B. v. Gerpir NK 106. TFEC."/>

29.05.2021 07:31

B. v. Gerpir NK 106. TFEC.

Togarinn Gerpir NK 106 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1956 fyrir Bæjarútgerð Neskaupstaðar hf. 804 brl. 1.470 ha. M.A.N vél. 59,60 x 9,81 x 4,46 m. Samið var um smíði Gerpis vorið 1955, stuttu eftir að Nýsköpunartogarinn Egill rauði hafði farist undir Grænuhlíð í janúar þá um veturinn. Gerpir var fyrsti togarinn sem smíðaður var í Þýskalandi fyrir íslendinga eftir seinni heimstyrjöld. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar hinn 16 janúar 1957. Seldur 12 júlí 1960, hf. Júpíter í Reykjavík ( Tryggva Ófeigssyni ), hét Júpíter RE 161. Var breytt í hringnótaveiðiskip árið 1977 og var þá í eigu Hrólfs Gunnarssonar útgerðarmanns í Reykjavík. Ný vél (1979) 2.640 ha. Wartsila vél, 1.942 Kw. Einnig var skipið yfirbyggt sama ár. Árið 1989, kaupa Einar Guðfinnsson hf í Bolungarvík og Lárus Grímsson í Garðabæ hluta í skipinu. Selt 15 júlí 1993, Júpíter hf í Bolungarvík, en var gert út af Útgerðarfélaginu Skálum hf á Þórshöfn. Selt árið 2000, Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. Selt árið 2005, Ísfélagi Vestmannaeyja hf, hét þá Suðurey VE 12. Frá árinu 2007 hét skipið Bjarnarey VE 21. Selt í brotajárn til Grenaa í Danmörku 3 apríl árið 2008.  Glæsilegt skip og mönnum sem voru þar skipverjar gegn um tíðina, ber saman um að Gerpir hafi verið afburða gott sjóskip.


B.v. Gerpir NK 106 að veiðum á Grænlandsmiðum.                         (C) Jón Ragnarsson.

 

                Gerpir NK 106

Hinum nýja togara Bæjarútgerðar Neskaupstaðar sem verið er að smíða í Þýzkalandi hefur nú verið valið nafnið Gerpir. Efndi togarakaupanefndin þar fyrir skömmu til samkeppni um nafn togarans og bárust tillögur um 17 nöfn. Niðurstaðan var sú að valið var nafn austasta fjalls landsins Gerpir eins og fyrr segir, en fimm menn höfðu lagt til að skipinu yrði gefið það nafn. Einkennisstafir Gerpis verða N.K. 106.

Þjóðviljinn. 4 ágúst 1956.


B.v. Gerpir NK 106 í smíðum hjá A/G Weser Werk Seebeck í Bremerhaven árið 1956.


