07.08.2021 20:41
B.v. Jón Þorláksson RE 204. TFOE.
Nýsköpunartogarinn Jón Þorláksson RE 204 var smíðaður hjá
Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1949 fyrir
Bæjarútgerð Reykjavíkur hf. 609 brl. 1.300 ha. Ruston díesel vél. 170 ft. á
lengd. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur, hinn 18 apríl sama ár. Jón
Þorláksson var systurskip Hallveigar Fróðadóttur RE 203 sem var fyrsti togarinn
með díesel vél sem kom hingað til lands um mánuði áður, og voru skipin smíðuð
eftir sömu teikningu að mestu leiti. Togarinn lagði upp í veiðiferð á miðin við
A-Grænland 21 ágúst árið 1954 með það fyrir augum að finna ný karfamið.
Afrakstur þessarar veiðiferðar var sá að hann landaði í Reykjavík 1 september,
tæplega 290 tonnum af karfa. Þessi gjöfulu fiskimið voru skírð í höfuð
togarans, hétu Jónsmið. Ekki leið á löngu að þessi nýfundnu og gjöfulu fiskimið
urðu að mestu uppurin sökum gengdarlegrar sóknar togaranna, að farið var að
leita nýrra miða og það á Nýfundnalandsmiðum. Á árinu 1957-58, fundust gjöful
karfamið á hinum svokallaða Ritubanka, en það er önnur saga. Togarinn var
seldur 24 október 1973, Sjótaki hf í Reykjavík, hét þá Bylgjan RE 145. Skipinu
var þá breytt til veiða með loðnuflottroll. Settir voru toggálgar aftur á
bátadekk og netavinda á skipið og einnig var komið fyrir vökvaspili á hvalbak
skipsins fyrir bómuhlaupara og færanlegri fiskidælu var komið fyrir á þilfari.
Var breytingunum á skipinu lokið um áramót og hélt það þá til loðnuveiða.
Togarinn sökk um 8 sjómílur suðaustur af Hjörleifshöfða að kvöldi, 14 febrúar
árið 1974. 1 maður fórst, hét hann Salómon Loftsson og var hann 2 vélstjóri á
skipinu, hann var fimmtugur að aldri. 11 skipverjar björguðust í
gúmmíbjörgunarbát og var bjargað þaðan um borð í togskipið Þórunni Sveinsdóttur
VE 401 frá Vestmannaeyjum sem fór með þá þegar inn til Vestmannaeyja.
Talið var að þær breytingar sem gerðar voru á skipinu hefðu raskað stöðugleika
þess og það að loðnufarmur skipsins hafi kastast til er það fékk á sig
slagsíðu, var talin orsöks þess hvernig fór og engin tök á að rétta skipið við.
B.v. Jón Þorláksson RE 204. Togarinn í reynslusiglingu. (C) Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd.
Jón
Þorláksson kominn
Díesel-togarinn Jón Þorláksson kom hingað til Reykjavíkur
annan páskadag. Er þetta annar diesel-togarinn, sem kemur hingað til lands.
Hann var tæpa fjóra sólarhringa á leiðinni frá Englandi. Skipstjóri er Einar
Thoroddsen. Jón Þorláksson fer bráðlega á veiðar.
Vísir. 20 apríl 1949.
B.v. Jón Þorláksson RE 204 sennilega í erlendri höfn. Ljósmyndari óþekktur.
Nýju
karfamiðin við Grænland reynast vel
21 skipsfarmi hefir þegar verið landað þaðan
Eins og kunnugt er fann togarinn "Jón Þorláksson" í
sumar ný karfamið við Grænland, sem áður hafa verið óþekkt. Mið þessi eru mun
nær Íslandi en þau, sem íslenzkir togarar hafa áður verið á og hafa verið nefnd
Jónsmið. Framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Reykjavikur, Jón Axel Pétursson ásamt
Hermanni Einarssyni, fiskifræðingi, sem var með í fyrstu rannsóknarför Jóns
Þorlákssonar á karfamiðunum, áttu fund með fréttamönnum í gær í þessu tilefni.
Þegar karfamið fóru þverrandi hér við land og togarar fóru að sækja í vaxandi
mæli á miðin við Vestur-Grænland, áttu framkvæmdastjórar Bæjarútgerðar
Reykjavíkur oftlega tal um það við skipstjóra, er hjá Bæjarútgerðinni starfa og
ýmsa aðra, að öll rök mæltu með því að fiskur og þá alveg sérstaklega karfi,
myndi vera á grunnunum við A-Grænland. Voru flestir sammála um að svo mundi
vera, en ýmsir töldu ís vera á þessu svæði mestan hluta ársins.
