18.04.2021 08:49
B.v. Neptúnus GK 361. TFMC.
Nýsköpunartogarinn Neptúnus GK 361 var smíðaður hjá John
Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir h.f Júpíter í
Hafnarfirði. 684 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 205. Kom í fyrsta
sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar hinn 27 desember sama ár. Um
áramótin 1947-48 flytur Tryggvi útgerð sína til Reykjavíkur og fær þá togarinn
skráningarnúmerið RE 361. Í maí 1948 setti Neptúnus heimsmet í aflasölu í
Grimsby. Seldi togarinn 356 tonn fyrir 19.069 sterlingspund og stóð það met í
ein 13 ár að ég held. Í desember sama ár kom upp mikill eldur í kyndistöð
togarans í Grimsby en þar hafði hann selt afla sinn nokkru áður. Miklar
skemmdir urðu á honum og var hann dreginn til Aberdeen í Skotlandi. Tók sú
viðgerð um 8 mánuði og fór hún fram í smíðastöð skipsins, hjá John Lewis &
Sons Ltd. Hinn 28 ágúst árið 1964 kom upp eldur í einangrun undir katli
togarans og breiddist hann hratt út í vélarúminu að ekki var neitt viðlit fyrir
skipverja að ráða niðurlögum hans. Var því ákveðið að skipið yrði yfirgefið og
áhöfnin, 32 menn, færu í björgunarbátana og færu um borð í varðskipið Albert
sem komið var á staðinn. Neptúnus var þá á veiðum um 20 sjómílur norðvestur af
Garðskaga. Miklar skemmdir urðu á togaranum og tók þó nokkurn tíma að gera við
hann. Neptúnus var alla tíð mikið afla og happaskip og var lengst af undir
stjórn Bjarna Ingimarssonar frá Hnífsdal. Togarinn var seldur í brotajárn til
Spánar eftir að hafa legið í nokkur ár við Ægisgarð, og sigldi hann þangað
undir eigin vélarafli hinn 6 október árið 1976.
B.v. Neptúnus RE 361 á toginu. (C) Ásgrímur Ágústsson.
Stærsti
togari Íslendinga kominn til Hafnarfjarðar
Stærsti togari, sem til þessa hefir verið smíðaður handa
íslendingum, kom til Hafnarfjarðar í fyrradag frá Englandi. Heitir hann
Neptúnus og er eign útgerðarfélagsins Júpíters í Hafnarflrði. Togari þessi er
einn af þeim 30 togurum, sem íslendingar láta smíða í Englandi, en samið var um
miklar breytingar á þessu skipi frá hinni upphaflegu teikningu. Neptúnus er 183
½ fet að lengd og 717 rúmlestir. Hann er því um 67 rúmlestum stærri en hinir
nýju togararnir. Auk þess sem Neptúnus er stærri en aðrir nýju togararnir, er
hann þeim frábrugðinn að ýmsu öðru leyti. Matsalur skipverja er frammi á
skipinu, en ekki fyrir aftan brú. En þar eru aftur á móti lýsisbræðslutækin.
Hefir sú orðið reynsla með þá nýju togara, sem komnir eru, að þeir eru orðnir
of léttir að aftan og er því með þessu gerð tilraun til að þyngja skipið að
aftan og létta það að framan. Fiskiborð og kassar eru ekki geymdir í
forlestinni á Neptúnusi, eins og venja er, heldur er geymsla fyrir þau undir
hvalbak.
Tíminn. 29 desember 1947.
B.v. Neptúnus GK 361 við komuna til landsins. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
B.v. Neptúnus RE 361. Eins og sjá má á myndinni er lunningin einungis hækkuð um 18" aftur fyrir vantinn, enda er skipið nánast nýtt og komið með RE 361 skráninguna. Ljósmyndari óþekktur.
