15.05.2022 14:12
B.v. Fylkir RE 161 að landa afla sínum á Akranesi.
Á þessari ljósmynd, sem er sennilega tekin snemma árs árið 1951, er Fylkir líklega að landa karfa til vinnslu til fiskvinnsluhúsanna á Akranesi. Úranus RE 343 og Neptúnus RE 361, togarar Tryggva Ófeigssonar, lönduðu töluverðum afla þar, að mestu leyti karfa og svo náttúrulega Bjarni Ólafsson AK 67, togari Bæjarútgerðar Akraness. Um þetta leyti voru menn farnir að líta öðrum augum á karfann, að það mætti nýta hann í annað en að moka honum upp til bræðslu. Fylkir var sannarlega fallegt skip en örlög hans urðu frekar dapurleg.
Nýsköpunartogarinn Fylkir RE 161 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir útgerðarfélagið Fylki h/f í Reykjavík. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 55,58 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 784. Skipinu var hleypt af stokkunum 13 október árið 1947 og var síðan fleytt niður til Hull þar sem vélum og katli var komið fyrir og skipið klárað. Fylkir var afhentur eigendum sínum hinn 13 febrúar árið 1948, eða fyrir rétt rúmum 74 árum. Togarinn sökk í Þverálnum um 33 sjómílur norður af Straumnesi 14 nóvember árið 1956. Tundurdufl kom í veiðarfæri skipsins og sprakk við síðu þess með fyrrgreindum afleiðingum. Áhöfnin, 32 menn, komst við illan leik í annan björgunarbátinn. Þeim var síðan fljótlega bjargað um borð í togarann Hafliða SI 2 frá Siglufirði sem hélt með skipbrotsmennina til hafnar á Ísafirði. Nokkrir skipverjar meiddust við sprenginguna en enginn lífshættulega, en 2 skipverjar voru lagðir inn á sjúkrahúsið á Ísafirði. Það má teljast kraftaverki líkast að ekki fór verr og manntjón orðið.
Ein af betri frásögnum sem ég hef lesið um þetta slys er rituð af Sveini Sæmundssyni og birtist hún í tímaritinu Vikunni í desember árið 1972. Heimildarmaður Sveins var að mestu Auðunn skipstjóri.
![]() |
||
B.v. Fylkir RE 161 að landa afla sínum í Akraneshöfn. Ljósmyndari óþekktur.
|
10 nýsköpunartogarinn kominn til Reykjavíkur
Tíundi nýsköpunartogarinn, sem gerður verður út hjeðan frá Reykjavík, kom hingað á sunnudaginn. Er þetta togarinn Fylkir RE 161, eign samnefnds hlutafjelags hjer í bænum, sem einnig á togarann Belgaum. Aðalsteinn Pálsson er skipstjóri á Fylki og fyrsti stýrimaður Ragnar Guðmundsson og fyrsti vjelstjóri Viggó Gíslason. Hjer í Reykjavík verða sett bræðslutæki í Fylki og er gert ráð fyrir að það taki allt að vikutíma, en síðan fer togarinn á veiðar.
Aðalsteinn Pálsson var áður skipstjóri á Belgaum, en nú tekur þar við skipstjórn Páll Sigfússon.
Morgunblaðið. 24 febrúar 1948.