24.05.2021 09:25
B.v. Max Pemberton RE 278. LBDC / TFMC.
Botnvörpungurinn Max Pemberton RE 278 var smíðaður hjá
Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1917 fyrir Newington Steam
Trawling Co Ltd í Hull, hét þá Max Pemberton H 563. 323 brl. 600 ha. 3 þennslu
gufuvél frá C.D. Holmes & Co Ltd í Hull. 42,52 m. á lengd, 7,22 á breidd og
djúprista 3,93 m. Smíðanúmer 672. Var í þjónustu breska sjóhersins frá fyrsta
ári til 1919. Hét þar H.M.T. Max Pemberton FY 3049. Skilað til eigenda sinna
árið 1919. Togarinn strandaði við Kílsnes á Melrakkasléttu 20 mars árið 1928.
Áhöfninni, 15 mönnum, var bjargað á land af Sigurði Kristjánssyni bónda á
Leirhöfn ásamt fleirum af nálægum bæjum á Sléttu. Togarinn var talinn ónýtur á
strandstað og keypti Sigurður bóndi flakið á uppboði á 250 krónur. Í
ágústmánuði tókst varðskipunum Þór og Óðni að ná honum á flot. Reyndist togarinn ekki
eins illa farinn og haldið var og drógu varðskipin hann til Akureyrar og síðan
til Reykjavíkur. Í október kaupir Halldór Kr Þorsteinsson skipstjóri í Háteigi
togarann og siglir honum til Englands til viðgerðar. Viðamikil viðgerð fór fram
á honum í Englandi sem tók nokkra mánuði. Kom togarinn til landsins 8 febrúar
1929 og var Halldór með hann fyrstu vertíðina. Síðan tekur Pétur A Maack við
skipstjórn á togaranum. Frá 7 október 1935 var Max Pemberton hf í Reykjavík
skráður eigandi skipsins. Togarinn fórst að morgni hinn 11 janúar árið 1944 að
talið er, við Malarrif á Snæfellsnesi með allri áhöfn, 29 mönnum. Síðasta
skeytið sem kom frá honum snemma þennan morgun hljóðaði á þessa leið; "Lónum
innan við Malarrif". Síðan hefur ekkert spurst til hans og var jafnvel talið að
hann hafi farist af hernaðarvöldum, en það er og verður sennilega aldrei vitað
hvað kom fyrir skip og áhöfn. Veður var ekki það slæmt að togaranum væri
einhver hætta búin vegna þess.
"Skömmu eftir að leitin að Max Pemberton hófst, var togarinn Egill
Skallagrímsson að koma af veiðum á Halamiðum og lenti þá skipið í miklum
háskasjóum er það var statt út af Malarrifi. Sagði skipstjórinn á Agli
Skallagrímssyni, Lúðvík Vilhjálmsson svo frá, að þarna virtist hafa myndast
smásvæði þar sem öldurnar komu úr öllum áttum, og varð úr eins konar svelgur
með feikna miklum straumi. Var ekki viðlit að snúa skipinu, og tók það fullar
sex klukkustundir að komast út af þessu svæði, sem var þó ekki meira en um tíu
sjómílur. Fékk skipið hvað eftir annað brotsjó á sig og einn af hásetum þess,
Jón Kristján Jónsson frá Ísafirði, meiddist mikið er sjór slengdi honum til."
Heimild: Þrautgóðir á raunastund. lll bindi bls. 69.
Steinar J Lúðvíksson.
1971.
