28.02.2021 09:23

Breski togarinn Admiral Togo H 259 strandar á skerjum við Stafnes á Reykjanesi.

Það var hinn 7 mars árið 1913 að breski togarinn Admiral Togo H 259 frá Hull strandaði á skerjum út af Stafnesi á Reykjanesi í foráttuveðri. Færðist togarinn að mestu á kaf í stærstu ólögunum og þótti þegar sýnt að vonlaust yrði um nokkra björgun frá landi eins og veðri var háttað á strandstað, haugabrim og vonskuveður. Í birtingu um morguninn sáu menn í landi að enn voru menn á lífi um borð í togaranum, en ekkert var hægt að gera þeim til bjargar. Það síðasta sem sást til þeirra var að þeir fóru í björgunarbát og ætlað að reyna að bjarga sér á land á honum. En stuttu eftir að hann lagði af stað frá skipshlið, skall ólag yfir bátinn með þeim afleiðingum að honum hvolfdi og þeir drukknuðu allir. Togarinn brotnaði fljótt niður á strandstaðnum, en næstu daga stóðu masturstoppar hans upp úr sjó en þeir hurfu sjónum manna stuttu síðar. Í áhöfn Admiral Togo voru 12 menn.
St. Admiral Togo H 259 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1904. 249 brl. 76 n.h.p. gufuvél frá Messrs Amos & Smith í Hull. 127 ft. á lengd, 22 ft. á breidd og djúprista var 12 ft. Smíðanúmer 55. Togarinn var í eigu Pickering & Haldane's Steam Trawler Co Ltd í Hull og var hleypt af stokkunum í ágústmánuði það ár.


St. Admiral Togo H 259.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.

     Skip strandar, Skipshöfn ferst

Í fyrrakveld um kl. 11 sáu menn á Stafnesi syðra, að botnverpuskip barst þar á boða úti fyrir, var þá brim afskaplegt. Fjara var á, en er fór að flæða, fór skipshöfnin í bát og ætlaði að ná landi, en bátnum hvolfdi brátt og fórust allir. Skipið sökk nokkru síðar og sjer aðeins masturtoppana. Bátinn rak í land og sást á honum að skipið, sem fórst, var Admiral Togo frá Hull. Það var byggt 1904 af stáli, eign Pickering & Haldane's S. T. Co Ltd.

Vísir. 9 mars 1913.

Flettingar í dag: 309
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074687
Samtals gestir: 77518
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 21:46:59