14.02.2021 12:03

B.v. Kári RE 195. TFQD.

Botnvörpungurinn Kári RE 195 var smíðaður hjá Deutsche Schiffs und Maschinenbau A.G.Weser í Bremen í Þýskalandi, en skipið klárað hjá A.G.Seebeck í Wesermunde (Bremarhaven) í Þýskalandi í nóvember árið 1936 fyrir MacLane Ltd í London (Leverhulme Ltd), fær nafnið Northern Gift LO 166. 620 brl.1000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 556. Var einn af hinum svonefndu "sáputogurum". Seldur í október 1937, Northern Trawlers Ltd í London. Frá 1 september 1939 til 30 október 1945 var togarinn í þjónustu breska sjóhersins. Árið 1946 er hann gerður út af H. Markham Cook Ltd í Grimsby en togarinn var ekki skráður þar. Seldur 18 maí 1947, h/f Alliance í Reykjavík , fær nafnið Kári RE 195. Seldur 1950, Ludwig Janssen & Co í Wesermunde í Þýskalandi, hét Grönland. Seldur W.Ritscher í Hamborg til niðurrifs og var rifinn þar í mars árið 1957.


B.v. Kári RE 195. Trúlega er þetta hafnsögubáturinn Nóri til hægri.      Úr safni Kjartans Traustasonar.

           Alliance kaupir togara

Alliance h.f. hefir nýlega fest kaup á togara í Bretlandi, og fór áhöfn sú er sigla á togaranum hingað heim áleiðis til Bretlands í gærkveldi með Ingólfi Arnarsyni. Togari þessi er af sömu gerð og Patreksfjarðartogarar Ólafs Jóhannessonar h.f., Gylfi og Vörður. Hefir Alliance gefið hin um nýja togara sínum nafnið Kári, eftir sínu gamla skipi, er fjelagið seldi til Færeyja á s. l. vori. Einkennisstafir Kára verða RE-195.

Morgunblaðið. 24 maí 1947.


St. Northern Gift LO 166.                                                                              (C) John Clarkson.

           Ensku "sáputogararnir"