Á árinu 1952 Iét Veðurstofa Íslands, samkvæmt beiðni Bæjarútgerðarinnar, í té
ísfregnir á þessum slóðum og sýndi það sig að tiltölulega Iítill ís var á þessu
svæði í júlímánuði, nema stærri borgarísjakar nærri landi. Í júní 1953 lét
veðurstofan athuga á ný, og reyndist þá lítill ís þar. Var þá togarinn Ingólfur
Arnarson sendur til þess að gera tilraunir til veiða á þessum slóðum. Reyndi
Ingólfur á svipuðum slóðum og nú er verið að afla á og fékk um 5 tonn af karfa
í hali eftir 45 mín. tog. Karfi þessi var smár, aðeins 2/3 hirðandi. Nokkru seinna í sama mánuði fór
togarinn Hallveig Fróðadóttir á svipaðar slóðir. Kom þá í ljós að því nær sem
landi dró því minni karfa var að hafa og sums staðar ekkert. Í ár sýndi sig, að
tiltölulega lítill ís var meðfram allri ströndinni frá Angmagsalik og suður úr.
Í ágústmánuði var leitað eftir því við stjórn Fiskimálasjóðs, að látin væri í
té fjárhagslegur stuðningur við áframhaldandi leit við A-Grænland. Að fengnu
samþykki sjávarútvegsmálaráðherra, lofaði stjórn Fiskimálasjóðs fjárhagslegum
stuðningi, ef afli yrði svo lítill að ferð togarans svaraði ekki kostnaði.
Tilskilið var að fiskifræðingur yrði með skipinu og aðstoðaði við mælingar á
sjávarhita og gerði fleiri nauðsynlegar athuganir.
Var til þess fenginn dr. Hermann Einarsson. Togarinn Jón Þorláksson lagði upp í
þessa för þann 21. ágúst s. l. og kom í höfn 1. sept. með farm, er nam 284.780
kg. alls, þar af 283.780 kg. karfi, 110 kg. lúða og 980 kg. annar fiskur.
Samkv. umsögn fiskimatsmanns, er það sá bezti karfi, sem landað hefur verið frá
því á vertíð. Síðan hafa íslenzkir togarar veitt þar rúmlega 6600 smál. af
karfa, sem er um 21 skipsfarmur, og í gær landaði Jón Þorláksson í annað sinn
karfa af þessum miðum. Hermann Einarsson, fiskifræðingur, kvað þessi mið vera
um 28 stunda siglingu frá Malarrifi undir Snæfellsjökli. Eru það 340- 360
sjómílur, en áður þurftu togararnir að fara minnzt 1000 sjómílur á miðin, til
Vestur-Grænlands. Er komið var á þessi mið, sagði Hermann, taldi skipstjórinn,
Ólafur Kristjánsson, að þar mundi líklegt fyrir karfa. - Var fyrst reynt á
þessum stað, en síðan haldið suður á bóginn. Urðum við þá fyrir þungum straum,
svo óhægt var að gera rannsóknir. Fórum við þá norðar, en fengum minna. Reyndum
við síðan á um 60 mílna svæði hér og þar á tveimur sólarhringum. Fundum við
beztu skilyrðin á tilteknu svæði og var þar sett bauja. - Var það þar sem við
nefndum Jónsmið. Reyndum við síðan að kynnast þessum slóðum sem bezt og fundum
við ágætan botn þar sem enginn svampgróður var í botninum, en hann er mjög til
baga veiðunum.
á miðum þessum er hlýsævi, það sama og umlykur strendur Íslands, og kemur
þaðan. Á þessum slóðum halda sömu fisktegundir sig og hér við land. Fengum við
þarna karfa, kolmunna, þorsk, upsa hlýra, steinbít, blágómu, keilu, gulllax og
flyðru. Má segja að með rannsóknum þessum hafi Bæjarútgerð Reykjavíkur hrundið
af stað ákaflega nauðsynlegum hlut, sem ætti að halda áfram. Eitt er þó mjög
bagalegt fyrir íslenzku togarana, sem veiðar stunda á þessum slóðum, og er það,
að engin kort eru til, sem að gagni mega koma af þessum stað, þar sem engar
mælingar hafa farið fram þarna sem nökkru nemur. Er því ákaflega erfitt fyrir
skipstjóranna að átta sig þarna bæði hvað straumum og ís viðvíkur. Þó bera
skýrslur það með sér að ís hefur farið minnkandi ár hvert við Austur-Grænland
síðan árið 1946. Auk þessarra rannsókna gerði Hermann Einarsson einnig nokkrar
athuganir á dýralífi á þessum slóðum, meðal annars á fæðu karfans o. s. frv.
