26.05.2022 17:04
3013. Sólborg RE 27. TFIT.
Frystitogarinn Sólborg RE 27 var smíðaður hjá Langsten Slip & Båtbyggeri A/S í Tomrefjord í Noregi árið 1988. 2.707 bt. 812 nettó. 4.079 ha. Wärtsilä Vasa 8R 32 D. 3.000 Kw. 75,90 x 13,00 x 8,32 m. Smíðanúmer 132. Hét fyrst Tasermiut GR 6-395 og var smíðaður fyrir Grönlands Hjemmestyres Trawlervirksomhed í Nuuk í Grænlandi. Frá árinu 1991 er Royal Greenland í Nuuk í Grænlandi eigandi skipsins. Seldur í júní 2009, Nataaqnaq Fisheries Inc. Í St. John´s á Nýfundnalandi, hét þar Labrador Storm (hugsanlega Grænlenskir eigendur). Seldur 16 júlí 2014, Arctic Prime Fisheries í Nuuk í Grænlandi, fær sitt fyrra nafn, Tasermiut GR 6-395. Togarinn var svo seldur í ágúst 2021, Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf, fékk þá nafnið Sólborg RE 27 og er hann gerður út sem frystitogari frá Reykjavík í dag. Sannarlega fallegt skip.
3013. Sólborg RE 27 við bryggju í Örfirisey. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
|
Grænlenskur togari verður ný Sólborg
Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. (ÚR) hefur fest kaup á frystitogaranum Tasermiut sem var áður í eigu Arctic Prime Fisheries á Grænlandi. Arctic Prime fisheries er að hluta til í eigu Brims og ÚR sem eiga hvor sinn 16,5 prósent hlutinn í grænlensku útgerðinni.
Skipið sem legið hefur undanfarna daga við bryggju á Grandanum hefur fengið nýtt nafn og heitir nú Sólborg RE-27.
ÚR hefur áður gert út tvö skip með þessu nafni með góðum árangri, nú síðast línu- og netabát sem smíðaður var í Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku árið 1988, en hafði verið lagt í nokkurn tíma. Hún var sömuleiðis grænlenskt fiskiskip áður en hún kom til Íslands. Nýja Sólborg er 75,9 metrar að lengd og um 2.550 brúttótonn. Skipið var byggt í Noregi árið 1988 fyrir Grænland og er í efsta ísklassa sem fiskiskip eru byggð fyrir. „Þetta er nánast ísbrjótur“, segir Runólfur V. Guðmundssonar, framkvæmdastjóri ÚR, í samtali við 200 mílur um skipið.
„Þetta er gríðarlega öflugt og gott skip sem getur siglt í alveg eins meters þykkum ís leikandi,“ segir Runólfur. Að sögn Runólfs er stefnt að því að fara fljótlega í breytingar og endurnýjun á vinnsludekki. Til stendur að setja upp fullkominn vinnslubúnað til að framleiða fyrsta flokks afurðir fyrir erlenda markaði. Spurður hvort fyrir liggi hvers konar búnað á að kaupa um borð í skipið segir Runólfur svo ekki vera. „Það er núna í skoðun hjá okkur,“ segir Runólfur.
Hann segir fjárfestingu ÚR við kaup á skipinu og búnaði í það verða um þrjá milljarða þegar upp verður staðið. Sólborg sækir aflaheimildir í Barentshaf og mun helst veiða ufsa og karfa. „Við erum að auka reksturinn. Við eigum aflaheimildir fyrir annað skip og ætlum að nýta þær betur,“ aðspurður hver þörfin væri fyrir nýju öflugu skipi innan reksturs ÚR. „Ný áhöfn verður um borð í Sólborg, í raun allt nýir menn sem við erum að ráða. 24 í hvorri áhöfn og tvær áhafnir sem róa svo alls verða 48 manns með atvinnu af skipinu. Svo að það er gert ráð fyrir að menn rói einn og einn,“ segir Runólfur. Hann segist gríðarlega spenntur fyrir komandi tímum og fyrir að koma nýju skipi á sjó.„Þetta er stórt og öflug skip og mun gera góða hluti,“ segir Runólfur.
Ráðnir hafa verið tveir skipstjórar á skipið; Óli Grétar Skarphéðinsson og Jón Frímann Eíríksson. Óli Grétar sem er 43 ára verður skipstjóri í fyrstu veiðiferð skipsins. Óli Grétar er fæddur og uppalinn Ólafsfirðingur. Í dag er hann búsettur á Eskifirð. Óli byrjaði á sjó 1997 og þá á Kleifabergi og var þar þangað til um haustið 2007 þegar hann fór í land til að læra rafvirkjun. Óli Grétar sneri alfarið aftur á Kleifabergið í ársbyrjun 2011, stuttu seinna skráði Óli sig í nám í skipstjórn sem hann lauk með glæsilegum árangri. Óli Grétar hefur síðan 2018 verið yfirstýrimaður á skipum ÚR.
Jón Frímann Eiríksson sem er 45 ára er fæddur og uppalinn Akurnesingur en er í dag búsettur í Borgarnesi. Jón Frímann hóf sjómennskuna 1994 á skipum Haraldar Böðvarssonar og Co ehf. og hann fór í stýrimannaskólann 1997 til 1999. Jón Fríman var stýrimaður og afleysingarskipstjóri hjá Guðmundi Runófssyni hf. frá 2000 og til 2016. Jón Fríman hóf störf hjá Brimi 2016 til að fara á nýsmíðina Akurey AK þar sem hann var stýrimaður og afleysingarskipstjóri. Gamla Sólborg, sem ekki hefur verið á veiðum í nokkurn tíma, hefur verið afskráð í íslenskri skipaskrá og er á sölu. Gert er ráð fyrir að skipið sigli úr höfn í sinn fyrsta túr undir nýjum eiganda í dag.
Morgunblaðið / 200 mílur. 5 ágúst 2021.