24.01.2021 10:02
Mission Smack Sophia Wheatly LBDG.
Kútter Sophia Wheatly var smíðuð í Fellows Shipyard and Dry
Dock í Southtown, Great Yarmouth í Englandi árið 1887. Eik. 81 brl. Djúprista
miðskips var 9,5 ft. Skipið var smíðað fyrir Matildu Tennant Cobb og Charlotte
Ann Cobb sem svo gáfu það til The Mission To Deep Sea Fishermen. Sophia var
allt í senn, trúboðs, spítala og hjálparskip fyrir úthafsveiðiflota breta á
þessum árum. Árið 1902 kaupa þeir Thor Jensen, Guðlaugur Torfason og Jafet
Ólafsson skipstjóri í Reykjavík, skipið í Englandi, sama nafn og fékk svo
skráningarnúmerið RE 50 árið eftir eða 1904. Jafet var jafnan skipstjóri
skipsins. Sophia fórst út af Mýrum í mannskaðaveðrinu mikla 6 eða 7 apríl árið
1906 með allri áhöfn, 24 mönnum. Fannst skutur skipsins og bitar úr þilfari
rekin við Knarrarnes. Tvö önnur þilskip fórust einnig í þessu mikla veðri, það
voru kútter Emilie, eign Th Thorsteinssonar útgerðarmanns í Reykjavík, fórst
með allri áhöfn, 24 mönnum, á svipuðum slóðum og Sophia. Brak úr Emilie fannst
rekið á fjörur við Akra á Mýrum. Svo var það kútter Ingvar, eign Duus
verslunarinnar í Reykjavík sem strandaði á skerjum við Viðey. Þar fórust 20
menn. Í þessu mikla mannskaðaveðri fórust 68 íslenskir sjómenn.
Kútter Sophia Wheatly RE 50 á siglingu á sundunum við Reykjavík. Ljósmyndari óþekktur.
Þilskipakaup
Þrír skipstjórar héðan, Björn Ólafsson frá Mýrarhúsum, Jafet
Ólafsson og Kristján Bjarnason fóru til Englands fyrir skömmu til skipakaupa
fyrir sjálfa sig o. fl, sem eru í félagi með þeim. Skip það, er Kristján
Bjarnason keypti, heitir »Orient« og er 64 ½
tonn að stærð. Kom hann sjálfur á því hingað 21. þ. m. eptir 12 daga
ferð frá Yarmouth á Englandi. Skip Jafets Olafssonar heitir »Sophia Wheatly« 82
tonn að stærð, en skip Björns Ólafssonar »Clulow« er stærst, 99 tonn, og hefur
áður verið notað sem spítalaskip í Norðursjónum til að hjúkra veikum
fiskimönnum. Ætluðu þeir Björn og Jafet að leggja af stað með skip þessi frá
Englandi um 16. þ. m. Öll þessi 3 skip eru einkar vönduð og góð skip, mjög
nýleg. En nú kvað naumast vera orðið unnt að fá til kaups á Englandi hæfilega
stór skip til fiskiveiða hér, ekki til nema smáskútur, eða þá of stór skip
(100-200 tons), er áður hafa verið notuð sem spítalaskip í Norðursjónum, en nú
er farið að smíða gufuskip í stað þessara seglskipa, sem óðum er verið að
leggja niður, og því engin ný smíðuð.
Þjóðólfur. 43 tbl. 24 október 1902.
Kútter Sophia Wheatly RE 50. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
þriðja
stórslysið Enn drukknaðir 24
þilskipafiskimenn
Ekki átti hún að rætast, hin mjög svo valta
von, er tæptað var á í síðasta blaði, um að þeim kynni að hafa orðið lífs auðið
úr aftakavoðanum mikla laugardaginn fyrir pálmasunnudag, Jafet Ólafssyni
skipstjóra og þeim félögum á Sophia Wheatly. Sama kvöldið, 14. þ. m., flutti
gufubáturinn Reykjavík , er fenginn hafði verið eigendum skipsins skyndiferð
upp á Mýrar til frekari njósnar, þá nýju harmafregn, að rekið hefði í Knarrarnesi
á pálmasunnudag skut skipsins og stóra spildu úr þilfari með bitunum undir, þar
á meðal einum úr skipstjórakáetunni, þar sem á var fest eirspjald með enskri
áletrun, nafni skipsins og m. fl. Það hafði Ásgeir amtsráðsmaður í Knarranesi
Bjarnason skrúfað frá og sent hingað með bréfi um rekaldið. Hann kom með það
einn eigandinn, Guðlaugur Torfason trésmiður, er farið hafði upp eftir á
gufubátnum. Ekki var neitt líkið rekið, er síðast fréttist. Fyrnefnd áletrun er
um það, að skipið hafi gefið verið nýsmíðað (1887) til heimatrúboðs ferðalags
innanum Englandshafsfiskiflotann, og hverjir gefið hafi. Hún er svo látandi:
Mission Smack SOPHIA WHEATLY
Launched = October 12. 1887.
To the Glory of God and in Memory of
SOPHIA WHEATLY, Wife of GEORGE COBB Esq: and of their Daughter
SOPHIA WHEATLY COBB,
This vessel is given to
THE MISSION TO DEEP SEA FISHERMEN
by MatildaTennant Cobb and Charlotte Anne Cobb.
