03.05.2021 16:15
B.v. Þormóður goði RE 209. TFSD.
Togarinn Þormóður goði RE 209 var
smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1958 fyrir
Bæjarútgerð Reykjavíkur. 849 brl. 1.600 ha. Krupp díesel vél. Skipinu var
hleypt af stokkunum 28 janúar árið 1958 og kom til heimahafnar sinnar,
Reykjavíkur hinn 9 apríl sama ár. Þormóður var annar togarinn sem smíðaður var
fyrir Íslendinga í Þýskalandi eftir lok seinni heimstyrjaldar og tók hann við
hlutverki Nýsköpunartogarans Jóns Baldvinssonar RE 208 sem strandaði við Hrafnkelsstaðaberg
á Reykjanesi í lok mars árið 1955. Hans Sigurjónsson var fyrsti skipstjóri
togarans. Þormóður goði var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur til 27 nóvember
árið 1978, eða í 20 ár, en þá var hann seldur Ólafi Óskarssyni útgerðarmanni í
Reykjavík, hét þá Óli Óskars RE 175. Skipið var yfirbyggt og breytt í
hringnótaveiðiskip í Finnlandi árið 1979. Einnig var sett ný vél í skipið, 2.640
ha. Wartsila vél, 1.942 Kw. Eftir það varð Óli Óskars eitt af aflahæstu
loðnuveiðiskipum íslenska flotans. Og eftir að skipið komst í eigu
Síldarvinnslunnar h/f í Neskaupstað í maí árið 1981, hét þá Beitir NK 123, var
það einnig í röð aflahæstu skipa. Þetta skip á sér mikla og merka sögu að baki
í þau 49 ár sem það var gert út á Íslandsmiðum. S.V.N. átti skipið í rúm 26 ár,
uns það var selt til Greena í Danmörku í brotajárn á vordögum árið 2007. Þormóður
goði var einn af síðustu síðutogurunum sem Íslendingar gerðu út, ef ekki sá
síðasti.
B.v. Þormóður goði RE 209 á toginu. (C) Ásgrímur Ágústsson. Úr safni Hafliða Óskarssonar.
Ýmsar
athygisverðar nýjungar í "Þormóði goða"
Stærsta skip
Íslenzka fiskiflotans kom til Reykjavíkur í gær
Bjart veður og sólskin var, er Þormóður goði sigldi fánum
skrýddur inn á ytri höfnina hér í Reykjavík um klukkan 11,30 f. h. í gær. Þá
þegar lögðu margir leið sína niður að höfn til þess að sjá togarann, sem er
allur hið glæsilegasta skip. Um kl. 1 síðd. lagðist togarinn að hafnarbakkanum
undir kolakrananum. Var þar fyrir allmargt fólk. Á nokkrum byggingum við
höfnina var flaggað í tilefni af komu togarans. Um nónbil í gær bauð
skipstjórinn, Hans Sigurjónsson blaðamönnum að skoða togarann. Tók hann á móti
gestum sínum í hinni glæsilegu skipstjóraíbúð. Þar voru þeir einnig Hafsteinn
Bergþórsson framkv.stj. og Þorsteinn Arnalds skrifstofustjóri
Bæjarútgerðarinnar. Skipstjórinn skýrði meðal annars frá því, að í síðari
reynsluför hefði togarinn náð 15 sjómílna hraða. Hann kvað enga reynslu enn
komna á sjóhæfni togarans því ládauður sjór hefði verið alla leiðina.
Þjóðverjar sögðu, að þó togað væri í 9 vindstigum, væri hvorki öryggi
skipsmanna né skips teflt í tvísýnu.
Á heimleið var komið við í Grimsby og tekin þar veiðarfæri og ýmislegt fleira.
Eru í togaranum um 400 tonn af salti og
á annað hundrað tonn af öðrum farangri, svo að heita má að hann hafi verið ,á
hleðslumerkjum', er hann kom. Hann var þrjá sólarhringa frá Grimsby.
