05.10.2021 13:43
B.v. Karlsefni RE 24. LCKH / TFKD.
Botnvörpungurinn Karlsefni RE 24 var smíðaður hjá Ferguson Bros Ltd í Port Glasgow í Skotlandi árið 1918. 323 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,30 x 7,22 x 3,90 m. Smíðanúmer 230. Hét fyrst John Dutton LO 514 og var í eigu breska flotans. Seldur í desember 1924, Firmanu Geir & Th Thorsteinsson í Reykjavík, og kom hann til landsins hinn 15 janúar árið 1925. Fær þá nafnið Karlsefni RE 24. 1 september árið 1941 er skráður eigandi Hlutafélagið Karlsefni í Reykjavík. Skipið var selt 18 október 1946, p/f. J. Dahl á Görðum í Vogi í Færeyjum, mun hafa heitið Karlsefni til 12 desember 1946 er p/f Garðar í Vogi varð eigandi togarans. Fékk hann þá nafnið Beinisvörð TG 785. Í febrúar 1956 varð það óhapp að þegar kynda átti upp gufuketil togarans fyrir veiðiferð, kom þá í ljós að ekkert vatn var á honum. Skemmdist ketillinn það mikið að ekki svaraði kostnaði að gera við hann. Togarinn var seldur í brotajárn til H.J. Hansen í Óðinsvé í Danmörku, 10 nóvember árið 1956 og var tekinn af færeysku (dönsku) skipaskránni 12 mars árið 1957.
John Dutton var smíðaður sem stjórnarskip (Admiralty trawler, Mersey class) H.M.T. John Dutton Additional no: 3739. John Dutton var eitt af þeim skipum sem breska stjórnin afhenti írska fríríkinu við stofnun þess árið 1923. Togarinn var aldrei í drift hjá þeim. Togarinn mun hafa verið kominn til Hull þegar Geir Thorsteinsson og félagar kaupa skipið.
Heimildir að hluta:
Birgir Þórisson.
Glottar úr trolarasögunni. Óli Olsen 2019.
B.v. Karlsefni RE 24 á toginu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
"Karlsefni" RE 24
Nýr togari, Karlsefni að nafni, kom hingað í morgun. Útgerðarfélagið Geir & Th. Thorsteinsson ásamt Gísla skipstjóra Oddssyni eiga skipið. Skipið er svipað að stærð og Grímur Kamban, 139 fet á lengd og 23,7 fet á breidd. Skipstjóri verður Guðmundur Sveinsson, sem áður hefir verið stýrimaður á Leifi heppna.
Vísir. 15 janúar 1925.
B.v. Karlsefni RE 24 í Reykjavíkurhöfn. (C) Magnús Ólafsson.
B.v. Karlsefni RE 24 við Höepfnersbryggju á Akureyri. Togarinn er þarna útbúinn á síldveiðar og mikill tunnustafli, og allt tilbúið að salta síldina þegar hún berst. (C) Ljósmyndari óþekktur.
Togarinn Beinisvörð TG 785 í slippnum í Þórshöfn í Færeyjum. Úr safni Óla Ólsen.
Fimm íslenskir togarar hafa nú
verið seldir til Færeyja
Togarinn "Karlsefni" hefur nú verið seldur til Færeyja. A/S J. Dahl, Vaag, keypti togarann. Þetta er 5. íslenzki togarinn, sem seldur er til Færeyja, en hinir togararnir eru, eins og kunnugt er: Kári, Þorfinnur, Rán og Geir. Ekki mun þó hafa verið gengið frá samningum um sölu hins síðast nefnda. Karlsefni var eign Geirs Thorsteinssonar og hafði hann átt hann síðan um áramótin 1924-1925. Skipið er 236 smál. að stærð, og smíðað árið 1918. Skipstjóri á Karlsefni var Halldór Ingimundarson.
Alþýðublaðið. 25 október 1946.