07.02.2021 08:04
Breski togarinn Daniel Quare GY 279 strandar við Langanes.
Breski togarinn Daniel Quare GY 279 strandaði við Skoruvík, um
5 kílómetra austan Svínalækjartanga á Langanesi aðfaranótt 9 september árið
1955. Svartaþoka var á er togarinn strandaði en veður var gott á strandstaðnum.
Varðskipið Þór var sent á staðinn og einnig lagði breska eftirlitsskipið
Pincher af stað á strandstað, en það var þá statt út af Vestfjörðum. Varðskipið
Þór kom á strandstað snemma morguns og tókst þá þegar að bjarga áhöfn togarans,
20 mönnum. Daniel Quare strandaði á stórgrýttum flösum og mikill leki kom að
honum. Þegar leið á daginn versnaði veður þá til mikilla muna að togarinn tók
að brotna á strandstað, þannig að honum varð ekki bjargað.
Daniel Quare GY 279 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi
árið 1936. 440 brl. 114. H.p. (rhp) 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 1165. Hét
fyrst Ocean Monarch GY 279 og var í eigu Ocean Steam Fishing Co Ltd í Grimsby.
Seldur sama ár, Charlson-Smith Trawlers Ltd í Hull, hét Ocean Monarch H 327.
Togarinn var tekinn í þjónustu breska sjóhersins í október árið 1939, hét þá
H.M.T. Stella Carina. Seldur árið 1946, Kopanes Steam Fishing Co Ltd í Grimsby,
hét Kopanes GY 279. Seldur 1949, Henry Croft Baker & Sons Ltd í Grimsby,
hét þá Daniel Quare GY 279. Togarinn strandaði eins og áður sagði á Langanesi
hinn 9 september árið 1955 og varð honum ekki bjargað. Enn í dag má sjá leifar
hans á strandstaðnum.
St. Daniel Quale GY 279 í höfn í Grimsby. Mynd úr safni mínu.
Brezkur
togari strandar norðan á odda Langaness
Í fyrrinótt strandaði brezki togarinn Daniel Quare yzt og
norðan á Langanesi, við Svínalækjartanga. Skipsmönnum öllum, 20 talsins, var
bjargað í varðskipið Þór. Talið var óhægt um vik að bjarga skipinu, þar sem
allmikill leki virtist kominn að því. Togari þessi, sem er frá Grimsby, GY-279,
er um 300 smálestir, smíðaður 1936. Hann sendi út neyðarkall um kl. 1,30. Ekki
var hvasst á þessum slóðum, en myrkur og niðaþoka. Var enn þoka þegar leið fram
á morgun, en þá kom varðskipið Þór á vettvang. Lögðu varðskipsmenn út báti um
kl. 8 og björguðu allri skipshöfn togarans.
Brezka varðskipið Pincher var um þetta leyti fyrir Vestfjörðum, en það lagði
einnig af stað til strandstaðar. Var ætlunin að gera tilraun til að draga
togarann aftur á flot, en þó var útlit fyrir björgun skipsins ekki vænlegt. Það
er skammt frá landi á stórgrýttum flösum og er trúlegt að það hafi skemmzt illa
í botninn, enda var kominn leki að skipinu. Þegar leið á daginn versnaði í
sjóinn, þó enn væri veður frekar stillt. Má því búast við að erfitt verði síðar
að bjarga skipinu.
Morgunblaðið. 10 september 1955.
Flakið af Daniel Quare GY 279 á strandstað við Skoruvík. (C) Langanesbyggð.is
Enn má sjá leifar skipsins í fjörunni. (C) Gunnar Tryggvi Ómarsson.
(C) Gunnar Tryggvi Ómarsson.
(C) Gunnar Tryggvi Ómarsson.
St. Daniel Quare GY 279. Mynd úr safni mínu.
Togarinn
sennlega eyðilagður
Reynt var í gær að bjarga brezka togaranum Daniel Quare, sem
strandaði við Skoruvík á Langanesi í fyrrinótt. Kom björgunarskip á
strandstaðinn í gær. Var komið dælum í skipið og var hægt að dæla úr því og var
því haldið þurru, en svo brimaði aftur með flóðinu og tóku þá björgunarmenn
dælurnar aftur um borð til sín. Var síðan lagt af stað frá strandstaðnum með
skipbrotsmennina. Má gera ráð fyrir að skipið sé eyðilagt.
Vísir. 10 september 1955.