10.04.2022 07:37
Reykjavíkurhöfn um 1950.
Þessi ljósmynd er tekin í Reykjavíkurhöfn árið 1948-49. Í forgrunni eru tveir bátar við bryggju. Báturinn nær bryggjunni er 511. Gyllir GK 310, smíðaður í Neskaupstað af Pétri Wigelund skipasmið árið 1931 fyrir Guðmund Sigfússon og fl. Hét þá Gyllir NK 49. 27 brl. 62 ha. Alpha vél. 14,57 x 4,33 x 2,01 m. Var í eigu Geirs hf. Í Keflavík á þessum tíma. Utan á honum er Freyja RE 23, smíðuð á Akureyri árið 1925 af Anton Jónssyni skipasmið og var hann sjálfur eigandi bátsins. Hét þá Freyr EA 412. 11 brl. 30 ha. Skandia vél. 11,87 x 3,49 x 1,41 m. Var á þessum árum í eigu Ögmundar Jóhannssonar og fl. Í Reykjavík. Lengst til hægri má sjá Alliancetogarann Kára RE 195, sem var einn af hinum svokölluðu „sáputogurum“, smíðaður hjá Deutsche Schiffs und Maschinenbau A.G. Weser í Bremen í Þýskalandi, en skipið klárað hjá A.G. Seebeck í Wesermünde (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1936. Hét fyrst Northern Gift LO 166 og var í eigu MacLane Ltd í London. 620 brl 1000 ha. 3 þennslu gufuvél. 57,15 x 8,73 x 4,27 m. Smíðanúmer 556. Togarinn var seldur úr landi í júlí árið 1950. Svo liggja nokkrir togarar við Faxagarðinn og flutningaskip á ytri höfninni. Þær eru fallegar skekturnar sem eru í forgrunni.
Reykjavíkurhöfn stuttu fyrir árið 1950. Ljósmyndari óþekktur. |