04.07.2021 08:03
2. m. Kt. Geir RE 8. NKWC / LBJK.
Þilskipið Geir RE 8 var smíðaður hjá Furner & Leaver Co
í Grimsby í Englandi árið 1887 fyrir Alfred Tidman í New Cleethorpes í Grimsby.
Hét fyrst Thistle GY 116. Eik og álmur. 85 brl. 78,7 x 21,2 x 10,5 ft. Selt í
febrúar 1894, George Smith í Grimsby. Selt árið 1900, Islands-Handels &
Fiskeri-Kompani (IHF) í Kaupmannahöfn, hét þá Frida. Selt 17 september 1903,
Geir Zoega útgerðar og kaupmanni í Reykjavík, hét þá Geir RE 8. Skipið var selt
21 september 1908, Fiskiveiðahlutafélaginu Sjávarborg (Copeland & Berry, aðaleigendur
Edinborgarverslunar) í Reykjavík. Var Geir þá gerður um skeið út frá
Hafnarfirði. Skipið fórst að talið er á Selvogsbanka hinn 23 febrúar árið 1912
með allri áhöfn, 27 mönnum.
Engar heimildir eru til eða finnast um að IHF hafi gert
skipið út á meðan þeir áttu það. Þegar Geir fórst í febrúar árið 1912, var
jafnvel talið að hann hafi lent í árekstri við franska skútu á Selvogsbanka.
Það er varasamt að halda slíku fram þegar enginn er til frásagnar. Hinsvegar
var líka talað um að skipið hafi ekki verið haffært og var mikið skrifað um það
í blöðum eftir þetta átakanlega sjóslys.
Heimildir: Birgir Þórisson.
Trevor Hallifax.
Þilskipið Geir RE 8 á siglingu. Ljósmyndari óþekktur.
Nýtt þilskip
Kaupmaður Geir Zoéga í Reykjavík fékk 1. þ. m. kútter frá
Englandi, er hann kvað hafa keypt fyrir 12 þús. króna, og er sagt gott skip, 85
tons að stærð, og nefnist "Frída".
Þjóðviljinn ungi. 12 nóvember 1903.
Reykjavíkurhöfn árið 1900. (C) Frederick Howell.
Mannskaðamálið
Réttarrannsóknin
Fyrir réttinum mætti vitnið Otti Guðmundsson skipasmiður hér í bænum, 56 ára, skipaður skoðunarmaður fiskiskipa í Reykjavík. Var ámintur um sannsögli. Að gefnu tilefni skýrir vitnið frá því, að það og hinn skoðunarmaðurinn, Hannes Hafliðason fyrrv. skipstjóri hér, hafi í haust er leið eða snemma í vetur verið kvaddir af útgerð h/f Sjávarborgar eða manni frá henni að skoða skip þessa hlutafélags, kútter "Geir'', er þá stóð hér uppi í "Slippnum", til þess að segja álit sitt um þilfarið í skipinu, sérstaklega var það borið undir þá, hvort ekki nogði sú aðgerð á þilfarinu, að negld væru ofan á það borð. Skoðunarmennirnir athuguðu þilfarið, boruðu gegnum það á allmörgum stöðum, og komust að raun um, að það var orðið allt mikið slitið, nema máske rétt í miðjunni; upphaflega álítur vitnið, að þilfarið hafi verið 3 þumlungar á þykt, en það boraði sérstaklega þar, sem það virtist vera þynnst, sem var hingað og þangað í pollum, sérstaklega kringum hásetabyrgið og lyftinguna á einum 8-12 stöðum, og var þilfarið þar, sem það var þynnst rúmur þumlungur á þykt, eða svo sem 1 1/8 þumlungur. Meðalslit á þilfarinu, nema í miðjunni, eða frá fremri brún á lyftingu og fram að stórsiglu, hyggur vitnið að hafi verið um 1 ½ þumlung. Eftir þessu áleit vitnið og hinn skoðunarmaðurinn, að ekki vori nogileg aðgerð að þilfarinu, til þess að það geti talist nogilega traust, að negla borð ofan á þilfarið, þótt það gæti varið það sliti fyrst um sinn, og létu þeir því mann þann, Vigfus fyrrv. skipstjóra, sem var við skoðunina af hálfu nefnds hlutafélags, þegar á staðnum, að skoðuninni lokinni, vita það, að þeir ekki gotu gefið skipinu vottorð um, að það vori sjófært, nema nýtt þilfar væri sett í það. Ekki skoðuðu skoðunarmennirnir annað en þilfarið í skipinu. Samtímis vitninu og hinum skoðunarmanninum, skoðuðu þilfarið virðingarmenn þilskipaábyrgðarfélagsins við Faxaflóa, Þórður Narfason trésmiður og Daníel, vitnið veit ekki hvers son, vitnið veit ekki með vissu, að hvaða niðurstöðu þeir hafa komist, virðingarmennirnir.