Síðan þessi mið voru fundin, hafa 18-20 íslenzkir togarar stundað veiðar þar
með góðum árangri og eins og fyrr segir eru komin á land þaðan 6600 smálestir
af karfa.
Morgunblaðið. 15 september 1954.
B.v. Jón Þorláksson RE 204 á Nýfundnalandsmiðum. Ljósmyndari óþekktur.
Stórfelldar
veiðitilraunir og síldarleit
Ný leit að karfamiðum
samtal við fiskimálastjóra
Aldrei í sögu fiskveiðanna hér á landi hefir verið lögð meiri áherzla á fiskileit og veiðitilraunir en gert er um þessar mundir. Í síðasta mánuði fór togarinn "Harðbakur" frá Akureyri til leita að karfamiðum við Norður- og Austurland og í fyrrinótt fór togarinn Jón Þorláksson í sömu erindum á svæðið undan austurströnd Grænlands. Loks lagði svo "Ægir" upp í fyrrinótt í leiðangur til Norðurlandsins til síldarleitar og veiðitilrauna. Davíð Ólafsson fiskimálastjóri skýrði frá þessu á blaðamannafundi í gær. Eru leiðangrar þessir kostaðir af atvinnumálaráðuneytinu og að nokkru leyti af fiskimálasjóði í samráði við atvinnumálaráðuneytið en við þá eru tengdar miklar vonir af öllum, sem við útgerð fást og sjóinn stunda.
Það er ekki enn liðið ár síðan hin fengsælu karfamið, Jónsmið, út af
Angmagsalik á austurströnd Grænlands fundust, er togarinn Jón Þorláksson var
þar að veiðum. Þá var mjög tekið að ganga á karfann hér við land. Nú er
togarinn Jón Þorláksson, skipstjóri Ólafur Kristjánsson, farinn á Grænlandsmið
á ný, til að leita nýrra karfamiða, sunnan Jónsmiða. - Með togaranum er hinn
nýbakaði doktor í fiskifræði, dr. Jakob Magnússon, en hann hefir helgað sig
karfarannsóknum. Kom hann hingað til lands með þýzka rannsóknarskipinu Anton
Dohrn á dögunum, en í þeim leiðangri fór skipið á slóðir sunnan Jónsmiða til
karfarannsókna og þar er hugmyndin að dr. Jakob Magnússon stundi rannsóknir nú.
Verður togarinn 11 daga í leiðangri þessum. Það er mjög aðkallandi fyrir
togaraflota okkar að finna ný karfamið, sem eru á nálægum slóðum og því getur
þessi leiðangur markað sömu tímamót í karfaveiðum íslendinga og Jónsmið í
fyrra. Hér við land hefur karfaaflinn farið minnkandi og tekið er að ganga á
Jónsmiðakarfann nú síðustu dagana, herma síðustu fregnir. En Jón Þorláksson mun
láta íslenzku togarana fylgjast með leitinni.
í fyrrinótt lét varð- og rannsóknarskipið Ægir úr höfn hér í Reykjavík. Var
skipið nú sem síldveiðiskip á leið á vertíð, svo sem líka er raunin. Hann var
með tvo nótabáta, herpinætur og síldardekk. Með skipinu er dr. Hermann
Einarsson, en skipherra er Þórarinn Björnsson og nótabassi skipsins verður
Ingvar Pálmason. Segja má, að hlutverk Ægis á síldarmiðunum verði tvíþætt. Með
hinu fullkomna tæki sínu, asdie-tækinu, munu Ægismenn veita skipunum aðstoð við
að leita að síld, sem ekki veður, en heldur sig á viðráðanlegu dýpi. Þá munu
verða gerðar veiðitilraunir. - Þær verða þannig framkvæmdar, að er síldartorfa
kemur fram á asdictækinu, siglir léttbátur frá Ægi og staðsetur torfuna
nákvæmlega með dýptarmæli, sem er í léttbátnum. Þegar því er lokið, koma
nótabátarnir og kasta á torfuna umhverfis bátinn. Nú eru nokkrir fiskibátanna
búnir léttbyggðum asdictækjum, en nokkra æfingu mun þurfa í þvi að notfæra sér
þau í sambandi við veiðarnar. Norðmenn hafa sem kunnugt er gert svipaðar
tilraunir og Ægir mun nú gera og gáfu þær athyglisverða raun. Ef síld verður
einhver á miðunum í sumar, er það von manna að Ægir verði síldveiðiflotanum til
ómetanlegs gagns, En ekki síður verður fróðlegt að fylgjast með hinum nýju
veiðitilraunum, því hver veit nema þær leiði til þess, að hægt verði að sækja
síldina á ný fjarlægari mið, þegar reynsla og æfing er fengin í því, að fá sem
mest og bezt not af asdictækinu.