B.v. Neptúnus RE 361 á veiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Glæsileg
landkynning
Nokkrum dögum áður en Sjómannadagsblaðið fór í prentun,
seldi annar stærsti nýsköpunartogari Íslendinga, b.v. Neptúnus, afla sinn í
Englandi, 356 tonn, fyrir 19.069 sterlingspund eða um 500.000,00 ísl. krónur.
Breska útvarpið, sem hlustað er á um allt breska heimsveldið og meira og minna
um alla veröldina, skýrði ýtarlega frá þessari einstæðu aflasölu sem væri
heimsmet og flest stærstu blöð meginlandsins tóku fréttina upp með stórri
fyrirsögn í dálka sína. Auk þessa munu að sjálfsögðu öll fiskveiðirit víðsvegar
um veröldina gera hana að umræðuefni. Það er mikið rætt og ritað um
landkynningu í ymsu formi, en ekki þarf mikla skarpskyggni til þess að skynja
að slíkt afrek, sem hér er um að ræða, mun 'bera upp hróður Islands styrkari
stoðum heldur en nokkurt íþróttamet gæti gert. íslenzk sjómannastétt og þjóðin
í heild gleðst heilum huga og finnur til metnaðar yfir slíku afreki fengsæls
skipstjóri og dugmikillar skipshafnar á gjörvilegu skipi traustrar útgerðar.
Skipstjóri á b.v. Neptúnus er hinn þjóðkunni aflamaður Bjarni Ingimarsson frá
Hnífsdal, eigandi skipsins er útgerðarfélagið Júpiter h.f. í Reykjavík, en
framkvæmdarstjóri þess er Tryggvi Ófeigsson.
Sjómannadagsblaðið. 6 júní 1948.
B.v. Neptúnus RE 361 leggst við bryggju í Grimsby. Ljósmyndari óþekktur.
Saltfiski landað úr Neptúnusi RE í Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Neptúnus
skemmdist af eldi í Grimsby
Engan mann sakaði
Togarinn Neptúnus skemmdist nokkuð af eldi skömmu áður en
hann átti að láta úr höfn í Grimsby. Engan mann sakaði, en skipið mun tefjast
eitthvað ytra. Tíðindamaður blaðsins snéri sér til Tryggva Öfeigssonar
útgerðarmanns og fékk hjá honum eftirfarandi upplýsingar:
Togarinn Neptúnus, eign togarahlutafélagsins Júpíter í Reykjavík, seldi afla
sinn í Grimsby í fyrradag. Skömmu áður en skipið átti að láta úr höfn kom eldur
upp í svonefndu "fírplássi" eða kyndistöð togarans, en umhverfis hana eru
olíugeymar skipsins. Voru þeir nýfylltir af olíu. Leit svo út um tíma, að eldur
mundi læsast í olíugeymana. Við það mundi sprenging hafa átt sér stað í skipinu
og það ónýtzt. Slökkviliðinu í Grimsby tókst þó, þrátt fyrir óhæga aðstöðu, að
koma í veg fyrir sprengingu og réð það niðurlögum eldsins. Skipið skemmdist í
kyndistöð og kringum hana, svo sem einangrun á eimkatli svo og stýrishús, en
þar er loftskeytastöðin.
Togarinn Neptúnus er tæplega ársgamall. Á þessu tímabili hefur hann farið 13
söluferðir. Hann er söluhæstur allra togara. Hefur selt fyrir samtals 172 þús.
sterlingspund. Heimsmet í sölu setti hann í maí sl. er hann seldi fyrir 19.069
sterlingspund. Íslendingar eiga einn togara af sömu gerð og Neptúnus, en það er
togarinn Marz frá Reykjavík. Hefur þessi gerð nýsköpunartogara reynzt svo vel,
að hinir 10 togarar, sem ríkisstjórnin hefur nýlega samið um smíði á, eru í
öllum aðalatriðum eins. Skipstjóri á Neptúnus er Bjarni Ingimarsson frá
Hnífsdal, þjóðkunnur aflamaður. Hann sigldi ekki með skipið til Englands að
þessu sinni.