          Komu Gerpis fagnað
Miðvikudagurinn 16. jan. 1957 er merkisdagur í sögu Neskaupstaðar. Þann dag, kl. 11, kom togarinn Gerpir nýsmíðaður frá Þýzkalandi hingað inn á fjörðinn. Þar með er heilu í höfn komið því stórmáli, sem Norðfirðingar hafa barist fyrir í nærfelt tvö ár.
Skipið lagðist að innri bæjarbryggjunni um kl. 1 og var þar saman kominn fjöldi fólks til að fagna skipskomunni. Á meðan skipið var að leggjast að lék Lúðrasveit Neskaupstaðar undir stjórn Haralds Guðmundssonar. Þegar skipið hafði verið bundið, flutti Bjarni Þórðarson, bæjarstjóri, ávarp, bauð skipið velkomið og sömuleiðis skipstjóra og skipshöfn og trúnaðarmenn bæjarstjórnar og togarakaupanefndar. Rakti hann í örfáum orðum aðdraganda þess, að hafizt var handa um smíði skipsins, minntist á þýðingu þess fyrir bæjarfélagið, einkum nú, eftir þann skipsskaða, sem orðinn er. Að lokum mælti bæjarstjóri: "Það er full ástæða fyrir okkur Norðfirðinga, sem sameiginlega eigum þetta skip, og sem sameiginlega eigum að njóta ávaxtanna af útgerð þess, að óska sjálfum okkur og hver öðrum til hamingju með hingaðkomu þess. En sérstaklega vil ég óska skipstjóranum, Magnúsi Gíslasyni, til hamingju með það glæsta fley, sem hann hefur nú fengið til stjórnar. Við óskum honum og skipshöfn hans allra heilla í þeirra mikilvæga og þjóðnýta, en jafnframt erfiða og hættulega starfi. Megi störf ykkar blessast og ykkur auðnazt að sigla jafnan heilu fleyi í höfn með góðan feng. Megi gæfan fylgja togaranum Gerpi, skipstjóra hans og áhöfn allri".
Mannfjöldinn tók undir árnaðaróskir bæjarstjóra með kröftugu, ferföldu húrrahrópi.
Aðrir ræðumenn voru Jón S. Sigurðsson, framkvæmdastjóri, Magnús Gíslason, skipstjóri, Axel Tulinius, bæjarfógeti, Ármann Eiríksson, útgerðarmaður og Oddur A. Sigurjónsson, skólastjóri. Samkór Neskaupstaðar söng undir stjórn Magnúsar Guðmundssonar og lúðrasveitin lék. Skipstjóri bauð almenningi að skoða skipið að móttökuathöfn lokinni og þáði mikill fjöldi manna það.  Eins og áður er sagt, er Magnús Gíslason skipstjóri hins nýja skips, fyrsti stýrimaður verður Birgir Sigurðsson, en vegna forfalla hans hafði Hilmar Tómasson það starf á hendi á heimsiglingu, fyrsti vélstjóri er Hjörtur Kristjánsson, en Magnús Hermannsson er annar vélstjóri. Loftskeytamaður er Ragnar Sigurðsson. Þó fögnuður manna yfir komu skipsins væri mikill, hvíldi þó myrkur skuggi harms og sorgar yfir athöfninni vegna Goðanesslyssins og dauða hins unga skipstjóra og minntust flestir ræðumenn þess atburðar. Það er að bera í bakkafullan lækinn að lýsa hinu nýja skipi og skal því sleppt. En þess má geta að ýmsar nýungar eru í skipinu og allt virðist þar vel unnið og ekkert til sparað að gera það sem bezt úr garði og sem vistlegast fyrir áhöfnina. Austurland óskar bæjarbúum til hamingju með þetta nýja skip og tekur undir árnaðaróskir þær, er bæjarstjóri flutti skipstjóra og skipshöfn við komu skipsins.

 

Austurland. 18 janúar 1957.


B.v. Gerpir NK 106 leggst við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað hinn 16 janúar árið 1957. Mikill fjöldi bæjarbúa fögnuðu komu þessa glæsilega skips.         (C) Sigurjón Kristjánsson.
 

         Fyrsti nýsköpunartogarinn
                  heilsaði Gerpi

 

Neskaupstað í gær.
Þegar Gerpir, nýi togarinn í Neskaupstað, kom í gær til heimahafnar sinnar, var þar staddur togarinn Ingólfur Arnarson, en hann er eins og mönnum er kunnugt, fyrsti nýsköpunartogarinn, sem til landsins kom. Það vakti óskipta athygli og ánægju Norðfirðinga, að þar mættust yngsti og elzti nýsköpunartogarinn og heilsuðust að skipa sið.

Alþýðublaðið. 17 janúar 1957.


B.v. Gerpir NK 106 í Reykjavíkurhöfn nýkominn úr slipp vegna eftirlits hinn 31 mars árið 1957. Sannarlega glæsilegt skip.      (C) Björn Björnsson.
 

         Gerpir á Grænlandsmið

Afráðið hefur verið að Gerpir fari til Grænlands að aflokinni yfirstandandi veiðiferð, og fiskar að sjálfsögðu í salt. Ráðgert er, að sá afli verði seldur í Danmörku, enda þarf skipið að koma til Bremerhaven til eftirlits sem næst 10. júlí. Ef ráðlegt þykir mun skipið fara annan saltfisktúr og þá í Hvítahaf með heimalöndun fyrir augum. Gerpir mun þurfa að fara til Færeyja áður en Grænlandsferðin hefst.

