21.09.2021 18:52
L.v. Sæfari SU 424. LBKT / TFCG.
Línuveiðarinn Sæfari SU 424 var
smíðaður í Moss í Noregi árið 1902. 94,83 brl. 115 ha. 2 þennslu gufuvél. 26,50
x 5,24 x 2,73 m. Hét áður Havdrot. Friðrik Steinsson & Co, (Friðrik
Steinsson skipstjóri og útgerðarmaður), Símon Jónasson á Eskifirði og Lúðvík
Guðmundsson athafnamaður á Fáskrúðsfirði kaupa skipið í Noregi haustið 1923. Þeir
gerðu skipið út á þorsk og síldveiðar. Einnig var það notað til vöruflutninga
milli Austfjarðahafna. Þegar efnahagskreppan mikla skall með öllum sínum þunga
á þjóðinni um og uppúr 1930, fór Friðrik Steinsson & Co í þrot eins og svo
margir aðrir. Skipið var selt 9 mars 1931, h/f Sæfara í Hafnarfirði, sama nafn
og númer. Skipið var selt 9 nóvember 1933, Sigurði Jónssyni og sonum hans í
Reykjavík, hét hjá þeim Sæfari RE 149. Selt 15 júní 1937, h/f Sæfara í
Reykjavík. Selt 15 febrúar 1938, Hlutafélaginu Sæfara á Seyðisfirði. Ný vél
(1944) 200 ha. Fairbanks Morse vél. Skipið virðist hafa verið eitthvað
endurbyggt sama ár, mælist þá 105 brl. 14 ágúst 1945 fær skipið nafnið Sæfari
SI 91, sömu eigendur. 5 maí 1946 er Guðrún E Ragnars eigandi skipsins, hét þá
Ragnar SI 91. Skipið sökk út af Rifstanga 28 júlí 1947. Áhöfnin, 18 menn, komst
í nótabátana og var bjargað þaðan um borð í Skjöld SI 82 frá Siglufirði.
Sæfari SU 424 á síldveiðum. Ljósmyndari óþekktur.
Óveður í
hafi
Friðrik Steinsson frá Eskifirði var á leið frá Noregi
áleiðis hingað til lands á nýkeyptu gufuskipi, er óveðrið skall á. Var hann
kominn á móts við Færeyjar, en tókst ekki að finna þær. Eftir mikla hrakninga
komst hann aftur til Noregs. Hafði hann mist áttavitann, og skipið var mjög
illa leikið, allt brotið ofan þilja, og mjög ísað.
Alþýðublaðið. 7 mars 1924.
Sæfari SU 424 á síldveiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Enn eitt
síldveiðiskip sekkur
Í fyrrinótt varð sjóslys fyrir Norðurlandi. Síldveiðiskipið
Ragnar frá Akureyri sökk með fullfermi síldar eða um 800 mál. Mannbjörg varð.
Þetta gerðist út af Melrakkasléttu. Veður var ekki sem best og mun skipið hafa
verið á leið til Siglufjarðar er það sökk. Um nánari tildrög slyssins var ekki
vitað seint í gærkvöldi, nema hvað sjór mun hafa komist í lestarklefa, og gerðu
skipsmenn árangurslausa tilraun til að bjarga skipinu. Áhöfninni, 18 mönnum,
var bjargað um borð í m.b. Skjöldur er var þarna skammt frá, og flutti hann
mennina til Raufarhafnar. Af skipum, er voru á ferð hjá slysstaðnum í gordag,
sáu skipverjar nót m. b. Ragnars, svo og mikið brak úr skipinu. M.s. Ragnar var
100 smálestir að stærð. Eigandi var Egill Ragnars, Akureyri, en skipið var í
leigu Barða Barðasonar og Gunnlaugs Guðjónssonar, á Siglufirði. Skipstjóri var
Kristinn Stefánsson, M.s. Ragnar er 4. skipið, sem ferst á þessari
síldarvertíð. Farist hafa Snerrir, Einar Þveræingur og Bris.
Morgunblaðið. 31 júlí 1947.