Þjóðviljinn. 17 desember 1948.
B.v. Neptúnus RE 361 að koma til hafnar í Reykjavík. Ljósmyndari óþekktur.
B.v. Neptúnus RE 361 á veiðum. (C) Sigurgeir B Halldórsson.
Eldur í
Neptúnusi út af Garðskaga
Mannbjörg varð
Um kl. 18.30 í gærkvöldi kom upp eldur í togaranum
Neptúnusi, er hann var staddur 21 sjómílu norðvestur af Garðskaga. Skipshöfnin,
32 menn , snerist þegar gegn eldinum, sem kom upp undir katli skipsins, en fékk
ekki við neitt ráðið. Á tíunda tímanum gaf skipstjórinn, Valdimar Guðmundsson ,
skipshöfninni fyrirmæli um að yfirgefa skipið, en þá var varðskipið Albert
komið á staðinn til hjálpar. Áhöfn togarans fór á tveimur bátum yfir í
varðskipið, og sakaði engan . K l. 23.15 í gærkvöldi höfðu sjö menn af áhöfn
b.v. Neptúnusar farið aftur um borð í skipið, þeirra á meðal skipstjórinn. B.v.
Júpíter var þá kominn á staðinn, og kl. 0.50 hafði taug og dráttarvírar verið
festir milli skipanna . Lagði bv Júpiter þá af stað til Reykjavíkur með bv.
Neptúnus í drætti. 25 menn af áhöfn Neptúnusar voru þá um borð í Albert og
væntanlegir til Reykjavíkur milli kl. 3 og 4 í morgun . Hinir sjö voru í b.v.
Júpiter, en hann var væntanlegur til Reykjavíkur ásamt Neptúnusi kl. 6-7 í
morgun . Búizt var við í nótt, að hafnsögubáturinn Magni kæmi á móti skipunum
með aflmiklar slökkvidælur. Sem fyrr segir, bar slökkvistarf áhafnarinnar á
Neptúnusi ekki árangur. Eldurinn náði fljótlega útbreiðslu í vélarúminu. Þar
niðri voru gas- og súrefnistæki, sem juku á sprengingarhættu í skipinu. Sagði
Tryggvi Ófeigsson, útgerðarmaður, í stuttu símtali við Morgunblaðið í
gærkvöldi, að það hafi fyrst og fremst verið með tilliti til þessarar hættu, að
skipið var yfirgefið. Útgerðarfélögin Júpíter og Marz gera tvo fyrrnefnda
togara út Tryggvi sagði og, að áður en skipið var yfirgefið, hafi öllum hurðum
og gluggum verið lokað í þeirrr von að á þann hátt mætti kæfa eldinn.
Þegar
Mbl. vissi síðast til í nótt, var of snemmt að fullyrða nokkuð um hugsanlega
björgun skipsins, en mikill eldur var í því, þegar það var yfirgefið. Skipið er
vátryggt hjá Vátryggingamiðstöðinni hf. Liklegt var talið, að kviknað hefði í
út frá einangrun á katli. Togarinn Neptúnus, sem er eign h.f." Júpíters
hér í Reykjavík, fór á veiðar héðan aðfaranótt föstudags. Togarinn hefur
undanfarið verið í 16 ára flokkunarviðgerð í Reykjavik. Slík flokkunarviðgerð
mun kosta um 2,5 millj. kr. Bjarni Ingimarsson, hinn þjóðkunni skipstjóri, fór
með sínu gamla skipi í þessa fyrstu ferð eftir flokkunarviðgerðina, en hann
hefur undanfarið verið með bv. Júpíter. Botnvörpungurinn Neptúnus er smíðaður í
Aberdeen árið 1947, 684 brúttólestir að stærð. Þegar hann var fimmtán mánaða
gamall, kom upp eldur í honum, er hann var staddur í Grimsby. Urðu þá svo
miklar skemmdir á skipinu, að það kostaði um 3/4 af kaupverði skipsins að
endurbæta hann. Alla tíð hefur Neptúnus verið meðal aflahæstu togara íslenzka
fiskiskipaflotans. Árið 1948 setti hann sölumet (í sölu ísvarins fisks) í
Bretlandi. Var það heimsmet, sem stóð óhnekkt í þrettán ár.
