16.06.2021 21:25

Nokkur orð um lífið á íslenskum botnvörpungum.

Í greininni hér að neðan sem birtist í Verkamannablaðinu sumarið 1913, lýsir höfundur aðstæðum sjómanna á íslenskum botnvörpungum. Greinin var birt nafnlaus, en undir stóð "Eftir háseta". Þar lýsir hann miskunnarlausri vinnuhörku og miklum vökum svo sólarhringum saman. Einhverstaðar las ég að hásetar á togara fengu 7 klukkustunda svefn í átta daga túr. Þetta var auðvitað ekkert annað en skepnuskapur af hendi skipstjóra til skipverja sinna. Vinnuharkan var oft á tíðum svona á togurunum á þessum tíma þegar engin lög voru til um hvíldartíma sjómanna. Var þetta þrælsótti skipstjóranna við útgerðarmennina, en á þessum tíma þótti það virðingarstaða að vera háseti á togara, hvað þá að vera skipstjóri. Eitt er víst að þeir voru margir skipstjórarnir sem biðu eftir plássi á togara og þeir sem fyrir voru, voru uggandi um stöðu sína ef þeir fiskuðu ekki nógu mikið að útgerðarmaðurinn yrði ekki ánægður. Kannski var það svo sem fékk skipstjórann til að þræla skipverjum sínum áfram svo sólarhringum saman, einber þrælsótti. En margt breyttist með tilkomu vökulaganna svokölluðu sem samþykkt voru á Alþingi hinn 21 maí árið 1921, og tóku þau gildi 1 janúar 1922. Þar voru m.a. sjómönnum tryggð 6 klukkustunda lágmarkshvíld á sólarhring. Það var svo árið 1928 að sjómenn fengu átta tíma hvíld á sólarhring. Frá árinu 1955 hafa sjómenn haft tólf klukkustunda hvíla á sólarhring, en staðið hálfa frívakt ef vel aflaðist. Þannig hefur það verið síðan eftir því sem ég best veit.

Sjómaðurinn sem skrifaði þessa grein hét Vilhjálmur Vigfússon. Hann bjó að Bergþórugötu 57 í Reykjavík (1938). Hann var sjómaður á skútum allt til ársins 1912 er hann fór á togara. Þrotinn að kröftum hætti hann sjómennsku árið 1926. Hann tók mikinn þátt í baráttu sjómanna og verkafólks fyrir bættum kjörum sínum og var einn af þeim sem kom að stofnun Alþýðusambands Íslands árið 1916.


Íslenskir sjómenn við vinnu sína um borð í togara.                                         Ljósmyndari óþekktur.

    Nokkur orð um lífið á íslenskum
               botnvörpungum 

Mér hefir dottið í hug að skrifa nokkur orð um lífið á íslenzku botnvörpungunum, og skal ég strax taka það fram, að ég vil að þetta sé aðeins byrjun á því máli; ég er að vona, að fleiri raddir láti til sín heyra innan skamms, og ætti þá málið að skýrast, og er þá tilgangi mínum náð. Það er alment álitið hér í bæ, að þeir menn séu komnir í afarmikla sælu, sem eru svo lánsamir, að komast á »trollara«. »Þeir hafa nóga peningana! Það er óhætt að leggja á þá«, segir fólk. Þetta sannar líka niðurjöfnunarskrá Reykjavíkur 1913. Jæja! Þetta getur nú alt verið gott og blessað hvað peningana snertir. Eins og margir vita, er alment kaup á þessum skipum 70 kr. á mánuði, og lifur, (en á hana ætla ég að minnast seinna). Nú eru margir menn á hverju skipi, sem ekki fá að vera nema 4 mánuði (frá 1. marz-30. júni) og það er sá tími, sem alstaðar er næg atvinna, bæði á sjó og landi; svo er það líka erfiðasti tíminn á botnvörpungunum, svo að þessir menn eru alls ekki öfundsverðir. Þá eru hinir eftir, »þeir lukkulegu«, og þeir eru fæstir alt árið. Óvissar tekjur þessara manna eru lifrarpeningarnir. Þeir skiftast jafnt milli allra á skipinu nú orðið, nema vélamanna og kyndara. En nú hafa útgerðarmenn komið sér saman um, að við skyldum fá 10 kr. fyrir fatið af lifrinni þetta ár. Þetta er nokkurs konar einokun, sem nær yfir allan Faxaflóa. Þessu verðum við að sæta, þó annarsstaðar á landinu séu gefnar 16-18 kr. fyrir fatið.


Um borð í Íslenskum togara.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.

