01.05.2022 15:43
B.v. Gylfi RE 235. LCGQ / TFUC.
Botnvörpungurinn Gylfi RE 235 var smíðaður hjá A/G Seebeck í Geestemunde (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915 fyrir h/f Defensor (Magnús Magnússon skipstjóri og fl.) í Reykjavík. 336 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 46,44 x 7,66 x 3,29 m. Smíðanúmer 357. Skipið var tekið í þjónustu þýska flotans við smíðalok árið 1915 og var ekki skilað til eigenda sinna fyrr en í júlímánuði árið 1919. Ný vél (1929) 720 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt í febrúar 1932, Ólafi Jóhannessyni & Co. h/f á Patreksfirði, hét Gylfi BA 77. 8 ágúst 1942 var skráður eigandi Hlutafélagið Gylfi á Patreksfirði. Seldur 30 janúar 1947, P/f Stjörnunni í Vestmanna í Færeyjum, fékk nafnið Gullfinnur VN 313. Togarinn var á veiðum við A-Grænland í marsmánuði árið 1960 er skrúfa hans skemmdist í ís og var honum þá lagt við stjóra út af Angmagsalik. Það var svo aðfaranótt 20 mars að mikill ís safnaðist að togaranum þar sem hann lá, varð þess valdandi að hann sökk. Áhöfn togarans var farin heim áður með togaranum Venusi VA 51 frá Sandavogi í Færeyjum. Togarinn var tekin af færeyskri skipaskrá 10 maí árið 1960.
Heimild frá Færeyjum:
Glottar úr trolarasögunni. Óli Ólsen 2019.
![]() |
B.v. Gylfi RE 235 á veiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. |
"Gylfi" Nýi botnvörpungurinn
Það var stórt skarð, er höggvið var í fiskiflotann íslenzka, er helmingur allra botnvörpuskipanna var seldur til útlanda, illu heilli. Munu allir, sem nokkurn skilning hafa á nauðsyn þess, að atvinnuvegir þjóðarinnar haldist í horfi og dafni, óska þess, að eigi verði þeirrar stundar langt að bíða, að skarðið það verði fyllt. Og því er það, að manni finnst góður gestur kominn að landi í hvert sinn sem nýr botnvörpungur íslenzkur kemur hingað. Síðan fór að hægjast um í heiminum og heljartök styrjaldarinnar að linast, hafa komið hingað þrír botnvörpungar. "Vínland'' kom fyrst, frá Hollandi. Þá kom hinn vandaði botnvörpungur "Egill Skallagrímsson", sem brezka flotastjórnin hafði haft í víking og kallað "Iceland,,.
Egill var smíðaður með nokkru öðru móti en aðrir botuvörpungar, og sniðinn eftir því sem eigendur hans álitu bezt henta hér við land. Hafa þeir áreiðanlega verið heppnir í vali sínu, því Egill reyndist hið ágætasta skip og fylgdu honum úr hlaði óskorin lofsyrði brezku flotastjórnarinnar, er hann var afhentur eigendunum. Þriðji botnvörpungurinn kom í nótt. Heitir hann "Gylfi" og er eign Magnúsar Magnússonar forstjóra o. fl. en skipstjórinn er Jóel Jónsson.
Langur hefir aðdragandinn orðið að því að fá skipið. Um smíði á því var samið í júnímánuði 1914 við skipasmíðastöð Schiebecks í Geestemunde. En svo kom ófriðurinn og tók stjórnin skipið þegar í sína þjónustu og hefir haldið því síðan. Þjóðverjar gáfu "Ými", »Víði" og "Rán" laus árið 1915 en »Gylfi" fékkst ekki. Er það senniega af því að hann var stærstur skipanna. Þýzka stjórnin hefir haft skipið í sinni þjónustu öll ófriðarárin en leigu hefir hún þó goldið eftir það. Fyrsta febrúar síðastliðinn fóru þeir, Magnús Magnússon og Jóel skipstjóri utan til að fá skipið. Hafa þeir verið í ferðinni rétt hálft ár. Jóel alltaf í Þýzkalandi en Magnús til skiftis í Þýzkalandi og Kaupmannahöfn og gekk eigi greiðlega að fá skipið afhent.
Um síðir fékkst þó viðurkenning þýzku stjórnarinnar fyrir því að skipið væri íslenzk eign og kol gátu þeir herjað út handa skipinu svo að það kæmist til Esbjerg. Kostaði það miklar málalengingar og fyrirhöfn að fá skipið afhent, m. a. þurftu þeir að fara til Berlín. Magnús rómar mjög hjálpsemi og dugnað Jóns Krabbe skrifstofustjóra og Jóns Sveinbjörnssonar í málinu.
"Gylfi" er lengstur íslenzku botnvörpunganna, 150 fet á lengd, en áður var sá lengsti 140 fet. Breiddin er 25 fet. Skipið er 350 smálestir brúttó. Vélin hefir 550 hestöfl en auka má upp í ca. 750. Skipið er vel byggt og vandað og búið öllum nýtízku tækjum. Segir Magnús að því hafi verið haldið furðu vel við, og sé að öllu leyti óskemmt eftir skylduvinnuna í Þýzkalandi. Málning hafi að vísu verið ófáanleg, en tjara verið notuð í staðinn til að verja ryði, og blönduð ýmsum efnum. Ómögulegt telur Magnús að fá botnvörpuskip byggð í Þýzkalandi nú. Þjóðverjar hafa svo margt að vinna fyrir sjálfa sig að þeir komast ekki yfir það. Og svo hvílir á þeim mikil skipasmíðakvöð fyrir Breta. "Gylfi" var fimm sólarhringa hingað frá Esbjerg.
Morgunblaðið. 2 ágúst 1919.
![]() |
B.v. Gylfi RE 235 á siglingu. Ein af sígarettumyndunum. |
Togarinn Gylfi seldur til Patreksfjarðar
Ólafur Jóhannesson, konsúll á Patreksfirði, hefir keypt togarann Gylfa af h/f. Defensor (Magnúsi Magnússyni). Gylfi er nú í Englandi, en fer í eign Ólafs, þegar hann kemur.
Alþýðublaðið. 24 febrúar 1932.
![]() |
||||
B.v. Gylfi BA 77 á veiðum á stríðsárunum. Mynd úr safni mínu.
|
Stærsti togari flotans kemur í dag
Stærsti togari íslenska flotans, er væntanlegur til Reykjavíkur í dag. Eigandi hans er hlutafjelagið Gylfi, Vatnseyri við Patreksfjörð. Togarinn er keyptur í Englandi og kemur hingað frá Grimsby, en þaðan lagði skipið af stað á föstudag. Honum hefir verið gefið nafnið Gylfi BA 77, en það hjet togari sem fjelagið hefir nýlega selt til Færeyja. Gylfi er 188 fet á lengd og 28,5 fet á breidd. Dýptin er 15 fet. Hann er af svonefndri ,.Sun light-gerð" byggður árið 1937. Togarinn er eimknúinn og búinn lágþrýsti túrbínu og er því fyrsta íslenska skipið sem þannig er útbúið. H.f. Gylfi hefir fest kaup á systurskipi í Englandi og mun því verða siglt hingað í byrjun næsta mánaðar. Jóhannes Pjetursson, sem áður var skipstjóri á gamla Gylfa, kemur með hið nýja skip. Gamli Gylfi hefir verið seldur til Vestmanna í Færeyjum og hefir hann fyrir nokkru síðan verið afhentur hinum nýju eigendum, sem er hlutafjelag þar á staðnum.
Morgunblaðið. 11 febrúar 1947.