19.05.2021 17:35
B.v. Gyllir RE 267. LBFM / TFWC.
Botnvörpungurinn Gyllir RE 267 var smíðaður hjá Schiffsbau
Geselleschafts Unterweser í Wesermunde-Lehe í Þýskalandi árið 1926 fyrir
Fiskiveiðahlutafélagið Sleipni í Reykjavík. 369 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél.
Smíðanúmer 222. Við gjaldþrot Sleipnisfélagsins vorið 1932, tekur hf Kveldúlfur
við rekstri Gyllis og Gulltopps RE 247. Seldur 23 janúar 1952, hf Ísfelli á
Flateyri, hét þá Gyllir ÍS 261. Stuttu áður en togarinn var seldur vestur, var
sett í hann olíukynding í stað kolanna. Togarinn var seldur í brotajárn til Ghent í
Belgíu og tekinn af skipaskrá 18 október árið 1960.
Ingvar E Einarsson var fyrsti skipstjóri á Gylli og var með
hann fyrstu þrjú árin. Hann hafði þetta að segja um sjóhæfni Gyllis,; "Gyllir
var gott skip, listaskip. Hann var þýskbyggður og þýsku togararnir voru léttari
í sjó og ultu betur af sér en ensku togararnir. Hann var dálítið vangæfur um
forgálgann en sjóborg um síðuna og afturendann. Það kom einu sinni fyrir í þau
tæpu þrjú ár, sem ég var með hann, að ég þyrfti að slá af vegna veðurs. Hann
var treystur að framan svo að hann þyldi, að honum væri keyrt í ís. Hann óð í
gegn um hvað sem var."
Heimild: Sagan gleymir engum. Ásgeir Jakobsson. 1989.
B.v. Gyllir RE 267 á toginu. Ljósmynd í minni eigu.
Togarinn
"Gyllir"
Skipastóll íslendinga vex nú svo ört, að varla þykir lengur
tíðindum sæta, þó að nýju skipi sje bætt við í hópinn. Þó eru það góð tíðindi,
því þau bera vott um vaxandi þrótt atvinnuvegar, og viðleitni hans til að
blómgast. En þessum góðu tíðindum fylgir einnig gleði nokkur, og hún er því
verðmætari, sem dómur ágætra sjómanna um skipin eru betri. Íslenskir sjómenn
hafa einnig kveðið upp dóm um "Gylli", hið nýja skip h.f. Sleipnis. Sá
dómur fer í þá átt, að "Gyllir" muni vera meðal hinna allra bestu og
vönduðustu skipa í íslenska togaraflotanum, og þykja
mörgum það góð tíðindi. "Gyllir" er kominn heim frá Þýskalandi, eftir 5
sólarhringa útivist, og má með sanni segja, að hinn gulljárnaði sæfákur hafi
reynst vel á fyrsta sprettinum. "Gyllir" er stærsti og að mörga leyti
vandaðasti togari, er smíðaður hefir verið í Þýskalandi.
Hann er um 50 metra á lengd, 7,85 metra
breiður og að hæð 4,60 metrar. Gufuvjelin hefir ca. 800 hestöfl, og í
kyndararúmi er nýr, smellinn útbúnaður til að losna hæglega við öskuna. Góð
lifrarbræðslutæki eru einnig í skipinu. Það hefir "Star"-fastaskrúfu, en
hún skilar skipinu krafti,,sem annars myndi fara forgörðum. Skipið er smíðað
hjá "Unterweserskipasmíðastöðinni í Wesermunde-Lehe. Skipið vakti eftirtekt,
meðan það lá í höfn meðal þýskra togara, enda var þess getið í þýskum blöðum.
Skipstjórinn Ingvar Einarsson (áður á "Glað") sótti "Gylli".
Vjelstjórinn er Vilhelm Jónsson (áður á Gulltoppi). Var hann til eftirlits á
smíðastöðinni sex vikna tíma, og var það vel ráðið af h.f. Sleipnir.
Morgunblaðið. 7 mars 1926.
B.v. Gyllir RE 267 með trollið á síðunni. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
B.v. Gyllir RE 267. Þarna er togarinn kominn í "eigu" Kveldúlfs. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
B.v. Gyllir ÍS 261. Skipverjar að taka inn trollið. (C) Sigurgeir B Halldórsson.
Flateyringar
eignast togara
Þriðjudaginn 8. þ.m. kom til Flateyrar togarinn Gyllir, sem
hraðfrystihúsið Ísfell hefir keypt og gerður verður út þaðan. Mikil viðhöfn var
á Flateyri við komu skipsins. Hreppstjórinn flutti ræðu og árnaði skipinu og
eigendum þess allra heilla og lét í Ijósi þá von, að skipið mætti verða þorpinu
til sem mestrar eflingar. Framkvæmdarstjóri Ísfells svaraði fyrir hönd eigenda.
Að því loknu skoðuðu menn skipið, en skipstjóri á því er Þórhallur Halldórsson.
Togarinn Gyllir er um 360 smálestir að stærð. Hann er einn af eldri togurunum,
en áður en skipið var afhent hinum nýju eigendum hafði farið fram á því
gagngerðar endurbætur m.a. hafði verið sett í það olíukyndingartæki.
Ísfell gerir togarann út á síldveiðar í sumar og lagði skipið upp frá Flateyri
þegar daginn eftir. Auk herpinótar hefir skipið meðferðis flotvörpu, sem reynd verður
við síldveiðarnar. Sú flotvarpa var gerð af Ásgeiri Torfasyni, verksmiðjustjóra
á Sólbakka, árið 1936 og því vafalaust sú elsta, sem hér hefir verið búin til.
Var hún þá þegar reynd, en án teljandi árangurs, enda engin þau tæki til þá,
sem hægt væri að mæla með hversu djúpt síldin stendur, eins og nú. Í ráði er,
að Gyllir leggi síldina upp fyrir norðan, en komið hefir til mála að saltað
verði um borð. Ef fært þykir, mun hann leggja síldina upp á Flateyri.
Vesturland. 17 júlí 1952.