Upplesið, viðurkennt.
Ingólfur. 22 október 1912.
Reykjavíkurhöfn árið 1917. (C) Magnús Ólafsson.
Mannskæðasta
sjóslys
þilskipaaldarinnar
Í febrúarmánuði á þessu ári voru liðin eitt hundrað ár frá
því að þilskipið Geir hvarf í hafið og allir skipverjarnir, 27 talsins, fórust.
Kútter Geir var smíðaður í Grimsby árið 1887 og seldur til Íslands um aldamótin
1900. Kaupandinn var Geir Zoëga kaupmaður og útgerðarmaður í Reykjavík. Geir
seldi kútterinn árið 1908 til Sjávarborgar hf. í Hafnarfirði. Sjávarborg var í
eigu þeirra Ágústs Flygenrings, kaupmanns í Hafnarfirði, Ásgeirs Sigurðssonar,
kaupmanns í Reykjavík (sem kenndur var við Edinborgarverslunina), og Gísla J.
Johnsen, kaupmanns og útgerðarmanns í Vestmannaeyjum. Kútter Geir, sem var eitt
stærsta og glæsilegasta þilskip Íslendinga á sínum tíma, 88 tonn, lagði úr höfn
í sína hinstu ferð frá Hafnarfirði þann 11. febrúar 1912. Þann 22. febrúar gerði
austan foráttuveður sem stóð fram á miðjan dag 23. febrúar og eftir það sást
ekki til skipsins. Í Vestmanneyjum mældist vindstyrkurinn 11 stig. Þegar skipið
skilaði sér ekki til hafnar í marsmánuði var það talið af. Á kútter Geir var 27
manna áhöfn, skipstjóri var Sigurður Þórðarson.
Slysið var eitt það mannskæðasta á þilskipaöldinni, 61 barn varð föðurlaust og
þar af voru 4 ófædd. Margir úr áhöfninni höfðu einnig, eins og þá var algengt,
fyrir öldruðum foreldrum að sjá . Allnokkur blaðaskrif urðu í kjölfar slyssins,
enda hafði skipið ekki fengið vottorð um sjóhæfni í Reykjvík. Það var flutt til
Hafnarfjarðar þar sem það fékk sjóhæfnivottorð frá umboðsmanni Ábyrgðarfélags
þilskipa við Faxaflóa. Gísli Sveinsson, alþingismaður og sendiherra, var einn þeirra
sem tjáði sig um slysið í riti. Hann skrifaði mjög harðorða grein í blaðið
Ingólf, 22. tölublað 4. júni 1912. Stjórnarráð Íslands lét framkvæma
lögreglurannsókn á slysinu bæði í Reykjvik og Hafnarfirði. Fyrir
lögregluréttinum í Reykjavík kom fram að sett hafði verið nýtt stefni og
stýrisleggur á skipið í slippnum í Reykjvík en ekki skipt um þilfar eins og
skoðunarmenn í Reykjavík höfðu krafist þar sem það var orðið mjög slitið.