Austurland. 26 apríl 1957.


B.v. Gerpir NK 106 við bryggju í Neskaupstað.                             (C) Sigurður Guðmundsson.


Landað úr Gerpi í Neskaupstað.                                               (C) Sigurður Guðmundsson.

 

   Gerpir á leið heim með fullfermi

Neskaupstað í gær.
Togarinn Gerpir er á leið heim með fullfermi af karfa frá Nýfundnalandsmiðum. Mun hann vera með í  kringum 350 tonn. Landar hann bæði á Seyðisfirði og í Neskaupstað samkvæmt samkomulagi, er gert hefur verið um löndun beggja togaranna, Gerpis og Brimness á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Bátakjarasamningar hafa verið samþykktir hér. Á fiskverðssamninga var ekki minnzt, en það þýðir, að verkalýðs- og sjómannafélagið hér sættir sig við fiskverðssamkomulag það er samninganefndir náðu.

Alþýðublaðið. 18 janúar 1959.


B.v. Gerpir NK 106 á Sundunum við Reykjavík í mars 1957.                   (C) Björn Björnsson.

                B.v.  Gerpir  NK  106

Þann 12. janúar árið 1957 fékk Bæjarútgerð Neskaupstaðar afhentan nýjan togara í skipasmíðastöðinni A. G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi. Skipið fékk nafnið Gerpir og kom það til heimahafnar í Neskaupstað fjórum dögum síðar, þann 16. janúar. Nýr og glæsilegur togari, búinn bestu tækni þessa tíma, var sannarlega tilefni til fagnaðar í útgerðarbænum Neskaupstað og þangað voru komnir alþingismenn á borð við Eystein Jónsson, Hannibal Valdimarsson og Lúðvík Jósepsson til að vera viðstaddir skipakomuna. En skugga bar á því réttum hálfum mánuði áður strandaði annar togari bæjarútgerðarinnar, Goðanes, í mynni Skálafjarðar í Færeyjum og þar fórst skipstjórinn, Pétur Hafstein Sigurðsson. Þetta var mikið áfall fyrir Norðfjörð og bættist við annað áfall tveimur árum áður þegar togarinn Egill rauði fórst í strandi við Grænuhlíð en þar fórust fimm af skipverjunum. Það ríkti því bæði gleði og sorg þessa janúardaga á Norðfirði. Öllum var ljóst að Gerpir var mikið skip á íslenskan mælikvarða þessara ára. Þetta var fyrsti togarinn sem smíðaður var í Þýskalandi eftir heimsstyrjöldina síðari en Þjóðverjar og Bretar þóttu standa fremstir skipasmiða í heiminum. Allar frumteikningar og verklýsingar af skipinu voru gerðar af Skipa og vélaeftirliti Gísla Jónssonar í Reykjavík en Gerpir var að vélbúnaði og hvað fyrirkomulag varðaði mjög svipaður og togararnir Þorkell Máni og Gylfi sem byggðir voru í Englandi fimm árum áður.
Hinn nýi og glæsilegi togari Norðfirðinga m/s Gerpir kom til Neskaupstaðar 16. jan. sl. Smíði hans var ákveðin nokkrum dögum eftir að b/v Egill rauði fórst í janúar 1955. Að forgöngu Lúðvíks Jósepssonar núverandi sjávarútvegsmálaráðherra sameinuðust allir stjórnmálaflokkar S.-Múlasýslu um þetta mikla átak í atvinnumálum staðarins, og voru í byggingarstjórn hins nýja togara valdir þeir Lúðvík Jósepsson frá Sósíalistaflokknum, Axel Tuliníusson frá Sjálfstæðisflokknum, Ármann Eiríksson frá Framsóknarflokknum og Oddur A. Sigurjónsson frá Alþýðuflokknum. Fulltrúar byggingarstjórnar fóru skömmu síðar til Þýzkalands ásamt Gísla Jónssyni forstj. og Erlingi Þorkelssyni vélfræðingi, en þeir voru ráðunautar Norðfirðinga um togarakaupin.