Skipstjórinn sagði frá nokkrum nýjungum. Á stjórnpalli eru t. d. þrjú stýri,
sem nota má til skiptis eftir þörfum. Það er stýri í miðri brúnni, hið
venjulega stýri, skipsins, en svo eru stýri á hvorri síðu, sem notuð eru þegar
togarinn er að veiðum. Í brúnni sýndi skipstjórinn blaðamönnum tvær fisksjár.
Er önnur þýzk, og er hún jafnframt dýptarmælir, en hin er Kelvin-Hughes
fisksjá. Þá sýndi hann sérstakan lofthemlaútbúnað fyrir vörpuna, sem verða á
til mikils hagræðis við veiðar. Stjórnpallur skipsins er stór og bjartur. Sími
er lagður um allt skipið, alls konar rofar og öryggistæki, sem gripið er til,
ef eitthvað óvænt ber að höndum, t. d. eld. Loftskeytamaðurinn, Guðmundur
Pétursson, sýndi gestunum hina miklu loftskeytastöð togarans. Sagði hann, að
stöð skipsins væri það öflug að á stuttbylgjum mætti ná talsambandi við skipið
nærri því hvar sem er á þeim siglinga og veiðisvæðum, sem ísl. togararnir kæmu
á hér við land og við Grænland.
226. Óli Óskars RE 175 á landleið með fullfermi. (C) Guðni Ölversson.
Þá sýndi hann lítið tæki, sem er sjálfvirkur neyðarsendir og setja skal í
samband, ef yfirgefa þarf skipið, hvort heldur er vegna strands eða óvæntra
atvika á hafi úti. Þessi sjálfvirki neyðarsendir gerir það kleift fyrir önnur
skip og strandstöðvar, að miða togarann nákvæmlega út. Gísli Jón Hermannsson,
fyrsti stýrimaður, fylgdi blaðamönnunum um skipið. Allar íbúðir og gangar eru
klæddir að innan með ljósum harðviði.. Eru íbúðirnar hinar vistlegustu og
rúmgóðar. Gísli Jón benti á ýmislegt af því, sem nýtt er í þessu skipi.
Sérstakur gangur er úr brú og aftur í skipið til mikils hægðarauka og öryggis
fyrir skipsmenn. Þegar komið er í hásetaíbúðir, er fyrst komið í þurrkklefa,
þar sem skipsmenn fara úr hlífðarfötum, en þar fyrir innan er hvítmálað, bjart
snyrtiherbergi. Íbúðir eru allar hitaðar upp með rafmagni. Eru hásetaklefar
ýmist 2 eða 4 manna og eru þar inni borð, kollar og bekkir. Rafmagnseldavél er
í stóru og rúmgóðu eldhúsi og í matsalnum geta 26 skipsmenn borðað samtímis.
Athygljsvert er það og að klampar allir í fisklestinni eru úr aluminium og
einangrun fisklestar er jöfn í lofti sem gólfi lestarinnar. Sérstakur stigi er
úr stigahúsi við framsiglu, niður í fisklestar. Hafsteinn Bergþórsson
framkvæmdastjóri, upplýsti aðspurður, að þessi stóri togari, sem er eign
Reykvíkinga, hefði kostað um 14 milljónir króna. Þormóður goði hefur meiri
úthaldsmöguleika en nokkur annar íslenzkur togari. Hann getur verið að veiðum
án þess að koma til hafnar og endurnýja vatns eða olíubirgðir samfleytt í 45
daga.
Hafsteinn sagði að togarinn myndi í fyrstu veiðiförinni veiða fisk til
söltunar. Lestarrýmið er það mikið, að ef vel gengur, getur togarinn komið með
um 550 tonn af saltfiski úr þessari veiðiför. Það er nær 100 tonnum meira en
"methafinn" Þorsteinn Ingólfsson, hefur landað eftir eina veiðiför.
