19.03.2021 21:56
Grimsbytogarinn Ross Kenilworth GY 2 sekkur út af Jökli.
Togarinn Ross Kenilworth GY 2 sökk um 20 sjómílur suðvestur
af Malarrifi á Snæfellsnesi hinn 4 maí árið 1962. Hafði togarinn verið að
veiðum við Snæfellsnes í um 9 daga og aflinn orðinn bærilegur. Um kl. 4 um
nóttina urðu vélstjórar togarans varir við mikinn leka í vélarrúmi hans, og það
mikinn að hann fór að síga niður að aftan. Kallaði þá upp skipstjórinn á Ross
Kelinworth, John H Simpson, neyðarkall til nærstaddra breskra togara og
togarinn Ross Rodney, sömu útgerðar og kom því áleiðis til nærstaddra skipa og
svaraði varðskipið Þór og hélt þegar á leið til hans. Ákvað John H Simpson
skipstjóri Ross Kenilworth, að 11 skipverjar færu um borð í Ross Rodney til
öryggis. Þegar Þór kom á vettvang var togarinn orðin vélavana sökum lekans.
Varðskipsmenn hófu þá flutning á dælum um borð í togarann, en sökum þess að
hann var orðinn vélarvana, urðu varðskipsmenn að nota handaflið til að koma
dælunum um borð, en það gekk brösuglega og aðeins ein þeirra virkaði sem hafði
engan veginn við lekanum. Ross Rodney hafði tekið Ross Kenilworth í tog og
ætlaði að koma honum til hafnar í Reykjavík, en um 2 klst. síðar, sökk
afturhluti togarans og stefnið stóð uppúr og seig síðan niður í djúpið. 16
manna áhöfn var á togaranum þegar hann sökk. Ross Kenilworth GY 2 var smíðaður
hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1954. 442 brl. Gufuvél,
stærð óþekkt. Smíðanúmer 1400. Hét fyrst Joseph Knibb GY 2 og var í eigu
Derwent Trawlers Ltd í Grimsby. Togarinn var í eigu Ross Trawlers Ltd í Grimsby
þegar hann sökk út af Jökli hinn 4 maí árið 1962. Við shjóréttarhöld kom fram
að sennileg skýring á þeim mikla og skyndilega leka sem kom að togaranum væri
sú að inntökurör í botni hans þar sem kælivatn var tekið inn á aðalvél hans
hefði brotnað með þessum fyrr greindum afleiðingum.
Togarinn Ross Kelinworth GY 2 að því kominn að sökkva. Ross Rodney í baksýn.
Ljósmyndari óþekktur.
Ross Kelinworth GY 2 að sökkva í djúpið. Ljósmyndari óþekktur.
Ross Kelinworth GY 2 að hverfa í djúpið. Ljósmyndari óþekktur.
Breskur
togari sökk
Áhöfnin bjargaðist yfir í annan
brezkan togara og varðskipið Þór
Klukkan tæplega tíu í gærmorgun sökk brezki togarinn Ross
Kenilworth frá Grimsby. Skip þetta er 442 tonn að stærð smíðað árið 1955.
Áhöfninni, 16 manns var bjargað og kom varðskipið Þór með mennina hingað til
Reykjavíkur í gærdag. Fréttamenn og Ijósmyndari Mbl. fóru um borð í Þór og
hittu þar skipherrann á varðskipinu Þórarin Björnsson og spurðu hann um gang
málsins, ennfremur skipstjórann á Ross Kenilworth. John H. Simpson, sem sagði
frá atburðum þar um borð. Klukkan 3,48 í fyrrinótt heyrði varðskipið Þór neyðarkall
frá togaranum Ross Kenilworth og bar togarinn Ross Rodney neyðarkallið áleiðis.
Svaraði Þór því þegar í stað og hélt skipinu til aðstoðar, sem kvaðst statt 21
sjómílu SV af Malarifi. Sagt var að mikill leki væri kominn að skipinu. Um kl.
5 í nótt var Þór kominn að togaranum og var Ross Rodney þá kominn á staðinn og
hafði rétt skömmu áður skotið línu yfir í skipið og hafði þá komið vír yfir í
Kenilworth.