Að lokum skýrði Davíð Ólafsson fiskimálastjóri frá því að karfamiðaleitin út af
Norður- og NA-landi hefði ekki borið árangur nú, en þeim tilraunum myndi verða
haldið áfram við hentugra skilyrði. Það var togarinn Harðbakur, skipstjóri
Sæmundur Auðunsson, sem var tekinn á leigu af atvinnumálaráðuneytinu til
þessarar rannsóknarferðar í júnímánuði síðastliðinn.
Morgunblaðið. 9 júlí 1955.
B.v. Jón Þorláksson RE 204 kominn með nýtt mastur eftir 12 ára klössun skipsins sumarið 1961.
Ljósmyndari óþekktur.
Jón
Þorláksson kominn með nýtt mastur
Í gær fór togari Bæjarútgerðarinnar, Jón Þorláksson, í
reynsluferð eftir að 12 ára klössun hafði farið fram á honum og gekk skipið
prýðilega. Auk þess sem skipið var tekið alveg í gegn til grunna, var gerð á
því sú breyting að gamla mastrið var tekið af því og sett grennri og léttari
stöng aftan á skorsteininn. Mun þetta eiga að gera skipið sjóhæfara. Vélsmiðjan
Héðinn annaðist verkið, sem hófst 30. nóv. sl., en gír í aðalvélina, sem sendur
var til Englands, olli nokkrum töfum, þar sem stóð á honum. Togarinn er nú að
fara á veiðar á heimamiðum. Togarinn Hallveig Fróðadóttir, eign
Bæjarútgerðarinnar, er nú að fara í samskonar klössun og Jón Þorláksson, og mun
Vélsmiðjan Héðinn einnig sjá um hana.
Morgunblaðið. 3 september 1961.
B.v. Bylgjan RE 145. Verið er að breyta togaranum til veiða á loðnu. (C) Vísir.
Gamall
togari fær nýtt hlutverk
Ef allt fer að óskum verða þeir félagar í Sjótaki hf. búnir
að koma sér upp 600 lesta loðnuskipi um næstu áramót og það fyrir sama verð og
17 tonna fiskibátur kostar nýr. Sjótak hf. keypti togarann Jón Þorláksson
nýlega af Bæjarútgerð Reykjavíkur fyrir 10 milljónir. Ætlunin er að breyta
togaranum síðan þannig að hann verði nokkurs konar skuttogari, og síðan á að
veiða loðnuna og kolmunna í flotvörpu og spærling í venjulega botnvörpu. "Við
horfum mjög björtum augum til kolmunnaveiðanna, en kolmunni er eins og allir
vita í miklu magni í sjónum við Ísland, " sagði Guðbjartur Einarsson
vélstjóri, aðaleigandi Sjótaks í viðtali við Vísi. "Eftir loðnuvertíðina er
ætlunin að halda á miðin við Skotland og Írland og veiða þar kolmunna. Norðmenn
hafa mikið rannsakað þessa fisktegund og ætla sér að nýta hana til
manneldis," sagði Guðbjartur ennfremur. Hann sagði okkur ennfremur, að
engin vandkvæði væru á því að veiða loðnuna í flotvörpu.
Á siðustu vertið hefðu til dæmis bæði Eldborgin og Úranus veitt loðnu, og
líklega yrðu um það bil 20 skip með flotvörpu á loðnu í vetur. Ýmsum finnst
vafalaust nokkuð vafasamt að leggja í mikinn kostnað við 25 ára gamalt skip
eins og Jón Þorláksson en honum hefur alla tíð verið haldið mjög vel við og mun
að sögn Guðbjarts Einarssonar vera í góðu ásigkomulagi. Áætlar hann að skipið
geti orðið tilbúið á veiðar fyrir um það bil 18 milljónir króna. Er því
auðsæilega til mikils að vinna, ef vel tekst til, því til dæmis má taka að þau
10 loðnuskip frá Noregi, sem rikisstjórnin veitti rikisábyrgð á nýlega, kosta
vafalaust ekki minna en hátt á annað hundrað milljónir króna. Eru þau þó ekki
mikið stærri en togarinn Jón Þorláksson.
Vísir. 27 október 1973.
Gúmmíbjörgunarbátar Bylgjunnar RE 145 um borð í Þórunni Sveinsdóttur VE 401 í Vestmannaeyjahöfn.