Hafsteinn Bergþórsson sagði, að nú ætti eftir að reyna það, hversu vandað skip
Þormóður goði væri. Hið ytra væri svo að sjá, sem allt væri sérlega vandað og
vandvirknislega af hendi leyst. Skipasmíðastöðin Seebeck í Bremerhaven hefur
ekki fyrr smíðað jafnstóran togara. Aðalvél skipsins er 1650 hestafla Krupp
vél. Sagði skipstjórinn frá því að í reynsluförinni hefði ekki orðið vart neins
titrings, þó snúningshraðinn næði hámarki. Nú þegar er búið að ráða um 30 menn
á Þormóð goða. Í gærdag komu um borð nokkrir sjómenn til þess að falast eftir
skiprúmi. Væntanlega heldur Þormóður goði til veiða um helgina. Togarinn verður
til sýnis fyrir almenning milli kl. 5 og 9 síðdegis í dag.
226. Beitir NK 123 með fullfermi á Norðfirði. (C) Síldarvinnslan h/f.
Síðdegis í gær skoðuðu borgarstjóri, bæjarstjórn og nokkrir gestir skipið.
Formaður útgerðarráðs, Kjartan Thors, flutti við það tækifæri eftirfarandi
ræðu: "Virðulegir gestir Bæjarútgerð Reykjavíkur er það mikil ánægja að bjóða
ykkur hjartanlega velkomna um borð í þetta nýjasta og stærsta skip
útgerðarinnar. Vissulega er slík viðbót við fiskiflota landsmanna merkur og
gleðilegur viðburður. Og efast ég ekki
um að flestir íbúar þessa bæjar óski þess af heilum hug að gæfa og gengi megi
ætíð fylgja hinu fagra skipi og áhöfn þess. Í fljótu bragði virðist einnig, að
ástæðulaust ætti að vera að óttast að slíkar óskir rættust ekki. Þormóður goði
mun vera stærsta og fullkomnasta fiskiskip, sem til þessa dags hefir komið í
eigu íslendinga. Það er byggt í einhverri þekktustu og beztu togarasmíðastöð,
sem starfrækt er í Evrópu, undir umsjón ágætra manna. Ekkert hefir heldur verið
sparað til þess að það geti gegnt því forustuhlutverki í veiðiflota íslendinga,
sem vonast mætti til af svo stóru og vel búnu skipi. Gera verður einnig ráð
fyrir að skiprúm verði eftirsótt og í það veljist úrval ágætis manna. Dagleg
stjórn í landi verður einnig í höndum hinna valinkunnu framkvæmdastjóra
Bæjarútgerðarinnar. Tvennt er þó það, sem varpar dálitlum skugga á gleði mína.
Má þar fyrst nefna hina ískyggilegu aflatregðu, er nú um langt skeið hefir
verið á veiðisvæðum togaranna. Og í öðru lagi mjög svo ófullnægjandi
starfsgrundvöllur, sem þessum veiðiskipum er búinn. Aflabrestinn ráðum við ekki
við, en með bjartsýni útvegsmannsins er sífellt vonað að úr rætist. Ég held að
allir séu mér sammála um að starfsgrundvöllur sá, er togararnir búa við, er
allsendis óviðunandi. Og þarf þar skjótra úrbóta, ef forða á vandræðum. Hefi ég
ástæðu til að ætla, að bráðlega verði gerðar ráðstafanir til lagfæringar.
Að lokum vil ég biðja ykkur, góðir gestir, að rísa úr sætum og sameinast um þá
ósk, að þetta nýja skip megi ætíð verða sannkölluð happafleyta. Guð og gæfa
fylgi ætíð skipi og áhöfn þess. Það lifi". Gunnlaugur Briem,
ráðuneytisstjóri þakkaði af hálfu gesta og árnaði skipinu heilla.
Morgunblaðið. 10 apríl 1958. .