýrimaður Baldur Guðmundsson. Eins og að framan er sagt, er báturinn eign Hraðfrystihúss Keflavíkur h.f., en það átti fyrir 2 báta, Helguvík og Faxavík. Framkvæmdastjóri hraðfrystihússins er Benedikt Jónsson. Bergvík er nú fyrir skömmu byrjuð á vertíð og komin með net.
Hinn nýi báturinn hér á forsíðu blaðsins, er Hilmir KE 7, er kom til Keflavíkur 9. þ. m. Eigandi hans er Sigurbjörn Eyjólfsson útgerðarmaður í Keflavík. Báturinn, sem er 75 tonn, er smíðaður í Trawmúnde í Vestur-Þýzkalandi. Hann er byggður úr eik og öðrum góðum viði, eftir teikningu Egils Þorfinnssonar. Í honum er Mannheim dieselvél, 400 ha. Búinn er hann öllum nýjustu siglingatækjum, t. d. radar af Hughes gerð (50 mílna), fiskileitar Astic af Simrad gerð, auk dýptarmæla af sömu gerð. Í bátnum er einnig vönduð miðunarstöð auk hinnar venjulegu talstöðvar. Þá er einnig rafknúinn og sjálfvirkur stýrisútbúnaður í skipinu. Allar vistarverur skipverja eru rúmgóðar, bjartar og þægilegar. Kæliklefi er þar fyrir matvæli og símakerfi er lagt á milli vistarvera, sem er hrein nýjung og til stórþæginda. Ganghraði Hilmis mun vera um 11 mílur. Hann var tæpa 7 sólarhringa á leiðinni heim, en þar af var hann ca. 16 tíma í Færeyjum. Á heimleiðinni hreppti báturinn slæmt veður og telur skipstjóri hann hið bezta sjóskip. Kjölurinn að bátnum var lagður í byrjun desember s.l. en hann var afhentur fulltilbúinn núna þann 28. febrúar. Eins og menn vita, hefir Sigurbjörn mörg undanfarin ár átt bát með þessu sama nafni, sem hefir reynzt hið mesta happaskip. Á s.l. hausti seldi hann þann bát til Vestmannaeyja. Skipstjóri á þessum nýja Hilmi, verður Einar Guðmundsson, sá sami og verið hefir með Hilmi gamla mörg undanfarin ár, mikill dugnaðar- og aflamaður og ávallt í röð fengsælustu skipstjóra hér um slóðir. Fyrsti vélstjóri verður Eiríkur Sigurðsson, Smáratúni 12. Hefir hann einnig verið um 9 ára skeið á útvegi Sigurbjörns Eyjólfssonar. Stýrimaður verður Guðbjörn Ingvarsson. Báturinn mun fara á net.

Faxi. 3 tbl. 1 mars 1960.


Þinganes SF 25 sennilega í Hornafjarðarós.                                                  (C) Hilmar Bragason.


Hilmir KE 7. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                              (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Hilmir KE 7. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

  Þinganes SF 25 ónýtt eftir bruna

Þinganes SF 25 frá Höfn í Hornafirði verður fljótlega sökkt. Í sumar kviknaði í bátnum og ekki þykir ráðlegt að leggja út í viðgerðir. Þessa dagana eru starfsmenn Þinganess að koma nýtilegum hlutum úr bátnum á land en bátsins bíður nú einungis hin vota gröf.

Morgunblaðið. 14 nóvember 1989.

Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31