05.09.2021 11:36

B.v. Úranus RE 343 fær á sig brotsjó í Norðursjó.

Dagana 16 og 17 febrúar árið 1962 hafði norðaustan stormur og ofsaveður staðið yfir í Norðursjó og náði það langt norður í haf. Veðrið olli miklum usla við strendur Bretlands og gekk einnig yfir stóran hluta vestur Evrópu með miklu eignatjóni. Í Skotlandi náði vindhraðinn 190 km. klst. Mörg skip sem voru á Norðursjó fóru ekki varhluta af óveðri þessu og mörg þeirra lentu í miklum erfiðleikum og tjóni. Togarinn Úranus RE 343 sem var á heimleið úr söluferð til Cuxhaven í Þýskalandi, fékk á sig brotsjó þegar skipið var statt um 250 sjómílur suðaustur af Færeyjum.
Kom sjórinn á skipið aftanvert og olli miklum skemmdum. Bátadavíðurnar eyðilögðust og báðir björgunarbátarnir spónbrotnuðu. Sást hvorki tangur né tetur eftir af þeim þegar sjórinn var genginn yfir. Þá lagðist loftventill yfir kyndistöð togarans saman og reykháfur skipsins dældaðist mikið. Þá hreif sjórinn með sér tvo gúmmíbjörgunarbáta en eftir um borð voru tveir gúmbátar sem rúmuðu 12 menn hvor. Úranus gat haldið ferð sinni áfram eftir áfallið og komst til Færeyja þar sem gert var við mestu skemmdirnar sem urðu á skipinu, en því síðan siglt til Bretlands þar sem fullnaðarviðgerð fór fram og tók hún um mánaðartíma.
  

Heimildir: Dagblöð frá þessum tíma.
                Þrautgóðir á raunastund. XV. bindi.


B.v. Úranus RE 343 eftir áfallið í Norðursjó.                                         (C) Hafliði Óskarsson.

  Íslenskir togarar í óveðrinu í Norðursjó
  Brotsjór tók bátana og laskaði Úranus

Norðaustan stormur og óveður hefur geisað í Norðursjó, eins og skýrt befur verið frá í blaðinu og skip lent þar í miklum erfiðleikum. Nokkrir íslenzkir togarar hafa verið á ferðinni á þessum slóðum og þremur þeirra hlekkzt á. Úranus missti bátana í brotsjó og fleira brotnaði ofanþilja, stýrið á Júní skemmdist er það var á leið norsku skipi til hjálpar og smávægileg bilun varð hjá Skúla Magnússyni. Ekki er getið um í skeytum að neitt hafi orðið að mönnum og öll eru skipin á heimleið. Ekkert mun hafa orðið að öðrum togurum á þessum slóðum. Veðrið var í gær að ganga niður.
Kl. 6 á föstudagsmorgun fékk Úranus á sig brotsjó, er skipið var statt 250 sjómílur suðaustur af Færeyjum á heimleið. Í skeyti til útgerðarfélagsins, sem var 12 tíma að komast til viðtakanda, var sagt að Úranus hefði misst báða björgunarbátana, og tvo gúmmíbáta, allar bátauglur séu stórskemmdar og ónýtar, loftventill yfir kyndistöð gjörónýtur, reykháfur mikið doldaður, ein plata á vélarrist dælduð, en aðrar sýnilegar skemmdir ekki stórvægilegar. Útgerðarfélagið Júpiter h.f. sendi Úranusi fyrirspurn um það hvernig veður væri. Kom svar í fyrrinótt, þar sem sagði að veður færi batnandi og Úranus væri kominn á Færeyjabanka og virtist allt í lagi með ferð skipsins. Jafnframt lét Júpiter skipaskoðun rikisins vita um atburðinn svo og skoðunarstjóra Lloyds. Þess má geta að Úranus mun enn hafa tvo 12 manna gúmmíbáta um borð.
Hafnarfjarðartogarinn Júni var einnig á heimleið frá Þýzkalandi, kominn 1 ½ sólarhrings ferð út á Norðursjó. Var togarinn lagður af stað að aðstoðarskipi, sem var í nauðum statt, líklega björgunar- og veðurathugunarskipinu Eger, er það fekk á sig brotsjó og laskaðist stýrið. Kl. 1 í gær barst Bæjarútgerðinni í Hafnarfirði skeyti frá Júní, þar sem segir: Hér hefur verið NA-stormur. Vorum að aðstoða bát, sem var illa staddur, er við fengum á okkur brotsjó, sem laskaði dálítið stýrið. Erfitt að beygja á annað borðið. Erum á heimleið. Skúli Magnússon seldi í Þýzkalandi 14. febrúar og var einnig á heimleið, er óveðrið skall á. Hann tilkynnti Bæjarútgerðinni í Reykjavík að eftir veðrið þurfi skipið smávægilegar lagfæringar við og álíti réttara að fara inn til Aberdeen. Var Skúli á leið þangað í gærmorgun og allt í lagi um borð. Hafði útgerðarfélagið samband við Þórarin Olgeirsson sem sagði að veðrið væri að ganga niður.
Blaðið leitaði sér upplýsinga um aðra togara, sem vitað var um á leið milli Íslands og meginlandsins, og fékk eftirfarandi fréttir af þeim: Þorkell máni átti að selja eftir helgina í Þýskalandi, en mun tefjast vegna veðursins. Beið hann þess að veður lægði við Færeyjar. Jón Þorláksson er á leið heim og hafði leitað vars í Skotlandi. Hvalfellið er á leið út og höfðu borizt fregnir um að allt gengi eðlilega og einnig að allt væri í lagi hjá Frey, en þeir voru á leið til Þýzkalands, til að selja 19. Febrúar. Haukur og Norðlendingur áttu að selja 21. og munu ekki hafa verið komnir suður í óveðrið. Af farþegagkipum höfum við aðeins fengið fregnir af Reykjafossi á óveðurssvæðinu, en hann var á leið milli Kaupmannahafnar og Rotterdam. Ekkert varð að hjá honum.

Morgunblaðið. 20 febrúar 1962.


B.v. Úranus RE 343 á toginu.                                                 Úr safni Hafliða Óskarssonar.

           B.v. Úranus RE 343 TFUG

Nýsköpunartogarinn Úranus RE 343 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1949. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 725. Eigandi var Júpíter h/f í Reykjavík frá 2 apríl sama ár. Úranus kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 5 apríl árið 1949. Úranus RE 343 landaði síðast í Reykjavík 7. marz árið 1974 og fór til Spánar hinn 17. apríl sama ár með Marz RE 261 í togi þangað sem þeir voru seldir í brotajárn og var tekinn af skrá 20 maí árið 1974.

Ýmsar breytingar voru gerðar á teikningu togarans, s.s. settur á skipið pólkompás sem staðsettur var framan á brúnni, pokabómur festar upp undir salningu. Þær vísuðu þá lárétt út þegar pokinn var hífður út og náði lengra en venjulegar bómur sem vísuðu skáhallt upp og voru festar neðarlega á mastrið. Úranus var jafnframt fyrsti togarinn sem smíðaður var með hærri lunningar sem náðu aftur að svelgnum. Áður höfðu togarar Tryggva, Neptúnus og Marz fengið hækkaðar lunningar en þær náðu aðeins aftur fyrir vantinn.

Flettingar í dag: 326
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 276
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 1057972
Samtals gestir: 76542
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 17:27:57