07.06.2021 18:15
603. Ingólfur VE 216.
Mótorbáturinn Ingólfur VE 216 var smíðaður í Reykjavík árið
1915. Eik og fura. 12,93 brl. 20 ha. Skandia vél. 12,52 m. á lengd, 3,83 m. á
breidd og djúprista var 1,3 m. Hét fyrst Jökull RE 496. Fyrsti eigandi eða
eigendur eru óþekktir en hafa vafalaust gert bátinn út frá Reykjavík. Seldur um
árið 1917, Elíasi Þorsteinssyni, Ólafi J.A. Ólafssyni, Guðjóni M Einarssyni og Einari
G Sigurðssyni í Keflavík, hét þá Hafurbjörn GK 496. Seldur 1920, Guðjóni
Jónssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Ingólfur VE 216, en gekk oftast undir nafninu
Tanga Ingólfur. Árið 1922 er báturinn kominn í eigu Gunnars Ólafssonar & Co
í Vestmannaeyjum. Ný vél (1926) 22 ha. Tuxham vél. Seldur 1 október 1926,
Sigurði Ólafssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Seldur 12 maí 1960,
Bernharð Ólafssyni og Fannberg Jóhannssyni á Ólafsfirði, hét Ingólfur ÓF 37. Ný
vél (1963) 102 ha. Volvo Penta vél. Báturinn brann og sökk norður af Gjögri í
Eyjafirði 8 apríl árið 1965. Einn maður var um borð, Fannberg Jóhannsson
eigandi bátsins og var honum bjargað um borð í Guðmund Ólafsson ÓF 40 frá
Ólafsfirði.
Ingólfur VE 216 á leið til hafnar í Vestmannaeyjum. Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.
Bátur frá
Ólafsfirði brann og sökk
Laust eftir hádegið í dag kviknaði í mótorbátnum Ingólfi ÓF
37, þar sem hann var á handfæraveiðum skammt norður af Gjögri. Einn maður var á
bátnum og gat hann sent út neyðarkall í talstöðina. Komu þá tveir bátar á
staðinn, en þá hafði maðurinn farið í gúmmíbát, því eldurinn var svo magnaður,
að ekki varð ráðið við neitt. Bátarnir reyndu að draga Ingólf til lands, en
hann sökk skömmu síðar. Var hann þá allmikið brunninn . Talið er að eldurinn
hafi komið upp í vélarrúmi.
Ingólfur er gamall bátur, þilfarsbyggður og 11 lestir að stærð . Sem fyrr segir
var einn maður á bátnum, Fannberg Jóhannsson, og var hann eigandi bátsins.
Bátar þeir sem komu til björgunar voru Margrét Jónsdóttir frá Dalvík og
Guðmundur Ólafsson frá Ólafsfirði, sem reyndi að draga bátinn til lands.
Blíðskaparveður var er þetta skeði. Geta má þess að Fannberg hafði ráðið til
sín mann á bátinn, en hann þurfti í gær að bregða sér til Akureyrar og var það
orsök þess að Fannberg var einn á bátnum.
Morgunblaðið. 9 apríl 1965.