20.04.2022 11:40

870. Helgi Hávarðsson NS 366.

Vélbáturinn Helgi Hávarðsson NS 366 var smíðaður af Pétri Wigelund skipasmið í Njarðvík árið 1939 fyrir Sveinlaug Helgason útgerðarmann á Seyðisfirði. Eik og beyki. 27 brl. 50 ha. Wichmann vél. 15,38 x 4,43 x 1,88 m. Skipaskrárnúmer 870. Seldur 18 janúar 1947, Þormari hf. Á Seyðisfirði, sama nafn og númer. Seldur 1 febrúar 1951, Hornfirðingi hf. Á Höfn í Hornafirði, hét þá Helgi SF 50. Ný vél (1952) 150 ha. GM vél. Seldur 25 október 1955, Vigfúsi Jónssyni, Óðni hf. Og fl. Á Eyrarbakka, hét Helgi ÁR 10. Seldur 10 október 1961, Andrési Hannessyni í Vestmannaeyjum, hét þá Valur VE 279. Báturinn sökk 10 mars árið 1965 eftir að Gunnar SU 139 frá Reyðarfirði sigldi á hann í svarta þoku skammt norðaustur af Elliðaey. Áhöfn Vals, 4 menn, björguðust í gúmmíbát og var þeim síðan bjargað um borð í Gunnar SU sem fór með skipverjanna inn til Vestmannaeyja.
 

Helgi Hávarðsson NS 366 á siglingu á Norðfirði.            (C) Björn Björnsson.



         Bátur sekkur eftir árekstur

Um kl. 4 í gærdag sigldi vélskipið Gunnar SU-139 (250 tonn) frá Reyðarfirði á bátinn Val VE-279 (27 tonn) skammt norðaustur af Elliðaey með þeim afleiðingum, að hinn síðarnefndi sökk á fáeinum mínútum. Áhöfn Vals, 4 menn, komst yfir í Gunnar og enginn meiddist. Einn skipverja féll útbyrðis við áreksturinn, en náði í bjarghring, sem kastað var til hans og komst í gúmmíbátinn. Mjög slæmt skyggni var á þessum slóðum. Morgunblaðið átti í gærkvöldi samtal við Andrés Hannesson, skipstjóra og eiganda Vals, og fer hér á eftir frásögn hans:
„Við vorum að veiðum um 2 sjómilur norðaustur af Elliðaey, sagði Andrés. Hvasst hafði verið fyrr um daginn og við legið í vari við eyna, en lægt aftur. Ætluðum við að fara að reyna handfærin, vorum allir á dekkinu og létum reka, þegar við sáum allt í einu stóran bát stefna á okkur út úr súldinni og rigningunni. Ég hljóp þegar til, klifraði upp í stýrishúsið og setti vélina á fulla ferð aftur á bak, en það var um seinan. Stefni Gunnars gekk inn í bátinn framanverðan og tók hann þegar að sökkva. Strákarnir mínir tveir, Valur 20 ára og Hannes 18 ára, og Sigurgeir Örn Sigurgeirsson, kokkurinn, höfðu flýtt sér fremst fram í bátinn og haldið sér dauðahaldi í stag, er áreksturinn varð. Svo harður varð hann, að Sigurgeir kastaðist útbyrðis. Ég klifraði þegar upp á brúna, henti öðrum bjarghringnum til Vals, en kallaði Hannes til mín upp á stýrishúsið. Valur kom björgunarhringnum til Sigurgeirs og ég henti út gúmmíbátnum, sem hann náði fljótlega til. Hannes er ósyndur og lét ég hann því fá hinn hringinn. Síðan vörpuðum við okkur út í gúmmíbátinn og flýttum okkur að ýta frá. Örskömmu síðar sökk Valur. Tel ég, að u.þ.b. 7 mínútur hafi liðið frá árekstrinum og þar til ekkert sást framar af bátnum. Við komumst síðan heilir á húfi um borð í Gunnar. Ég var búinn að eiga Val í 3 ár og var hann mjög gott sjóskip, byggður í Njarðvíkum árið 1939.“
Skipstjórinn á Gunnari, Jónas Jónsson, sagði svo frá: „Þoka var og rigning. Ég var sjálfur við stýrið og sá ekki til Vals, fyrr en við áttum eftir svo sem 15 til 20 metra að honum. Sem betur fer var Gunnar á hægri ferð, en það var um seinan að forða árekstri, þótt ég setti þegar á fulla ferð aftur á bak.“ Sjóréttur hófst um kvöldverðarleytið í gær í Vestmannaeyjum og stóð fram eftir kvöldi.

Morgunblaðið. 11 mars 1965.

Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31