B.v. Max Pemberton RE 278 á siglingu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Togari
strandar
Botnvörpungurinn "Max Pemberton" frá Hull strandaði á Kílsnesi
á Melrakkasléttu að morgni þess 20. þ. m. Heyrðu menn á bæjum þar í kring, að
blásið var í sífellu í skipsflautu, og ályktuðu af því, að skip kynni að vera í
sjávarháska statt þar við skerjagarðinin. Mikið dimmviðri var, hvasst á
norðaustan og brim. Botnvörpungurinn strandaði innan skerjagarðsinis, hefir
sennilega verið kominn inn á Leirhöfn, en snúið við. Mun hafa verið ógerlegt að
átta sig vegna dimmviðris. Þá um morguninn brugðu menn við þegar og fóru á
mótorbátum til þess að gera tilraun til þess að bjarga mönnunum. Bátunum tókst
þó ekki að komast nær skipinu en 50 faðma vegna þess hve mikill sjór var, og
brim. Seinni partinn þann 20. tókst loks að festa skipsbátinn við kaða og koma í
hann sex mönnum, og drógu mótorbátar síðan bátinn til lands. Var þetta um
fjöruna. Þegar báturinn var dreginn út að skipinu aftur, brotnaði hann. Var
ekki hægt að bjarga fleiri mönnum þá. Í gær voru útbúnir tveir bátar með
flotbelgjum. Tókst þá að bjarga 9 mönnum, sem eftir voru um borð. Var þeirri
björgun líkt hagað og þegar "Forseta" slysið vildi til. Bátana fyllti og
nokkrir mannanna drukku talsvert af sjó, en þeir hresstust allir furðanlega, og
þurftu ekki læknishjálpar. Strandmennirnir eru væntanlegir hingað undir eins og
veður skánar. Veður er enn slæmt, úfinn sjór. Botnvörpungurinn mun enn lítið
skemmdur, en leki mun kominn að honum. Ráðstafanir hafa verið gerðar til þess
að bjarga öllu, sem hægt er. Ofanskráðar
upplýsingar eru frá sýslumanninum á Húsavík eftir símtali við hann. Lofaði
sýslumaður mjög vaskleika þeirra manna, sem unnu að björguninni í nær tvo
sólarhringa. Mun Sigurður í Leirhöfn hafa staðið fyrir björguninni. Einn
Íslendingur var skipverji á botnvörpungnum, en eigi hafði sýslumaður frétt nafn
hans. Nánari fregnir væntanlegar, er strandmennirnir koma til Húsavíkur, er
verður í fyrsta lagi á morgun.
Alþýðublaðið. 22 mars 1928.
Um borð í Hulltogaranum Max Pemberton H 563. (C) Pat Russell.
Um borð í Max Pemberton H 563. (C) Pat Russell.
"Max
Pemberton"
Eins og menn muna strandaði enskur togari með þessu nafni á
Kílsnesi á Sléttu 20. mars s. l. Skipið var selt fyrir lítilræði, 250 krónur,
en framtaksmaður stóð fyrir kaupum, bóndinn á Leirhöfn, hugvitssamur
dugnaðarmaður. Alment var álitið að skipinu yrði ekki náð út. En
Leirhafnarbóndinn hafði tök á því með aðstoð varðskipanna Óðins og Þórs. Náði
hann skipinu á flot og kom því til Akureyrar.
Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1928.
Um borð í Max Pemberton H 563. (C) Pat Russell.
"Max
Pemberton" seldur
Max Pemberton hefir verið seldur. Kaupandinn er Halldór Kr.
Þorsteinsson skipstjóri og mun hann ætla að fara með skipið til Englands til
viðgerðar.
Morgunblaðið. 9 október 1928.
B.v. Max Pemberton RE 278 á siglingu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Togarinn Max
Pemberton ferst
Þjóð mikilla sæva er sköpuð þau örlög að gjalda þunga
skatta. Íslenzka þjóðin fer eigi varhluta af skattgreiðslunni. Árlega verður
hún að sjá af mörgum sonum sínum í blóma aldurs og manndóms. Undanfarin ár
hefur manntjón íslendinga verið all mikið ofan við meðallag. Nýbyrjað ár
heilsar oss með miklu afhroði, togarinn Max Pemberton ferst með 29 manna áhöfn.
Víða svíður undan slíkum missi. Mannlegur máttur má sín lítils gegn slíkum
atburðum. Þess er honum þó ekki varnað, að gegna starfi hins miskunnsama
Samverja. Þjóð mikilla sæva má ekki gleyma því starfi. Hún verður að muna það í
lengd; láta daglegt hátterni sitt markast af því. Löggjöf hennar þarf einnig að
fela í sér slíkt hugarþel. Íslendingar verða öllum þjóðum framar að leggja ríka
áherzlu á að útrýma forsjárleysi einstaklingsins. Hún eignast með því þau
smyrsl, er bezt munu gefast í þau sár, er bitrast svíða.