(C) Morgunblaðið.
Togarinn
Bylgjan sökk
Togarinn Bylgja frá Reykjavík, sem verið hefur á loðnuveiðum
að undanförnu, sökk skammt austur af Hjörleifshöfða í gærkvöldi. Þegar
Morgunblaðið fór í prentun var vitað að flestir skipverjar voru komnir úr
gúmbjörgunarbátum um borð í Þórunni Sveinsdóttur frá Vestmannaeyjum og var
Þórunn væntanleg til Eyja milli kl. 3 og 4 í nótt. Helga RE, Héðinn ÞH og
fleiri bátar voru þá komnir á staðinn þar sem Bylgjan fórst. Bylgjan var í eigu
útgerðarfyrirtækisins Sjótak, en áður hét togarinn Jón Þorláksson og var í eigu
Bæjarútgerðar Reykjavíkur til ársins 1973.
Bylgjan tilkynnti um vandræði í talstöðina kl. 20.15 í gærkvöldi og heyrði
Vestmannaeyjaradíó kallið. Bað Bylgjan þá um aðstoð og hafði Helga RE strax
samband við skipið og einnig Þórunn Sveinsdóttir og fleiri skip. Var þá komin
slagsíða á Bylgjuna. Togarinn, sem var 550 lestir að stærð var smíðaður í Goole
í Bretlandi árið 1948. Hann var með 450 tonn af loðnu um borð þegar hann sökk.
Helga hélt þegar til togarans, en hún var þá út af Skarðsfjöruvita, um tveggja
tíma stím að togaranum, sem var rétt út af Alviðruhömrum austur af
Hjörleifshöfða. Bátarnir voru síðan stanzlaust í sambandi við Bylgjuna þar til
síðast heyrðist frá henni kl. 21,35 er skipstjórinn tilkynnti að kominn væru 45
gráðu halli á skipið og þeir væru að fara í björgunarbátana. Þegar síðast
fréttist var vitað að flestir skipverja voru komnir um borð í Þórunni, en ekki
náðist talsamband við bátinn þar sem einn af sendum Vestmannaeyjaradíós er
bilaður. Skipverjarnir af Bylgjunni voru a.m.k. í tveimur gúmbjörgunarbátum. 6
vindstig af austnorðaustri voru á þessum slóðum í gærkvöldi, hægur sjór, en
gekk á með byljum. Tólf voru á skipinu.
Morgunblaðið. 15 febrúar 1974.
Skipverjarnir 11 sem björguðust af Bylgjunni komnir til Vestmannaeyja. (C) Morgunblaðið.
Einn fórst
með Bylgjunni
Enn maður, Salomon Loftsson vélstjóri, Hraunbæ 44,
drukknaði, er loðnutogarinn Bylgjan fórst út af Alviðruhömrum í fyrrakvöld.
Skipbrotsmennirnir fóru í þrjá gúmbjörgunarbáta, en ekki er vitað, hvernig stóð
á því, að Salomon komst ekki í björgunarbát. Mikill sjór var á þessum slóðum,
þegar slysið varð, en eftir að Bylgjan hafði hallað mjög á annað borðið í
tæplega eina og hálfa klukkustund, fór hún skyndilega á hliðina og sökk eins og
steinn í djúpið. Síðast sási til Salomons heitins um borð, er hann hafði komið
syni sínum, 22 ára gömlum, um borð í gúmbát, en sagðist sjálfur ætla að fara í
annan bát. Lík hans fannst síðan á reki í björgunarvesti og var það tekið um
borð í Helgu RE, sem flutti það til Vestmannaeyja.
Þórunn Sveinsdóttir frá Vestmannaeyjum bjargaði hinum skipverjunum 11 úr þremur
gúmgjörgunarbátum. Skipstjóri á Þórunni er Sigurjón Óskarsson. Í einum bátnum
var einn maður, öðrum þrír og sjö í þeim þriðja. Bylgjan var á leið til
Vopnafjarðar með 450 lestir af loðnu. Ekki er vitað, hvað olli skipskaðanum, en
talið er ólíklegt, að loðnan hafi kastazt til. Skipstjóri á Bylgjunni var
Sverrir Erlendsson. Skipverjar báðu Morgunblaðið fyrir kveðjur og þakkir til
skipverja þeirra báta, sem aðstoðuðu við björgunina. Sjópróf verða í málinu
næstu daga. Eigandi Bylgjunnar var Sjótak í Reykjavik. Salomon Loftsson var 59
ára gamall. Hann lætur eftir sig konu og 5 börn, yngst 4 ára.
Morgunblaðið. 16 febrúar 1974.