Þann veg víkur því við, að skip þetta mun hafa verið hið allra-vandaðasta í
íslenzka fiskiflotanum. Og ekki var síður valið lið á því. Skipstjórinn, Jafet
Ólafsson, ættaður úr Njarðvíkum, afbragðsmaður, einkar vel látinnn og
frámunalega aðgætinn og ráðdeildarsamur. Skipverjar voru í vertíðarbyrjun 25.
Tveir voru Norðmenn, er annar hafði gengið af skipi og verið sendur til Noregs,
en hinn lagst hér á sjúkrahús, Það varð þeim til lífs. En í stað þeirra bættist
einn vinnupiltur úr Viðey. Þessi er skipshafnarskráin eins og skipshöfnin hefir
skilið við:
Jafet Ólafsson, skipstjóri, 33 ára, Reykjavík.
Eyvindur Eyvindsson, stýrimaður,
27 ára, Reykjavík Vesturgötu 53 A.
Og þessir hásetar:
Arnbjörn Sigurðsson 39 ára, vinnumaður Eyrarbakka.
Gísli Gíslason 21 árs, vinnumaður Höskuldarkoti.
Gísli Hallsson 35 ára, þbm. Reykjavík Hverfisgötu 58 B.
Gísli Steinþórsson 24 ára, vinnumaður Kirkjubólsdal í Dýrafirði.
Guðfinnur Þorvarðsson 56 ára, vinnumaður í Reykjavíkk Vonarstræti 6.
Guðni Einarsson 31 árs, vinnumaður Brandshúsum í Flóa.
Jón Bjarnason 29 ára Þbm. Klöpp
Reykjavík.
Jón Guðmundsson 22 ára vinnumaður Kirkjubólsdal í Dýrafirði.
Jón Hákonarson 21 árs vinnumaður. Haukadal í Dýrafirði.
Jón Sigurðsson 17 ára vinnumaður í Reykjavík, Grettisgötu 50.
Konráð Magnússon 19 ára vinnumaður Reykjavík Klapparstíg 13.
Kristján Helgason 17 ára vinnumaður. Hvítanesi í Kjós.
Mattías Sumarliðason 28 ára vinnumaður Grund í Skorradal.
Ólafur Eiríksson 19 ára vinnumaður Hæli í Gnúpverjahreppi.
Sigurður Jónsson 26 ára lm. Krumshólum í Borgarhr.
Sigurður Kristjánsson 22 ára vinnumaður Árgilsstöðum Rangárvöllum.
Steindór Helgason 36 ára vinnumaður Reykjavík Skólavörðustíg 14.
Steinn Steinason 27 ára vinnumaður Grund í Skorradal.
Þorbergur Eggertsson 21 árs vinnumaður Keldudal í Dýrafirði.
Þorvarður Karelsaon 32 ára þbm. Gíslholti, Reykjavík.
Þorvaldur Gissurarson 19 ára vinnumaður í Viðey.
Þórður Eyvindsson 19 ára vinnumaður Eyrarbakka.
Að meðtöldum stýrimönnum þeim 2, er drukknuðu um sama leyti, er talan þá orðin
rétt 70, er þilskipaflotinn héðan hefir mist í sjóinn svona í einni svipan. Og
3 skipin, meðal hinna beztu, farin í mola. Það er hið langmesta áfall, er hann
hefir nokkurn tíma orðið fyrir, og hinn mesti mannskaði, er hér hefir orðið
heila öld eða lengur. Og hefir Ægir þó oft höggvið tilfinnanlegt skarð í þá
fáliðuðu sveit, er við hann háir látlausan hildarleik af hólma vorum. Ekki átti
nema rúmur þriðjungur þeirra 70 manna, er druknað hafa í þessari hríð, heima
hér í Reykjavík, og var ekki nema rúmur helmingur þeirra kvæntir menn; enda ómegð
eftir þá fremur lítil að tiltölu, um 20 börn eða svo, en ærin til þess, að
hlaupa verður þar undir bagga til líknar með almennum samskotum, sem vitaskuld
er sjálfsagt að nái einnig til munaðarleysingjanna utan Reykjavíkur, sem enn
vitum vér ógjörla um, en sjálfsagt eru miklu fleiri þó. Sérstaklega er voðalegt
skakkafallið, sem Akranes hefir fyrir orðið. Fjársafn er þegar hafið hér, með
tvennu móti, almennum samskotum og tombóluhaldi, sem verða átti upphaflega til
björgunaráhalda eingöngu, en er nú snúið upp í munaðarleysingjahjálp að 2/3 hlutum.
Hræddir voru menn eftir manndrápaveðrið um 3 skip úr Hafnarfirði. En þau hafa
skilað sér 2, annað á páskadag inn og hitt í gærmorgun. Þetta sem kom á
páskadaginn, Gunna, frá August Flygenring, hafði hrakist suður undir Færeyjar,
en ekki skemst til muna. Þriðja skipið, frá Sigfúsi Bergmann, kvað hafa sést
eftir veðrið. Konsúll D. Thomsen hefir runnið á vaðið með mikla höfðingsgjöf
til samskotanna, 500 kr. Þeir G. Zoéga og Th. Thorsteinsson kaupmenn hafa gefið
250 kr. hvor.
Ísafold. 23 tbl. 18 apríl 1906.