06.01.2021 20:55
1868. Haraldur Kristjánsson HF 2. TFDJ.
Frystitogarinn Haraldur Kristjánsson HF 2 var smíðaður hjá
Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1988
fyrir Sjólastöðina hf. Í Hafnarfirði. 883 brl. 2.989 Ha. Wartsiila vél, 2.200
Kw. Smíðanúmer 141. Skipið var selt árið 1999, Haraldi Böðvarssyni & Co. Hf.
Á Akranesi, hét þá Helga María AK 16. Við sameiningu Haraldar Böðvarssonar
& Co. Hf. árið 2004 við Granda hf. Í Reykjavík, komst skipið í eigu
sameinaðs útgerðarfélag sem hét þá H.B. Grandi hf. Sama nafn og númer. Helgu
Maríu var breytt í ísfiskstogara í Alkors skipasmíðastöðinni í Gdansk í
Póllandi árið 2013. Á haustmánuðum ársins 2019, yfirtók útgerðarfélagið Brim
hf. Allt hlutafé H.B. Granda hf og við það komst Helga María AK 16 í eigu Brims
hf. Hét fljótlega eftir það Helga María RE 1 og er gert út frá Reykjavík af
Brim hf.
1868. Haraldur Kristjánsson HF 2 að landa afla sínum í Hafnarfirði árið 1993. (C) Jón Kr Gunnarsson.
Nýr
frystitogari bættist í
fiskiskipaflotann í gær
Í gær kom til landsins nýr frystitogari sem Sjólastöðin í
Hafnarfirði á og er þetta systurskip Sjóla HF 1 sem fyrirtækið fékk í fyrra.
Nýi togarinn hlaut nafnið Haraldur Kristjánsson HF 2 og er 883 brúttólestir að
stærð, 56,86 metra langur og 12,62 metra breiður. Að sögn Guðmundar Jónssonar,
skrifstofustjóra Sjólastöðvarinnar, kostar togarinn 376 milljónir króna. Þá á
eftir að draga frá ríkisstyrk sem norskar skipasmíðastöðvar fá og greiddur er á
5 árum, þannig að verð togarans til Sjólastöðvarinnar verður rúmar 300
milljónir króna. Guðmundur var spurður hvort hægt væri að láta svo dýrt skip
bera sig og sagðist hann telja að svo væri og vitnaði þá til reksturs
systurskipsins, Sjóla HF 1, sem hefur gengið mjög vel síðan togarinn kom til
landsins í fyrra. Verð hans var það sama og nýja togarans. "Svo eru menn líka
bjartsýnir, það dugir ekki annað," sagði Guðmundur.
Haraldur Kristjánsson HF 2 kemur í stað Karlefnis, sem er 22ja ára gamall stór
skuttogari og flyst fiskveiðileyfi hans yfir á nýja togarann. Haraldur
Kristjánsson HF 2 er mjög vel búið skip og er til þess tekið hve allur
aðbúnaður áhafnar er góður í þessum tveimur togurum Sjólastöðvarinnar. Íbúðir
eru í skipunum fyrir 28 menn í eins eða tveggja manna klefum sem hver hefur
sérsnyrtingu. Þá er gufubað, setustofa og sjónvarpsherbergi í skipunum. Sem
fyrr segir kom togarinn til landsins í gær og heldur hann til veiða einhvern
næstu daga.
Dagblaðið Vísir. 24 mars 1988.
1868. Haraldur Kristjánsson HF 2 fjær og 1972. Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 að landa frystum sjávarafurðum í Hafnarfjarðarhöfn árið 1993. (C) Jón Kr Gunnarsson.
1868. Haraldur Kristjánsson HF 2. Fyrirkomulagsteikning. Mynd úr Ægi.
1868. Helga María AK 16. í Reykjavíkurhöfn. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
1868. Helga María RE 1. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Haraldur Kristjánsson HF 2
Nýr skuttogari, M/S Haraldur Kristjánsson HF 2, bættist við
fiskiskipaflotann 23. mars s.l, en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til
heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Haraldur Kristjánsson HF er smíðaður hjá
Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S, Flekkefjord í Noregi, smíðanúmer 141
hjá stöðinni, en er hannaður hjá Skipatækni h. f. Í Reykjavík. Haraldur
Kristjánsson er systurskip Sjóla HF, sem er í eigu sömu útgerðar og kom til
landsins í september á s. I. ári. Skipið er fjórtándi skuttogarinn sem stöðin
afhendir íslenskum útgerðaraðilum. Haraldur Kristjánsson HF kemur í stað
Karlsefnis RE 24, elsta skuttogara landsins, smíðaður árið 1966 og keyptur til
landsins árið 1972. Lítils háttar frávik eru í fyrirkomulagi og búnaði skipsins
frá Sjóla. Þar ber helst að nefna að sérstakt frystivélarými er milli vélarúms
og lesta, sem þýðir um 98 m3. minni lest, bætt við hjálparvélasamstæðu (báðar í
vélarúmi) og vinnslubúnaður umfangsminni, þar sem gulllax-vinnslutækjum er
sleppt. Haraldur Kristjánsson HF er í eigu Sjólastöðvarinnar h.f. í
Hafnarfirði. Skipstjóri á skipinu er Helgi Kristjánsson og yfirvélstjóri
Þorbergur Þórhallsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Haraldur Jónsson.
Mesta lengd 56.86 m.
Lengd milli lóðlína (VL=5.20m) 54.17 m.
Lengd milli lóðlína (kverk) 51.91 m.
Breidd (mótuð) 12.60 m.
Dýpt að efra þilfari 7.70 m.
Dýpt að neðra þilfari 5.20 m.
Djúprista (hönnunar) 5.20 m.
Eiginþyngd (5.20 m.) 1.472 tonn.
Særými (5.20 m.) 2.064 tonn.
Burðargeta 592 tonn.
Lestarými 604 m3.
Meltugeymar 91.5 m3.
Brennsluolíugeymar (svartolía) 181.4 m3.
Brennsluolíugeymar (gasolía) 40.7 m3.
Set- og daggeymar 16.3 m3.
Ferskvatnsgeymar 139.5 m3.
Andveltigeymir 46.2 m3.
Ganghraði um l5 sjómílur.
Rúmlestatala 883 brl.
Skipaskrárnúmer 1868.
Ægir. 5 tbl. 1 maí 1988.