Togarinn Max Pemberton lagði af stað á veiðar frá Reykjavík 30. des. síðastl.
Stundaði hann veiðar við Ísafjarðardjúp. Fjórum dögum síðar kom togarinn til
Patreksfjarðar. Annar vélstjóri, er hafði meiðst nokkuð, var settur þar á land
og einnig var skipað þar upp 35 tunnum af lýsi. Ráðinn var vélstjóra í stað
þess, er meiðst hafði. Að því búnu lagði skipið á veiðar á ný. Viku síðar kom
Max Pemberton aftur til Patreksfjarðar, skilaði af sér vélstjóranum og tók þann,
er meiðst hafði. Þann sama dag, kl. 17, en það var 10. janúar, barst útgerð
skipsins svo hljóðandi skeyti frá skipstjóra: "Kem um eða eftir miðnætti."
Kl. 19,40 barst aftur skeyti, er var svo hljóðandi: "Kem ekki fyrr en á
morgun." Var þá búizt við skipinu. Þriðjudagsmorguninn 11. þ. m. kl. 7,30
sendi Max frá sér svo hljóðandi orðsendingu í kalltíma togaranna: "Lónum innan
við Malarrif." Síðan hefur ekkert fréttst af skipinu. Skip og flugvélar
gerðu víðfeðma leit, og einnig var gengið á fjörur á öllu sunnan- og utanverðu
Snæfellsnesi, en ekkert kom í ljós, er gefið gæti til kynna um afdrif skipsins.
Þessir menn fórust með Max Pemberton:
Pétur Maack skipstjóri, Ránargötu 30, f. 11. nóv. 1892. Hann var kvæntur og á 4
börn uppkomin á lífi. Sonur hans var 1. stýrimaður á skipinu og urðu þeir
samferða þessa hinztu ferð.
Pétur A. P. Maack, 1. stýrimaður, Ránargötu 2, f. 24. febr. 1915. Kvæntur, átti
2 börn 3 og 4 ára og eitt fósturbarn, 8 ára.
Jón Sigurgeirsson, 2. stýrimaður, Ásvallagötu 28, f. 9. nóv. 1912. Kvæntur,
átti tvö börn, á 1. ári og 5 ára.
Þorsteinn Þórðarson, 1. vélstjóri, Sólnesi við Baldurshaga, f. 19. maí 1892.
Kvæntur, á sex börn á lífi, 2, 6, 10, 13, 15 og 17 ára. Sonur hans, Þórður, var
annar vélstjóri á skipinu.
Þórður Þorsteinsson, 2. vélstjóri, Sólnesi við Baldurshaga, f. 10. maí 1924.
Benedikt R. Sigurðsson, kyndari, Hringbraut 147, f. 19. des. 1906. Kvæntur,
átti 4 börn, 2, 6, 14 og 15 ára.
Hilmar Jóhannsson, kyndari, Framnesveg 13, f. 4. marz 1924. Kvæntur.
Björgvin H. Björsson, stýrimaður, Hringbraut 207, f. 24. ágúst 1915. Kvæntur og
átti eitt barn 2 ára. Gísli Eiríksson, bátsmaður, Vífilsgötu 3, f. 1. apríl
1894. Kvæntur og átti fimm börn, yngsta 14 ára. Valdimar Guðjónsson, matsveinn,
Sogamýrarbletti 43, f. 21. ágúst 1897. Kvæntur og átti þrjú börn, 6, 8 og 11
ára, og sá fyrir öldruðum tengdaföður.
Kristján Kristinsson, aðstoðarmatsveinn, Háteigi, f. 2. júní 1929.
Guðmundur Einarsson, netjamaður, Bárugötu 36, f. 19. jan. 1898. Kvæntur og átti
2 börn, á 1. ári og 10 ára.
Guðmundur Þorvaldsson bræðslumaður, Selvogsgötu 24, Hafnarfirði, f. 7. des.
