17.01.2021 07:08

E.s. Vesta strandar við Hnífsdal.

Það var hinn 17 febrúar árið 1913 að farþega og flutningaskipið Vesta strandaði á svonefndum Vallnaboða sem er grunnt út af Hnífsdal. Var skipið að koma að norðan með viðkomu á Ísafirði. Lagðist Vesta við Edinborgarbryggjuna og losaði vörur sem þangað áttu að fara. Margt farþega voru með skipinu og bættust margir við á Ísafirði sem ætluðu með skipinu til Reykjavíkur. Munu hafa verið um 200 farþegar með Vestu er hún lagði af stað frá Ísafirði. Ekki var langt farið er skipið kenndi grunns og það all harkalega, allt lauslegt kastaðist til og nokkrir farþegar sem voru í lestinni hlutu minni háttar meiðsli. Mikil ringulreið ríkti um borð í skipinu fyrstu mínúturnar eftir strandið og þusti fólk á þilfar, en strax komst þó ró á aftur, enda greinilega ekki yfirvofandi hætta á ferðum. Mikill leki kom að skipinu, sjór fossaði inn í vélarrúmið og í framlestina. Gott veður var en gekk á með dimmum éljum. Skipstjórinn á Vestu gaf strax fyrirmæli um að skipið skildi yfirgefið og voru 4 björgunarbátar sem rúmuðu 20 manns hvor, notaðir til að ferja farþega í land, enda stutt til lands af strandstaðnum. Fljótlega komu vélbátar að strandstað frá Ísafirði sem hjálpuðu við að koma farþegunum til lands. Björgunarskipið Geir var fengið vestur til að reyna að koma Vestu á flot en það gekk brösuglega fyrst í stað. Það var ekki fyrr en búið var að ná að mestum hluta farmsins á land að skipið léttist það mikið að Geir náði að draga það á flot og dró það inn til Ísafjarðar þar sem gert var við skemmdirnar sem urðu á skipinu til bráðabirgða svo hægt yrði að draga það til Reykjavíkur. Mjög miklar skemmdir höfðu orðið á því og var það lengi frá vegna viðgerða.
Vestu var sökkt af þýska kafbátnum U-88 um 60 sjómílur suður af Suðurey í Færeyjum 17 júlí árið 1917 þegar hún var á leið frá Seyðisfirði til Fleetwood með síldar og lýsistunnur. 5 manns fórust en 20 komust í björgunarbát og réru honum áleiðis til Færeyja og náðu landi í Sumba á Suðurey eftir 29 klukkustunda barning í bátnum.
Vesta var smíðuð hjá Palmers Shipbuilding & Iron Co í Jarrow, Newcastle Upon Tyne í Englandi árið 1879. 1.122 brl. 700 ha. 2 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 387. Var fyrst í eigu Fr. Georg Schmidt í Hamborg í Þýskalandi. Selt 1 ágúst 1881, Kirsten Adolf & Co í Hamborg. Selt 1882, Sydsvenska Angbats A/S í Malmö í Svíþjóð. Selt 1894, Skanska Cement A/B í Malmö. Selt 8 júní 1899, Det Forenede Dampskibs Selskap (DFDS) í Kaupmannahöfn og var skipið að mestu í siglingum með vörur og farþega milli Íslands og hafna í Bretlandi og Danmörku.


E.s. Vesta á strandstað út af Hnífsdal í febrúar árið 1913.                       Ljósmynd úr safni mínu.

              "Vesta" strandar
   Rekst á sker út undan Hnífsdal

"Vesta", sem væntanleg var frá útlöndum, norðan og vestan um land, lagði af stað frá Ísafirði 17 þ. m. (febrúar) kl, 4 e. h., og átti að fara beina leið til Reykjavíkur. Kafaldshrið var, allsvört, er skipið hélt út Skutilsfjörðinn, en veður þó hæglátt, og vissu skipverjar eigi fyr af, en skipið rakst á sker, beint út undan Hnífsdal. Gat mun hafa komið á skipið, því sjór kom bæði í lestar- og vélarúmið. Með skipinu kvað hafa verið um 120 farþegar, og komu þeir sér þegar í land, sem og skipverjar allir. Símað var þegar hingað til Reykjavíkur, og brá björgunarskipið "Geir" því tafarlaust við, og lagði af stað vestur þegar sama kvöldið (17. febr.) "Botnía", er lá í Reykjavík, ferðbúin til útlanda, brá sér og vestur daginn eptir (18. febr.), kemur síðan með farþegjana, og póstflutninginn. Mælt er, að sama daginn, sem " Vesta" strandaði, hafi þegar verið byrjað að bjarga einhverju af varningi í land, ef ske kynni, að það kæmist þá fremur aptur á flot. Litlar eru þó líkur þess taldar, er þetta er skrifað, þar sem hásjávað kvað hafa verið, er skipið strandaði. Að öðru leyti verða nánari fregnir að bíða næsta blaðs vors.