Stundarfjórðungi eftir að Þór kom á staðinn lét hann 7 manns fara í stórum
gúmmíbáti yfir í togarann, fyrst með tvær dælur og síðan þá þriðju. Voru þetta
allt benzíndælur með rafkveikju og fóru tvær ekki í gang, og ein dæla reyndist
ekki hafa undan að dæla úr skipinu, en vélarrúm þess var þá fullt orðið. Þegar
klukkan var orðin 8 í morgun yfirgáfu síðustu togaraskipverjarnir hið sökkvandi
skip, en áður höfðu 11 menn verið fluttir yfir í Ross Rodney. Var þá og hætt
tilraunum til að dæla úr skipinu enda ekki hægt lengur. Mjög slæmt sjólag var 6
vindstig á norðaustan, en undirsjór af suðvestri, skipið mikið farið að hallast
og varðskipsmenn höfðu misst eina dæluna í sjóinn. Dælur þessar eru fleiri
hundruð kg. að þyngd og ekki hægt að koma þeim um borð í togarann nema með
handafli. Við aðgerðir þær fór 3. stýrimaður varðskipsins Kristinn Árnason í
sjóinn, en gúmbáturinn rakst á borðstokk togarans, sem reis úr sæ við næsta
ólag og kastaði gúmíbátnum í loft upp. Um kl. 8.30 voru þeir 11 skipverjar, er
voru í Rodney fluttir yfir í Þór og flutti hann þá til Reykjavíkur. Togarinn
Ross Rodney reyndi, er mennirnir höfðu yfirgefið Ross Kenilworth að draga
skipið, en það bar ekki árangur og sökk skipið kl. 9.47 í gærmorgun og hafði
stefni þess þá staðið alllanga stund úr sæ. Þeir 11 menn sem bjargað var yfir í
Rodney, fóru í öðrum gúmbát Kenilworth, en misstu hann síðan frá skipinu. Náðu
skipverjar á Þór honum síðar og ennfremur hinum gúmbát hins sokkna skips, en
hann flaut upp er skipið var sökkið.
Lágu báðir bátarnir á þilfari Þórs er hann kom til hafnar, annar talsvert
rifinn. Skipverjar á Þór létu illa af aðstöðunni til björgunar togarans, en
töldu þó að frekari líkur hefðu verið til að draga skipið til hafnar ef allar
dælurnar þrjár hefðu getað verið í gangi. Skipstjóri togarans, John Hewitt
Simpson, 50 ára, frá Cleethorpes í Lincolnshire, sagði að skipið hefði verið á
miðunum út af Snæfellsnesi er lekinn hefði komið að því. Lekinn hefði komið upp
í vélarrúminu og verið mikill og skyndilegur. Simpson skipstjóri sagði að
lekinn hefði komið að skipinu nokkru áður en Ross Rodney kom á staðinn, skömmu
fyrir klukkan tvö aðfaranótt föstudags, en vildi ekki ræða frekar um lekann eða
orsakir hans fyrr en hann hefði talað við eigendur togarans, Ross-hringinn
brezka. Simpson sagði að hann hefði að sjálfsögðu ekki fylgzt náið með hvað
tíma leið, en hann teldi að klukkan hafi verið á milli fjögur og fimm um
morguninn, er hann gaf 11 skipverjum skipun um að yfirgefa skipið og fara yfir
í Ross Rodney á gúmmíbát.
Auk Simpsons skipstjóra urðu fjórir menn eftir í togaranum, Mc Urioh,
stýrimaður, Connor, annar vélstjóri, Ward, háseti og Saunders, háseti. Þegar
síðustu fimm mennirnir yfirgáfu skipið og fóru um borð í Þór, sagði Simpson að
togarinn hefði verið farinn að hallast mikið. Taldi hann að áhöfnin hefði verið
í talsverðri hættu undir lokin. Ross Kenilworth hafði verið að veiðum í níu
daga er hann sökk, að því er Simpson tjáði Mbl. Sagði hann að afli hefði verið
fremur lélegur, en þó sæmilegur stundum. Var togarinn með 750 kit er hann sökk,
mest þorsk og flatfisk. Simpson skipstjóri kvaðst hafa stundað veiðar í 33 ár,
og sér fyndist það of langur tími. Síðari árin hefði hann unnið í landi, en
farið einstöku ferðir sem skipstjóri á togurum Ross-hringsins. Hann hefði
tvisvar áður verið skipstjóri á Ross Kenilworth, fyrir fjórum árum og í fyrra.
Simpson skipstjóri sagði, að frammistaða Þórsmanna hefði verið með ágætum og
bætti við: "Ég er viss um að ef nokkur leið hefði verið til þess að bjarga
skipinu, þá hefði Þór gert það." Sagði hann að veður hefði verið slæmt um
nóttina, hvasst og þungur sjór. Er Þór lagðist að bryggju í Reykjavík kvöddust
þeir í brúnni Þórarinn Björnsson, skipherra, og Simpson skipstjóri, og þakkaði
hinn síðarnefndi skipherranum björgunina fyrir hönd sína og skipshafnarinnar á
Ross Kenilworth.
Morgunblaðið. 5 maí 1962.