1899. Kvæntur og lætur eftir sig 6 börn.
Guðni Kr. Sigurðsson netjamaður, Laugaveg 101, f. 15. jan. 1893. Kvæntur.
Sigurður V. Pálmason netjamaður, Bræðarborgarstíg 49, f. 25. nóv. 1894.
Ekkjumaður og átti 5 börn. Sæmundur Halldórsson netjamaður, Hverfisgötu 61, f.
2. april 1910. Kvæntur og átti eitt barn ársgamalt.
Jens Konráðsson stýrimaður, Öldugötu 47, f. 29. sept. 1917. Kvæntur.
Jón M. Jónsson stýrimaður, Hringbraut 152, f. 10. okt. 1914. Ókvæntur.
Aðalsteinn Arnason háseti, frá Seyðisfirði (Efstasundi 14), f. 16. sept. 1924.
Ari Friðriksson háseti, Látrum, Aðalvik (Hörpugötu 9) f. 4. apríl 1924.
Arnór Sigmundsson háseti, Vitastíg 9, f. 3. okt. 1891. Kvæntur.
Guðjón Björnsson haseti, Sólvallagötu 57, f. 27. febr. 1926. Bjó hjá foreldrum
sínum. Hann var bróðir Björgvins.
Gunnlaugur Guðmundsson háseti, Óðinsgötu 17, f. 15. jan. 1917. Kvæntur og átti
eitt barn.
Halldór Sigurðsson háseti, Jaðarkoti, Árnessýslu (Hverfisgötu 89), f. 26. sept.
1920. Ókvæntur. Fyrirvinna yngri systkina og móður, sem er ekkja.
Jón Þ. Hafliðason háseti, Baldursgötu 9, f. 19. sept. 1915. Kvæntur og átti
eitt barn á 1. ári.
Kristján Halldórsson háseti, Innri-Njarðvík, f. 20. marz 1906, átti 3 börn. Hann
var bróðir Sæmundar. Jón Ólafsson háseti, Keflavík, f. 22. marz 1904. Ókvæntur.
Magnús Jónsson háseti, Frakkastíg 19, f. 11. ágúst 1920. Ókvæntur í
foreldrahúsum. Hann var mágur Péturs 1 stýrimanns.
Valdimar Hlöðver Ólafsson háseti, Skólavörðustíg 20 A, f. 3. apríl 1921.
Ókvæntur í foreldrahúsum. Togarinn Max Pemberton var 323 rúmleslir brúttó,
smíðaður í Englandi 1917. Aðaleigandi skipsins var Halldór Þorsteinsson
skipstjóri í Háteigi. Þótt skipið væri orðið gamalt, var það talið með
traustari skipum í togaraflotanum, enda ávallt mjög vel við haldið. Útbúnaður
þess allur var eins vandaður og frekast var völ á.
Ægir. 1 tbl. janúar 1944.
B.v. Max Pemberton RE 278 í Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Hvað veldur?
Þegar mikinn voða hefur borið að höndum, eins og nú síðast
hið hörmulega slys, er togarinn Max Pemberton fórst með allri áhöfn 29 manns,
þá spyrja menn sjálfa sig og aðra hver sé orsök slyssins. Við leitina kom
ekkert í ljós, sem hægt væri að draga af neinar áreiðanlegar ályktanir. Skipið
kom síðast að landi á Patreksfirði mánudaginn 10. janúar, rétt fyrir hádegi.