Það er með öðrum orðum: þeir eru búnir að taka af okkur næstum hálfa lifur. Hvernig fara menn að vinna fyrir kaupi sínu yfirleitt á þessum skipum? Ég fyrir mitt leyti skal reyna að svara því eftir beztu sannfæringu og reynzlu, þar sem ég hefi verið háseti. Svo geta aðrir komið með sínar athugasemdir á eftir. Þegar bærileg er tíð, er altaf verið að fiska, og eins og margir vita, eru engin vökuskifti á þessum skipum á fiskiríi, heldur standa allir í einu.
Ef lítið fiskast, geta menn oft haft nægan svefn, en þó alt í smáskömtum, t. d. oft ekki meira en 1 kl.st. í einu, og þykir það gott; en svo fer að fiskast meira og þá fer nú að versna í því; nú líður fyrsti sólarhringurinn og svo annar, að ekki fær maður að sofna, en á þriðja sólarhringnum eru menn oftast látnir sofna eitthvað lítið. Ég veit, að fólki úr landi myndi oft bregða í brún, að sjá þessa menn dragast áfram í fiskkösinni, eins og þeir væru dauðadrukknir, og undir eins og þeir setjast niður að borða, eru sumir steinsofnaðir með nefið ofan í diskinum sínum. Svona geta fullfrískir menn, á bezta aldri, orðið, þegar búið er að ofbjóða þeim með vökum og vinnu.
Nú er hætt að toga, og segir þá skipstjórinn, áður en hann fer niður að sofa: »Þið gerið svo að þessum fáu bröndum, piltar«. Þessar »fáu bröndur« eru þá oft c. 6-8 þúsund fiskar, og það endist mönnum, eins og þeir eru nú á sig komnir, vanalega 8-10 tíma, og veit enginn, nema sá, sem reynt hefir, hvað menn taka út í þessari síðustu skorpu; eru þá líka oft komnir 60-70 tímar frá því menn hafa sofnað eða hvílt sig. Nú fær maður að sofna, vanalega í 5-6 tíma, svo byrjar sama skorpan aftur, en þá er maður orðinn úthaldslaus og þolir ekki að vaka jafnlengi næst, af því hvíldin var ekki nógu löng, sem menn fengu fyrst.


Íslenskur sjómaður á togara á síldveiðum.                                       (C) Sigurjón Vigfússon.

Sumir skipstjórarnir eru nú farnir að sjá, að þeir hafa ekki nema helberan skaða af að láta menn vaka svona mikið, og eru það einkum þeir eldri og reyndari, en sumir eru enn þá svo blindir og hrokafullir, að þeir hvorki sjá þetta, né vitja sjá. Sér og útgerðinni til mikils tjóns láta þeir menn vaka þangað til þeir eru orðnir ónýtir til vinnu og dragast áfram með veikum mætti, af eintómri undirgefni og hlýðni, því þeir vita sem er: ef einhver gengur (að skipstjórans dómi) lakar fram en annar, þá má hann búast við að fá að »taka pokann sinn« og fara í land við fyrsta tækifæri; en þá er hræðslan við atvinnuleysi, þegar í Iand er komið, svo menn eru eins og á milli steins og sleggju; þeir kjósa heldur að láta pína sig og kvelja, heldur en að fara á vonarvöl.
Þetta vita líka skipstjórarnir. Þeir geta altaf fengið menn, hvernig sem þeir haga sér við þá, þegar út á sjóinn er komið. Margan langar til að reyna þessa vinnu og álíta hana sæmilega borgaða, en margur fær nóg af því strax á fyrsta ári og leggur það ekki upp oftar, og margur er rekinn í land eftir fyrsta túrinn. Þeir allra duglegustu og hraustusta halda það út nokkur ár. Kvillar eru algengir á »trollurunum« einkum ígerðir í höndum og úlliðum og er það mjög eðlilegt, þar sem menn eru dag eftir dag með heita og sloruga vetlinga á höndum og þess á milli í koltjöru (úr netunum); en verði menn handlama og geti ekki unnið, þá er vanalega álitið, að maðurinn geri sér það upp og mörg dæmi veit ég þess, að handlama menn hafa ekki þorað að ganga aftur á skipið til að fá sér að borða, af því þeir hafa búist við ónotaorðum úr skipstjóranum. Þetta er óheilbrigt. Það er í fylsta máta leiðinlegt að slíta sér út undir drep hjá þeim mönnum, sem aldrei láta hlýlegt orð af vörum sér hrjóta, heldur þvert á móti ónota- og fyrirlitningarorð, ef nokkuð er. Eg skal taka það fram, að hér eiga ekki allir »trollara«skipstjórar sammerkt, það eru margar heiðarlegar undantekningar; en samt eru hinir til og munu vanir »trollara«menn fljótt þekkja þá sundur. Heyrt hefi ég að sumir skipstjórar væru hættir að láta menn vaka lengur en 30-36 tíma í einu, og er það vel við unandi, fái menni að sofa nægilega á milli. En heppilegt væri að Alþingi ákvæði með lögum, hvað vinnutími mætti vera lengstur á íslenzkum botnvörpungum, og þess verður vonandi ekki langt að bíða.

Eftir háseta.

Verkamaðurinn. 12 júlí 1913.





Flettingar í dag: 176
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074554
Samtals gestir: 77498
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 14:36:33