Þjóðviljinn-þjóðviljinn ungi. 20 febrúar 1913.


Vesta í Stykkishólmi. Súgandisey í baksýn.                                           Ljósmyndari óþekktur.

              "Vestu" strandið

Vestu"-strandið. Eins og getin var um í síðasta nr. blaðs vora, brá björgunarskipið "Geir" sér vestur til Skutilsfjarðar, jafn skjótt er fregnin barst hingað um það, að "Vesta" hefði strandað út undan Hnífsdal Björgunartilraunirnar höfðu þann árangur, að "Vestu" varð komið á flot (21. þ. m. að morgni), og var síðan farið með hana til Ísafjarðarkaupstaðar. Skemmdirnar þá líklega eigi meiri en svo, að dyttað verður að skipinu, en um það efni brestur oss þó að vísu enn greinilegar fregnir.

Þjóðviljinn + þjóðviljinn ungi. 8 mars 1913.


Vesta að lesta vörur, gæti verið á Stekkeyri í Jökulfjörðum.                     Ljósmynd úr safni mínu.


E.s. Vesta í Íslenskri höfn.                                                                   Ljósmynd úr safni mínu.

          Þegar "Vestu" var sökkt   

Færeyska blaðið »Dimmalætting« flytur fregnir af því, þegar »Vestu« var sökkt, og hefir þær eftir Frandsen skipstjóra. Þar segir svo:
Á Seyðisfirði tók »Vesta« 719 tunnur af síld, 359 tunnur af lýsi og 5 tunnur af görnum. Átti hún síðan að fara til Eskifjarðar og taka þar 155 poka af ull. En vegna þoku komst skipið aldrei þangað og hélt því af stað til Englands. Samkvæmt ráðleggingu brezka konsúlsins í Reykjavík ætlaði skipið að sigla fyrst til Stornoway, en annars var förinni heitið til Fleetwood. Að kvöldi hins 15. júlí fór skipið fram hjá Sumbo-vita og stefndi á norðanverðar Suðureyjar. Var þeirri stefnu haldið þangað til kl. 2,10 um nóttina. Þá kom tundurskeytið á skipið. Österlund stýrimaður var þá á verði. Tundurskeytið hæfði sennilega hið vatnsþétta hólf milli vélarrúms og afturlestar. Var sprengingin svo öflug að stórsigla, afturvinda og allt þakið af reykingasalnum flaug í loft upp. Bátarnir héngu utanborðs í svifvindum og var þeim þegar rent í sjóinn. Skipið sökk óðum. Í bakborðsbát fóru 9 menn, þar á meðal skipstjóri. En er báturinn ætlaði að láta frá borði, kemur Larsen yfirvélstjóri og biður að taka sig í bátinn. Einn af skipverjum náði í hann, en Larsen þorði eigi að sleppa handriði skipsins, því að hann var maður gamall og hjartveikur. Í sama bili brotnaði skilrúmið milli vélarúms og stórlestar. Sökk »Vesta« þá beint niður á endann, en svifvinda kræktist í bátinn og hvolfdi honum. Flestir komust á kjöl, en þriggja var saknað, Larsens vélstjóra, kyndara og háseta. Stjórnborðsbátur komst slysalaust frá borði. Hann bjargaði skipsstúlkunni, sem hann fann fljótandi á rekaldi nokkru. Hún hafði sofið á legubekk hjá fyrsta farrými og hefir sennilega slöngvast upp úr reykingasalnum og út á sjó um leið og sprengingin varð. Hún var nokkuð sködduð. Síðan bjargaði báturinn hinum öðrum og kom þá í ljós að fimm menn af skipshöfninni vantaði, og er ætlað að tveir þeirra hafi beðið bana við sprenginguna, en hinir drukknað. Skipstjóri segir að »Vesta« muni hafa sokkið á svo sem einni mínútu. Þegar skipið var sokkið kom kafbáturinn í ljós og heimtaði skipsskjölin. En þau voru sögð týnd. Þá spurði hann um flutning skipsins, hver hann hefði verið og hve mikill. Var því svarað. Segir skipstjóri að meðan þessu fór fram, hafi skipshöfnin á kafbátnum staðið á þiljum og brosað að skipshöfn »Vestu«, og alltaf hefði fallbyssu kafbátsins verið beint að bátnum. En svo voru kafbátsmenn kallaðir undir þiljur og síðan stakk kafbáturinn sér. Í bát »Vestu« voru 20 menn og var hann því fullhlaðinn. En 60 sjómílur voru til lands. Voru þeir 29 klukkustundir að ná landi og hreptu kalt veður og hvast. Hefði líklega enginn bjargast, ef báturinn hefði eigi haft drifakkeri og olíu. Voru allir aðframkomnir af kulda og þreytu, er þeir náðu landi í Sumbobyggð.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1917.


Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31