Ferð skipsins suður að Snæfellsnesi virðist hafa gengið ágætlega, því að um 5
stundum eftir, að það fór frá Patreksfirði, sendi það orðsendingu um, að það
lónaði við Jökul. Í austanstorminum og hríðarveðrinu um kvöldið virðist skipið
samkvæmt skeytum, sem það sendi, hafa verið í skjóli undan Snæfellsnesi. Um
morguninn, þriðjudaginn 11. janúar kl. 7,30, sendi skipið síðasta skeyti sitt:
"Lónum innan við Malarrif". Með þessu er sagt, að skipið sé komið suður
fyrir Malarrif á leið til Reykjavíkur. En eftir það ber slysið að höndum með
svo skjótum hætti, að hvorki er ráðrúm til þess að senda út neyðarmerki, né til
þess að koma út björgunarfleka, sem var á rennibraut á "keis" skipsins,
hvað þá björgunarbátum. Frá flekanum var svo gengið, að það átti ekki að taka
einn mann nema andartak að losa hann. Nú spyrja menn: "Lenti skipið á
tundurdufli?" Þau hafa sést á þessum slóðum við Snæfellsnes. Íslenzkt skip
hefur farist á tundurdufli og fleiri íslenzk skip hafa eflaust farist af þeim
sökum, þegar enginn er til frásagnar og stundum hafa íslenzk skip sloppið með
naumindum frá þessum voða, t. d. þegar Esja hafði nærri rekist á tundurdufl í
stormi og hríðarbyl. Duflið sást ekki fyrr en það straukst rétt við síðu
skipsins. Esja var þá að koma frá Ísafirði með á þriðja hundrað farþega frá
skíðamóti. Sama dag eða morguninn eftir, að þetta atvik kom fyrir, fór stórt
erlent skip, sem var með saltfarm, frá Önundarfirði áleiðis til Siglufjarðar og
var íslenzkur leiðsögumaður, Sigurður Oddsson, með skipinu. Til þessa skips
hefur ekkert spurst síðan.
Sjómenn vita, að tundurduflahættan er fyrir hendi, en hvort Max Pemberton hefur
farist af þeim orsökum eða ekki, er ekki hægt að fullyrða neitt um. Hefur
skipið farist sökum þess, að jafnvægispunktur þess hafi ekki verið á réttum
stað? Síðan ófriðurinn hófst hefur sú breyting verið gerð á stýrishúsi flestra
skipa, sem í millilandasiglingum eru, að það hefur verið brynvarið með því að
klæða stýrishúsið að utan með stálplötum. Er þessi breyting gerð samkvæmt
lagafyrirmælum. Brynvörnin á Max Pemberton mun hafa vegið rúmar tvær smálestir
og mun varla hafa gert skipið valtara, því að jafnframt hafði verið steypt í
það til mótvægis. Brynvörnin, útaf fyrir sig, sýnist því ekki hafa haft
úrslitaþýðingu um sjóhæfni skipsins. Þar er því varla að finna orsökina að
slysinu. Hefur skipið farist, vegna
þess, að það hafi verið yfirísað og misst jafnvægi sitt af þeim sökum. Á
mánudagskvöldið, þegar Laxfoss strandaði, gekk á með austanroki og
hríðarjeljum, en frostlítið var. Þá um kvöldið og aðfaranótt þriðjudagsins var
Max Pemberton í landvari við Snæfellsnes eftir hina greiðu ferð yfir
Breiðafjörð. Á þriðjudagsmorgun var batnandi veður og þýðviðri. Ef um ísun
hefði verið að ræða um nóttina, sem þó er ólíklegt, eftir þeim upplýsingum, sem
fyrir hendi eru, þá er það þó enn ólíklegra, að Pétur Maack, skipstjóri, sem
viðurkendur er af öllum, sem afbragðs sjómaður, myndi tefla skipi og mönnum í
tvísýnu, með því að halda af stað úr landvari á skipinu svo á sig komnu. Var
skipið niðurnítt og því illa viðhaldið? Skipið var 26 ára gamalt eða nákvæmlega
á meðalaldri togaraflotans íslenzka. Útgerðarmaður þess Halldór Þorsteinsson,
skipstjóri, í Háteigi, er kunnur að því að hafa haldið skipinu í eins góðu
ástandi og frekast er hægt með gömul skip. Sparaði hann hvorki til þess fé né
eftirlit. Ef skipið hefur farist vegna þess, að það hafi verið gamalt og
slitið, þá vofir sama hættan yfir flestum öðrum skipum íslenzka togaraflotans,
jafnvel í enn ríkara mæli, en hún vofði yfir þessu skipi.