B.v. Gerpir NK 106 í smíðum í Bremerhaven.

1 maí 1955 var samningur um smíði togarans undirritaður hjá hinni heimsþekktu togarabyggingarstöð A. G. Weser/werk, Seebeck, Bremerhaven, Botnvörpuskipið Gerpir, NK 106, er stærsta og fullkomnasta skip íslenzka fiskveiðiflotans og í tölu fullkomnustu togveiðiskipa, sem byggð hafa verið. Ýmsar nýjungar eru í skipinu, sem ekki eru í öðrum fiskiskipum og íbúðir skipverja rúmbetri og vandaðri en áður hefur sézt í fiskiskipum. Gerpir er 804 rúmlestir að stærð. Skipið er 185 fet á lengd, 32 fet á breidd og 17 feta djúpt. Í skipinu eru hvílur fyrir 42 menn. Íbúðir fyrir 26 eru frammí. Eru þar aðallega tveggja og þriggja manna herbergi og tvö sex manna, sem notuð verða, þegar skipið er á veiðum í salt. Þar er ennfremur sérstakt þurrkherbergi fyrir sjóklæði og þvott skipverja, snyrtiherbergi með nokkrum handlaugum, speglum og litlum baðkerum fyrir fótaþvott, en slíkt er mikilvægt fyrir menn, sem mikið eru í þungum gúmmístígvélum við störf. Í þessum hluta skipsins er einnig setustofa, þar sem menn geta setið við spil, lestur, eða hlustað á útvarp. Allar eru íbúðir skipverja vistlegar og klæddar Ijósum við. Aflvél skipsins er dieselvél af M.A.N. gerð.

Orka hennar er 1470 hestöfl með 275 snúninga á mínútu. Rafmagn skipsins er framleitt með þremur þýzkum dieselvélum, tvær eru 126 hestöfl, en ein 60 hestöfl. Rafalar eru 80 og 60 kílóvött. Togvinda er rafknúin af 275 hestafla mótor, sem knúinn er 220 kílóvatta rafli, sem tengdur er aðalvél. Á stjórnpalli eru fullkomin siglingatæki. Þar er fullkomin ensk ratsjá, fisksjá, miðunarstöð og svo gyro-áttaviti og sjálfstýring, sem ekki mun vera til í öðrum íslenzkum fiskiskipum. Símakerfi er um allt skipið. Fiskilest skipsins er 19 þúsund rúmfet að stærð. Fremst er 40 rúmmetra geymsla fyrir góðfisk. Er sú lest útbúin þannig í sambandi við frystitæki, að í henni má hafa 24 stiga frost. En í öllum hinum lestunum er einnig kæliútbúnaður undir þilfarinu. Geymist fiskurinn mun betur í kældum lestum en ókældum, einkum að sumarlagi, þegar sigla þarf langar leiðir með afla. Frystiútbúnaður þessi er einfaldur í meðförum og hafa vélstjórar skipsins umsjón með tækjunum. Lestirnar eru innréttaðar svipað og algengt er í togurum. Skilrúm eru úr venjulegum lestarborðum en lestirnar sjálfar að nokkru klæddar alúmíníum, svo auðveldara sé að hirða þær og halda hreinum. Þilfarið er slétt stafna á milli, en ekki brotið, eins og algengast er á eldri togurum okkar, smíðuðum í Englandi. Hafa skipin frekast viljað brotna um samskeytin og er þetta byggingarlag talið sterkara. Þilfarinu hallar líka minna en á mörgum hinna eldri togara og skapar það þægilegri aðstöðu til vinnu á þilfari.
Mannhæðarhá skjólborð eru frá hvalbak aftur á móts við togvindu og hlífir það skipverjum fyrir ágjöf, þegar verið er við vinnu á þilfari.


B.v. Gerpir NK 106 sjósettur.


