02.01.2021 19:00

B.v. Júní GK 345. TFPD.

Nýsköpunartogarinn Júní GK 345 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Hét Höfrungur á smíðatíma. 732 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 56,80 x 9,21 x 4,60 m. Smíðanúmer 735. Kom fyrst til heimahafnar, Hafnarfjarðar hinn 13 mars sama ár. Togarinn var seldur í júní árið 1964, Evengelos J. Stathakis & Sons í Piraeus í Grikklandi, hét þá Koutouriaris S. lll. Ný vél (1971) 1.630 ha. Werkspoor díesel vél. Seldur 1984-85, Korali NE Atlantic Fishing Co í Piraeus í Grikklandi, hét þá Nikolaos lll. Skipið var selt 1994, Al. Samali & Co í Conakry í Gíneu. Talið ónýtt og og tekið af skrá árið 2002.


B.v. Júní GK 345 á útleið frá Hafnarfirði.                                                     (C) Snorri Snorrason.
 

        Skipstjóri í tuttugu ár hjá
       Bæjarútgerð Hafnarfjarðar

Þriðjudaginn 13. marz 1951 fögnuðu Hafnfrðingar hinu nýja, fallega og vel útbúna, fiskiskipi, sem þeir hafa eignazt. Það er togarinn Júní GK 345. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hefur bætt við skipastól sinn einu nýju skipi, og fer vel á því að slíkt skyldi ske nú, þar sem bæjarútgerðin hefur nýlega átt 20 ára afmæli. Þess afmælis hefur verið  minnzt í dagblöðum landsins, og mikið hefur verið sagt um  menn þá, er standa að þeirri stofnun og er ekki nema rétt að slíkt sé gert á slíkum degi. En mér finnst einn maður hafa orðið útundan í þeim blaðaummælum, og það er maður sem búinn er að starfa hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar í 20 ár.
Þetta er Benedikt Ögmundsson, skipstjórinn, sem færir Hafnfirðingum þriðja skipið í röð. Ég segi fyrir mína parta að það hefði mátt minnast á hann betur en gert var í afmælisgreinum í tilefni af 20 ára afmæli Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Það fer vel á því að góðir menn skipi þau sæti sem eiga að stjórna slíkum fyrirtækjum í landi, en þess er ekki síður þörf að þau séu vel skipuð á hafinu. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hefur átt því láni að fagna að eiga slíkan starfsmann sem skipar gott sæti í þágu útgerðarinnar. Það er Benedikt Ögmundsson skipstjóri, sem er nú þegar orðinn frægur sem aflamaður. En mest er hann frægur fyrir það, hve vel hann fer með þá menn, sem undir stjórn hans eru. Benedikt er búinn þeim kostum, sem einmitt virðist vanta hjá mörgum skipstjórum, og það er aðgæsla á mönnum, þegar þeir eru við vinnu á dekki, jafnvel í hvaða veðri sem er. Við, sem höfum verið undir hans stjórn, finnum það best, þegar við breytum um skipspláss, hvaðan við fórum.
Benedikt Ögmundsson er búinn að færa Hafnfirðingum mikil auðæfi og mikla frægð, því að hann hefur bjargað fjölda mannslífa þann tíma, sem hann hefur verið skipstjóri. Og á meðan Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hefur slíka menn innan sinna vébanda, er vel farið.
Að lokum óska ég Bæjarútgerð Hafnarfjarðar allra heilla á komandi tímum, og hafi hún ávallt góðum mönnum á að skipa, hvort heldur er í landi eða á sjó.

Alþýðublaðið. 16 mars 1951.


129. Júní GK 345.                                                                                   Ljósmyndari óþekktur.
 

         Tveir togarar enn fara til
            veiða við Bjarnarey

Íslenzku togararnir, sem eru á karfaveiðum, stunda nú veiðarnar út af Garðskaga, og hafa fengið þar uppgripaafla. Fram að þessu hafa þeir verið á karfamiðunum út af Vesturlandi. Togararnir voru á miðunum út af Garðskaga í lok karfaveiðanna í fyrra og öfluðu vel. Botn er þó mjög slæmur þarna og erfitt að ná fiskinum. Engin breyting til batnaðar hefir orðið að því er verðlag snertir á brezkum markaði. Brezkir togarar afla vel og sömuleiðis þýzkir togarar, sem sigla með afla til Bretlands. Enginn íslenzkur togari fer til Bretlands með ísfiskafla, fyrr en aðstæður breytast að mun til batnaðar frá því sem nú er. Þorsteinn Ingólfsson leggur af stað til Bjarnareyjar í dag, en Júní fór á laugardag. Ingólfur Arnarson, sem fór til Bjarnareyjar fyrir rúmum hálfum mánuði, byrjaði aftur að veiða í gær. Hann skrapp til hafnar í Noregi eftir salti og birgðum.

Vísir. 5 júní 1951.


B.v. Júní GK 345.                                                                        Málverk eftir George Wiesemann.
 

   Sigling Júní til Grikklands verður
            skemmtiferð áhafnar

Togarinn Júní hefir verið seldur frá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar tll Gríkklands, og er skipið nú á förum. Fréttamaður náði sambandi við II. stýrimann, Jón Ólaf Halldórsson úr Reykjavik, og spurði hann frétta af fyrirhugaðri siglingu til Grikklands. Siglt verður beint til Pireus og mun siglingin taka 12-13 daga, ef allt gengur vel, en reiknað er með að hvergi þurfi að koma við á leiðinni. Jón hefir aldrei siglt á þessar slóðir fyrr, en Jóhann Magnússon skipstjóri og Gunnar Magnússon I. stýrimaður sóttu olíubátinn Bláfell til Grikklands fyrir tveimur árum á vegum Esso. Meiningin er að taka sumarfrí í leiðinni og munu flestir halda hópinn og fara til Ítalíu, um París og London og síðan heim, en annars ekki verið gerð nein áætlun.
Ferðirnar sjálfar munu grísku útgerðarmennirnir borga, þar sem ráðningin er miðuð við að áhöfn komist til Íslands aftur. Ekki taldi Jón að neinir íslendingar mundu verða á skipinu úti. Það mundi fara beint til viðgerðar og m. a. ætti að setja dieselvél í það. Áhöfnin er öll íslenzk, skipstjóri Jóhann Magnússon, I. stýrimaður Gunnar Magnússon, II. stýrimaður Jón Ólafur Halldórsson, I. vélstjóri Ingólfur Ólafsson, II. vélstj. Þorlákur Ebenesarson, III. vélstj. Valtýr Gunnarsson, smyrjari Eyjólfur Marteinsson, hásetar Vilhjálmur Kristinsson og Gunnar Zoega. Fjórar konur skipsmanna munu annast matseld á leiðinni, en þær eru: Guðrún Ragnheiður Júlíusdóttir, Margrét Sigurðardóttir, Hebba Herbertsdóttir og Ester Gísladóttir.

Vísir. 9 júní 1964.




Flettingar í dag: 441
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 437
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 1018547
Samtals gestir: 73258
Tölur uppfærðar: 18.10.2024 07:44:07