Fyrir stríð könnuðust margir landsmenn við ensku "sáputogarana", sem svo voru nefndir. Þeir stunduðu þá flestir veiðar hér við land. Þetta voru stærri og glæsilegri skip, heldur en þá stunduðu almennt veiðar á íslandsmiðum. Á stríðsárunum voru þessi skip öll tekin í þjónustu flotans til kafbátaleitar og verndar skipalestum. Þrjú þeirra fórust á stríðsárunum, en að stríðinu loknu snéru tólf þeirra aftur til veiða. Stunduðu mörg þeirra veiðar hér við land fram á sjöunda áratuginn og voru þá vel þekkt í íslenzkum höfnum.
Þessi skip voru smíðuð í Þýzkalandi, í Bremen og Wesermúnde, og afhent árið 1936. Seebeck-fyrirtækin voru þá tekin að blómstra á ný eftir valdatöku Hitlers, en þau höfðu riðað til falls í upphafi heimskreppunnar upp úr 1930. Kaupandinn var Unilever, dótturfyrirtæki sápu- og matvælaframleiðandans Liverholme Group of Companies, sem sameinaðist hollenzka smjörlíkisframleiðandanum Van Den Berghs 1930. Andvirði skipanna var sagt, að Unilever hafi reitt af hendi í vöruskiptum með framleiðslu verksmiðja sinna, Sunlight Soap. Sumir nefndu þessa togara því "Sunlight-togarana", en algengara var að þeir væru nefndir "sáputogararnir." Skipin voru 15 og báru eftirfarandi nöfn:
Northern Chief, Northern Duke, Northern Gem, Northern Isles, Northern Princess, Northern Rover, Northern Spray, Northern Wave, Northern Dawn, Northern Foam, Northern Gift, Northern Pride, Northern Reward, Northern Sky og Northern Sun.
Skipin fóru upphaflega öll til Fleetwood og var skráður eigandi Mac Line Ltd., London, en eftir erfiðan rekstur þar, voru þau öll seld árið 1937 til William Bennet, sem stofnaði útgerðarfélagið Associated Fisheries Ltd. í Grimsby 1929. Þetta var mikil lyftistöng fyrir höfnina í Grimsby sem skömmu áður hafði aukið þjónustu við togaraflotann með byggingu á skipadokk nr. 3. Fram yfir 1930 voru flest skip, sem stunduðu veiðar á  Íslandsmiðum, í Hvítahafinu, Barentshafinu og við strendur Noregs, 130-140 fet á lengd og yfirleitt um 320-400 rúmlestir. (Árið 1945 var meðalstærð íslenzkra togara 335 rúmlestir). "Sáputogararnir" voru aftur á móti 181 fet og mældust 620-625 rúmlestir. Þeir höfðu margt fram yfir eldri skip enska flotans, voru t.d. búnir ýmsum siglinga og fiskileitartækjum, sem ekki voru í eldri togurum. Vistarverur skipverja voru einnig allt aðrar, fullkomnari og betri og hreinlætisaðstaða skipverja önnur og betri. Þeir voru taldir mjög góð sjóskip og voru auðþekktir á brúnni, sem var tveggja hæða. Á stríðsárunum var þriðju hæðinni síðan bætt ofan á brúna. Upphaflega voru togararnir allir með 1000 ha. gufuvél, kolakyntir, en fljótlega eftir stríðið var breytt yfir í olíukyndingu.
  Strax í stríðsbyrjun voru Northern-togararnir teknir í þjónustu flotans til kafbátaleitar og til verndar skipalestum, sem voru í flutningum til og frá íslandi og víðar. Voru þeir búnir fallbyssum og djúpsprengjum. Höfðu margir þeirra aðstöðu í Hvalfirði öll stríðsárin. Togarinn Northern Gem bjargaði áhöfn Libertyskipsins J. L. M. Curry út af Austfjörðum veturinn 1943 og flutti áhöfnina til Seyðisfjarðar. Togarinn Northern Reward var eitt af fylgdarskipum skipalestarinnar, sem Goðafoss var í, þegar þýzkur kafbátur réðist á skipalestina á Faxaflóa 10. nóvember 1944 og sökkti Goðafossi og fleiri skipum skammt frá Garðskaga. Skipverjum á Goðafossi hafði þá nýverið tekizt að bjarga 19 skipverjum af olíuskipinu Shirvan, sem kafbáturinn hafði áður skotið niður með tundurskeyti. Togarinn kom á vettvang tíu til fimmtán mínútum eftir að Goðafoss sökk. Hófu skipverjar togarans þá að varpa djúpsprengjum þar sem kafbáturinn var talinn lúra. Það voru talin nauðsynleg viðbrögð til að útrýma hættunni, svo að togarinn sjálfur yrði ekki fyrir árás kafbátsins, ef hann færi að bjarga fólki, eíns og reynslan var með Goðafoss. Annað skip kom einnig á vettvang, þegar Goðafossi var sökkt. Það var dráttarbáturinn Empire World, en honum var ætlað að bjarga olíuskipinu Shirvan, en kom aldrei framar til hafnar. Álitið var í fyrstu, að kafbáturinn hefði grandað dráttarbátnum, en síðar kom í ljós, að hann mun hafa farizt vegna óveðurs, en ekki af hernaðarvöldum. Togarinn Northern Reward flutti síðan skipbrotsmennina af Goðafossi til hafnar í Reykjavík. Eins og áður segir fórust þrír Northern-togararnir í stríðinu: Þýzkur kafbátur sökkti Rover við Orkneyjar í stríðsbyrjun, 30. október 1939, annar þýzkur kafbátur sökkti Princess undan Ameríkuströnd 7. marz 1942 og Isles strandaði nærri Durban í Afríku 19. janúar 1945.

Jón Páll Halldórsson. Sjómannabl. Víkingur 1 feb. 2006.

Flettingar í dag: 356
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074734
Samtals gestir: 77525
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 22:08:49