 Meðfram gangi er slá til að geyma á hin stóru og þungu vörpuflotholt, sem eru úr járni. Sitja þau þar kyrr, þótt veltingur sé á siglingu og brjóta þá ekki upp steypu við öldustökk í ganginum, eins og oft vill verða þegar flotholtin, eða "bobbingarnir", eins og það heitir um borð í togara, berjast laus í ganginum. Ein af mikilvægustu breytingunum sem á þessu skipi eru frá þeim eldri er innbyggður gangur í vélarreisn, sem nær frá stjórnpalli og aftur eftir skipinu, og þurfa því skipverjar sem fara milli borðsalsins eða skipverjaklefa afturí ekki að fara út á dekk eða út í ganginn, eins og á hinum eldri skipum. Gangur þessi er því, auk þess að vera til mikilla þæginda, stórkostelgur öryggisútbúnaður í skipinu, þar eð ferðir skipverja í göngunum hafa oft reynzt að vera hinar hættulegustu. Gangur þessi er að allra sjómanna dómi stórkostleg framför frá því sem verið hefur. Eins og áður segir er skipið búið gíróáttavita með sjálfstýrisútbúnaði og ér eini íslenzki togarinn sem búinn er þeim tækjum. Tæki þessi eru til mikilla bóta og talið er að þau geti m. a. í langsiglingum sparað allmikið í olíukostnaði. Þá er í skipinu símakerfi með 8 línum, og sérstakt símatæki frammi í skipinu og annað aftur í borðsal, auk síma hjá helztu yfirmönnum skipsins. Í eldhúsi er rafmagnseldavél og rafmagnspottur, en horfið frá gömlu olíukyndingarvélinni sem er í eldri togurunum.
Skipið er búið tveim alúmíníum björgunarbátum, sem komið er fyrir á þann hátt að miklu auðveldara á að vera að koma bátunum í sjóinn en verið hefur á eldri skipum. Þá er skipið búið gúmbjörgunarbátum. Ýmsar fleiri breytingar hafa verið gerðar á þessu skipi frá því sem var á eldri togurunum, má m. a. nefna það að togrúllur eru útbúnar með kúlulegum í stað hinnar einföldu fóðringaraðferðar sem verið hefur. Það er einróma álit þeirra sem skoðað hafa togarann að allur frágangur á smíði skipsins sé hinn bezti og meira í hann lagt en áður hefur þekkzt hér á íslensku togurum. Leynir það sér ekki að þýzka skipasmíðastöðin, er mikinn áhuga hafði á því að fá að byggja togara fyrir Íslendinga, hefur lagt sig fram um að gera verkið sem bezt úr garði, og sýna þar með Íslendingum handbragð sitt og að Þjóðverjar smíði ekki lakari skip en Englendingar.


B.v. Gerpir NK 106 með trollið á síðunni.                                           Ljósmyndari óþekktur.

Strax í upphafi skipakaupanna var skipaeftirlit Gísla Jónssonar og Erlings Þorkelssonar ráðið til að hafa eftirlit með smíði skipsins og vera Norðfirðingum til ráðuneytis um allt er skipakaupin varðaði. Eins og áður er sagt fóru þeir Gísli Jónsson og Erlingur Þorkelsson út til Þýzkalands og sömdu þar með Norðfirðingum um smíði skipsins. Það eru orð þeirra Norðfirðinga að þeir Gísli og Erlingur hafi staðið með miklum ágætum í sínu starfi og gætt hagsmuna kaupenda á þann hátt sem bezt verður á kosið, enda er skipaeftirlit þeirra gjörkunnugt togarabyggingum af mikilli reynslu. Mun Erlingur Þorkelsson vera sá íslendingur, sem mesta kunnugleika hefur á vélum og útbúnaði íslenskra togara, enda var hann úti í Bretlandi sem eftirlitsmaður með smíðí nýsköpunartogaranna 32 á sínum tíma og síðar.

