13.11.2021 22:02

Síldarsöltun á Siglufirði.

Þegar nafn Siglufjarðar kemur upp í huga fólks sem komið er vel yfir miðjan aldur, þá er bærinn samnefnari fyrir síld og síldarævintýri landsmanna sem hófst fyrir alvöru á öðrum áratug síðustu aldar. Talað var um "Klondike" Íslands, silfur hafsins og margt annað í svipuðum dúr. Nöfn manna eins og Ole Tynes, Sören Goos, Evangers bræður, Gustaf og Olaf,sem byggðu síldarbræðslu handan byggðar í Siglufirði, en sú verksmiðja sópaðist í sjó fram árið 1919 í snjóflóði, svo talað sé ekki um sjálfan Óskar Halldórsson (Íslandsbersa) sem er og var holdgerfingur síldaráranna hér á landi á fyrrihluta síðustu aldar. Halldór Laxness gerði honum "Íslandsbersa" góð skil í bók sinni Guðsgjafarþulu. Stuttu síðar komu Síldarverksmiðjur ríkisins til sögunnar. En nóg um það, myndin hér að neðan er tekin á síldarplani á Siglufirði, sennilega á 3 áratug síðustu aldar og sjá má síldarstúlkurnar salta í tunnur á bryggjunni og línuveiðari sem gerður hefur verið út á síld og annað síldarskip að landa afla sínum sem hefur eflaust farið að mestu leyti í tunnurnar.


Síldin söltuð af kappi á Siglufirði. Skipið við bryggjuhausinn er trúlega Grímsey GK 2, smíðað í Þýskalandi árið 1902. 208 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél sem var fyrst í eigu Þórðar Flygenring í Hafnarfirði. Hét svo nöfnunum, Huginn GK 17, Huginn MB 20 og síðast Huginn RE 83. Var að lokum selt til Skotlands til niðurrifs árið 1951. Gamalt póstkort í minni eigu.

Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31