Skipið var því sjósett í Reykjavík og farið með það til Hafnarfjarðar þar sem
dekkið var klætt og styrkt með bitum. Í kjölfarið fékk skipið skoðun og vottorð
um sjóhæfni. Stjórnarráð Íslands ákvað að hafast ekki meira að í málinu.
Flestir sjómennirnir sem fórust með kútter Geir voru búsettir í Hafnarfirði og
Gullbringu og Kjósasýslu. Þeir voru:
Halldór Jónsson, Njálsgötu 33 í Reykjavík
Böðvar Jónsson, Suðurgötu 3 í Hafnarfirði
Sigurður Jónasson, Ási í Gerðarhreppi
Jóhann Ólafur Guðmundsson, Arnarfirði
Þorvaldur Ásgeir Jóhannesson, Alviðru í Dýrafirði
Marteinn Guðlaugsson, Reykjavegi í Hafnarfirði
Jón Halldór Böðvarsson, Suðurgötu 3 í Hafnarfirði
Guttormur Einarsson, Kirkjuvegi 15 í Hafnarfirði
Ólafur Nikulásson, Merkurgötu 11 í Hafnarfirði
Ingvar Pétursson, Kirkjuvegi 14 í Hafnarfirði
Þórður Ingimundarsson, Tjörn í Vatnsleysustrandarhreppi
Kristján Einarsson, Austurhverfi 3 í Hafnarfirði
Ólafur Sigurðsson, Langholti í Flóa
Magnús Pétursson, Grettisgötu 28 í Reykjavík
Helgi Árnason, Eiði á Seltjarnarnesi
Jón Kristján Jónsson, Skógum í Arnarfirði
Guðmundur Árnson á Bíldudal
Guðjón Magnússon, Kirkjuvegi 4 í Hafnarfirði
Vilmundur Jónsson, Vesturhverfi 3 í Hafnarfirði
Guðjón Jónsson á Bíldudal
Magnús Sigurgeirsson, Hvassahrauni í Hafnarfirði
Sverrir Guðmundsson, Harðbala í Kjós
Jóhannes Jóhannesson Merkurgötu 9 í Hafnarfirði
Sólon Einarsson, Bergen í Hafnarfirði
Þorkell Guðmundsson, Miðsundi 3 í Hafnarfirði
Sigurður þórðarsson í Reykjavík
Afkomendur sjómannanna sem fórust með Geir eru nú um 2.000 talsins. Vegna þessa
sjóslyss og þeirra mannskaða er höfðu orðið á þessum vetri 1911-1912 var
stofnaður sjóður til styrktar börnum, ekkjum og foreldrum sjómanna sem fórust.
Sjóðurinn var nefndur Mannskaðasjóður. Í stjórn hans sátu: Páll Einarssson,
borgarstjóri Reykjavík, Magnús Jónsson, sýslumaður í Hafnarfirði, Jens Pálsson,
prófastur í Görðum, Ólafur Ólafsson, fríkirkjuprestur í Reykjavík, Ásgeir
Sigurðsson, kaupmaður í Reykjavík, Ágúst Flygering, kaupmaður í Hafnarfiði, og
Hannes Hafliðason, bæjarfulltrúi í Reykjavík. Efnt var til samskota um allt
land fyrir sjóðinn og gáfu nokkrir aðilar háar upphæðir t.d. útgerð kútters
Geirs og dönsku konungshjónin. Einnig stóð danska stórblaðið Pólitiken fyrir
söfnun í Danmörku.
Þann 25. febrúar síðastliðinn var haldin athöfn í Grensáskirkju í Reykjavík þar
sem sjómannanna sem fórust með kútter Geir var minnst. Nú stendur yfir
fjársöfnun til að standa straum af kostnaði við að setja nöfn skipverjanna á
stein í minningaröldum Sjómannadagsráðs við Fossvogskapellu og verður steinninn
afhjúpaður laugardaginn 2. júni kl 10.
Sjómannadagsblaðið. 3 júní 2012.