Morgunblaðið. 29 ágúst 1964.
B.v. Neptúnus RE 361 yfirgefinn vegna elds út af Garðskaga í ágúst 1964. (C) Atli Michelsen.
157. Neptúnus RE 361 í Reykjavíkurhöfn. (C) Þór Eyfeld.
B.v. Neptúnus RE 361 á leið úr Reykjavíkurhöfn í síðasta sinn í október 1976. (C) Ólafur K Magnússon.
Neptúnus
kveður
B.v. Neptúnus RE 361, einn frægasti togari íslendinga fyrr
og síðar, sigldi í gær áleiðis til Spánar í brotajárn. Hann hefur legið á þrjú
ár við Ægisgarð. Eigandi Neptúnus var h/f Júpiter. Togarinn var smíðaður 1947 í
skipasmiðju John Lewis & Sons í Aberdeen. Smíði Neptúnusar var að öllu
leyti lokið á aðfangadagskvöld jóla 1947, er skipið hélt áleiðis til Íslands.
Skipstjóri var Bjarni Ingimarsson. Neptúnus kom til Hafnarfjarðar á 3. í jólum
og fór á veiðar tafarlaust, eftir að Páll Halldórsson, skólastjóri
Stýrimannaskólans, hafði lokið mælingu skipsins. Neptúnusi gekk afburða vel
strax. Setti heimsmet í sölu í Grimsby þann 7. mai 1948, landaði 5.709 kits,
sem jafngildir 363 tonnum. Sala í sterlingspundum var 19.069.
Neptúnus átti heimsmetið í alls þrettán ár, lengst allra togara fyrr og síðar.
Á karfaárunum eftir 1950 kom Neptúnus til Reykjavíkur með einn mesta karfaafla,
sem nokkur togari hefur fengið. Neptúnus var systurskip Marz, en þau voru
smíðuð samtímis. Tryggvi Ófeigsson sá um smíði beggja togaranna, kom með þeim
heim og tók við þeim báðum. Marz kom til Reykjavíkur á sumarmálum 1948.
Skipstjóri á honum var Þorsteinn Eyjólfsson. Meðan á smíði skipanna stóð
dvaldist Tryggvi Ófeigsson að mestu í Aberdeen og fékk eftirfarandi breytingum
framgengt á smíðasamningi nýsköpunarstjórnarinnar: 1) Skipin voru lengd um 8,5
fet. 2) Skjólborð hækkað, sem var talin hin ágætasta breyting, þegar skipverjar
unnu á framdekki. 3) Lestarhlerar gerðir úr stáli, svo aldrei þurfti eftirlits
á dekki í ofviðrum. 4) "Mónó"-lifrardælur settar í bæði skipin, þannig að
lifrarburður var úr sögunni, sem var afleit vinna og hættuleg í vondum veðrum.
Neptúnus og Marz voru fyrstu skipin með þessum breytingum.
Stækkun skipanna jók burðarþol mjög og skipin urðu gangmeiri, svo um munaði í
mótvindi. Margar fleiri breytingar voru gerðar, þótt ekki séu þær taldar hér.
Miklir aflamenn hafa verið skipstjórar á Neptúnusi. Lengst var Bjarni
Ingimarsson, alls þrettán ár, og Jóhann Sveinsson, sem var í átta ár. Neptúnus
hefur borið að landi geysilegan afla fyrir íslenzku þjóðina, verið mikið
happaskip og greitt alla tíð hæstu opinber gjöld allra íslenzkra togara.
Neptúnus kveður Ísland skuldlaus.
Morgunblaðið. 7 október 1976.