Í reynsluför reyndist ganghraði Gerpis 13,8 sjómílur. Á leiðinni heim reyndist hann hið bezta og er það álit skipstjóra og skipshafnar að hann sé hið bezta sjóskip. Á m/s Gerpi starfar vaskleg skipshöfn og vekur það sérstaka athygli, að skipstjóri og stýrimenn eru allir ungir menn innan við þrítugt. 
Magnús Gíslason skipstjóri er 29 ára, hann var áður skipstjóri á Goðanesinu, en lét af því starfi á sl. hausti. Hann er bróðir Bjarna, sem er skipstjóri á b/ v Austfirðingi. Eru þeir bræður Vestfirðingar úr Önundarfirði. Fyrsti stýrimaður er Birgir Sigurðsson frá Neskaupstað, 2. stýrimaður Guðmundur Jónsson, 1. vélstj. Hjörtur Kristjánsson, 2. vélstj. Magnús Hermannsson og bátsmaður, Herbert Benjamínsson, Neskaupstað og loftskeytamaður er Ragnar Sigurðsson, Neskaupstað. Í ársriti Der Deutschen Fischwirtschaft 1957 er mjög ýtarleg grein um m/s Gerpir og nákvæm lýsing af skipinu og segir þar m. a.: Vélar þær sem gerðar hafa verið kröfur um í þetta skip eru talsvert frábrugðnar því, sem þekkjast í þýzkum dieselvélarskipum. Þegar Íslendingar endurnýjuðu togaraflota sinn eftir styrjöldina létu þeir byggja í Englandi dieseltogara með nýju fyrirkomulagi, sem virðist hafa gefið þeim góða raun, þar sem þetta og annað skip, sem samið hefur verið um smíði á, eru með sama fyrirkomulagi. Munu þýzkir togaraeigendur veita þessu sérstaka athygli. Útbúnað þann er hér um ræðir létu þeir Gísli og Erlingur gera, sem áður var óþekkt, að taka orku til togvindu beint af aðalvél skipsins. Einnig tóku þeir upp þá nýbreytni á eimtogurunum, sem ekki hafði áður verið á fiskiskipum, að nota rafdælur í stað eimdælna, er sparar mjög olíu.

Sjómannablaðið Víkingur. 1 febrúar 1957. 


B.v. Júpíter RE 161 á veiðislóð.                                                           (C) Ásgrímur Ágústsson.

 

       Gerpir hlaut nafnið Júpiter

Júpíter er gamalt togaranafn, sem að vísu hefur ekki verið til um alllangt árabil. En nú er það aftur komið á einn af togurunum héðan frá Reykjavík. Á laugardaginn var, skírðu hinir nýju eigendur Gerpis frá Neskaupstað, Júpiter & Marz h.f. togarann upp og gáfu honum nafnið Júpiter RE 161, en það skipsnafn hefur jafnan verið eign þess félags. Júpiter liggur nú nýmálaður hátt og lágt, vestur við Ægisgarð, tilbúinn að hefja veiðar. Skipstjóri á Júpiter verður hinn þjóðkunni togaraskipstjóri Bjarni Ingimarsson, sem verið hefur með Neptúnus. Er þetta í annað sinn ,sem Bjarni fer með skipstjórn á togara, sem ber nafnið Júpiter. Hann var skipstjóri á gamla Júpiter, sem nú heitir Guðmundur Júní frá Flateyri. Þar næst varð hann skipstjóri á Neptúnusi. Er þetta þriðja skipið, sem Bjarni er skipstjóri á, í þau 20 ár, sem hann er nú búinn að vera við stjórnvölinn á togara. Í stuttu samtali við Mbl. í gær, kvaðst Bjarni vera ánægður með hið nýja skip. Þetta er fallegt skip, sagði hann. Haukur Sigurðsson er nú skipstjóri á Neptúnusi, en hann byrjaði sem háseti með Bjarna fyrir 10 árum. Neptúnus er væntanlegur af veiðum í dag.

Morgunblaðið. 19 júlí 1960.


 

Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 92
Flettingar í gær: 2672
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 973477
Samtals gestir: 69397
Tölur uppfærðar: 8.9.2024 05:22:52