Hefur skipið farist vegna ofhleðslu? Það er kunnugt, að togararnir allir með
tölu hafa undanfarin 2-3 ár flutt nærri tvöfalt meira fiskmagn til Englands í
hverri ferð, en talið var fullfermi fyrir ófriðinn. Þessari aukningu farmsins
hefur verið náð með því, að nær allur fiskurinn er nú hausaður, fiskurinn minna
ísaður, hillum fækkað og fisklest stækkuð með því að minnka kolabox. En
fiskfarmur kemur þá að nokkru leyti, í stað kolaforða í skipinu, sem er miklu
minni en áður. Að þessum breytingum hefur stuðlað, áhugi útgerðarmanna og
sjómanna til þess að nota þetta einstæða og síðasta tækifæri þessara gömlu
skipa til þess að búa í haginn fyrir sig og sína í framtíðinni, og jöfnum höndum
ásælni hins opinbera eftir fjármunum útgerðarinnar. Síðastliðið ár mun ríkið
hafa tekið í skatta af þessum gömlu fleytum um 15 milljónir króna. Er þá ótalin
sú gífurlega upphæð, sem sjómenn og starfsmenn fyrirtækjanna greiða í skatt til
ríkisins af tekjum sínum. Hjá sumum útgerðarfyrirtækjum hafa skattgreiðslur
útgerðarinnar einnar, numið hærri upphæð, en allt kaup skipshafnarinnar, að
áhættuþóknuninni meðtalinni. Hér hafa verið gerðar svo miklar kröfur og lagðar
á svo þungar byrgðar, að engan þarf að furða, þótt hin gömlu skip kynnu að
slygast undan þeim. Þetta sérstaka skip Max Pemberton sigldi 12 ferðir til
Englands s. l. ár og var stærð fisklestar allan þann tíma sú sama, sem hún var
í þessari ferð. Frá því sem hún var s. I, ár bendir ekkert til, að um aukna
hættu hafi verið að ræða í þessari ferð, af völdum ofhleðslu. Höfum við gert það,
sem okkur ber að gera ? Það verða allir að taka höndum saman um það að minka
þær kröfur, sem gerðar eru til afla-afkasta hinna gömlu togara.
Haustið og skammdegið stunda togararnir yfirleitt veiðar á Halamiðum þ. e.
djúpt út af Ísafjarðardjúpi. Síðustu daga hverrar veiðiferðar og á heimleiðinni
eru skipin orðin mjög framhlaðin. Sigling af Halamiðum til Reykjavíkur og
Hafnarfjarðar er eflaust hættulegri af völdum veðurs og sjóa, en siglingin til
Englands er af þessum sökum, því að áður en skipin Ieggja af stað úr heimahöfn
áleiðis til Englands er lýsið og veiðarfærin látin í land og tekin kol til
útsiglingar. Liggur þá skipið jafnara og er þess vegna betra í sjó að leggja.
Það kemur til álita, hvort ekki eigi til aukins öryggis að setja lagafyrirmæli
um það, að togarar, sem vetrarmánuðina stunda veiðar fyrir norðan Látrabjarg
skuli leggja lýsi og vörpur í land á Vestfjörðum og að um skipin skuli gilda að
öðru Ieyti, sömu reglur er þau leggja af stað frá Vestfjörðum, og gilda er þau
fara úr heimahöfn í Englandsferð. Mann hnykkir við, þegar maður hugsar til
þess, að meðalaldur togaranna er 26 ár. Í ófriðnum hafa skipin farist hvert af
öðru: Bragi, Reykjaborg, Gullfoss, Sviði, Jón Ólafsson, Garðar og Max
Pemberton. Sömu afdrif vofa daglega yfir öllum togaraflotanum. Sú spurning
vaknar: "Á ekki að tryggja það, að fórnir þessa tíma skapi ný, storri, betri og
öruggari skip þeirri stétt, sem fórnirnar færir og þjóðin á lífsafkomu sína
undir?" Þetta verður ekki gert, nema að Alþingi gjörbreyti um stefnu.
Alþingi verður að leyfa það, að ekki minna en helmingur af hagnaði
útgerðarinnar gangi til þess að byggja fullkomin nýtízku skip, strax og
aðstæður leyfa.
Sjómannablaðið Víkingur. 1-2 tbl. 1 janúar 1944.