18.06.2022 18:51

B.v. Hamranes GK 21 sekkur út af Jökli.

Í dag, 18 júní, er liðin hálf öld síðan Nýsköpunartogarinn Hamranes GK 21 frá Hafnarfirði sökk um 45 sjómílur suðvestur af Jökli, að sunnanverðu við Jökultunguna árið 1972. Togarinn hét áður Egill Skallagrímsson RE 165 og var gerður út af h/f Kveldúlfi í Reykjavík. Það var álitið að skipið hafi siglt á tundurdufl og sokkið af völdum þess. Áhöfnin, 21 skipverji, komust í gúmmíbjörgunarbáta og var stuttu síðar bjargað um borð í togarann Narfa RE 13 frá Reykjavík sem hélt þegar til lands í Keflavík með skipverja Hamranessins. Mikill málarekstur varð af þessum skipsskaða og var álitið að eigendur skipsins hafi sökkt því. Skiptar skoðanir voru á því hvað í rauninni gerðist, en eitt er víst að eigendurnir höfðu lítinn eða engan hag af því að koma skipinu á botninn. Ef togarinn hefði haldið út til mánaðarmóta (1 júlí 1972), gátu eigendur skipsins fengið ríkisstyrk sem var veruleg upphæð í þá daga, og þeim tryggðar greiðslur á öllu kaupi sem ógreitt var til skipverja og þeim sjálfum. Það er því ólíklegt að þeir hafi þar að unnið. Það er kaldhæðni örlaganna að togarinn hafi sokkið sama daginn og hann kom til landsins (18 júní 1947).
Nýsköpunartogarinn Egill Skallagrímsson RE 165 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir hf. Kveldúlf í Reykjavík. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,14 x 4,58 m. Smíðanúmer 1323. Skipaskrárnúmer 39. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 18 júní sama ár og var sá fjórði í röðinni sem kom til landsins. Selt 22 september 1971, Jóni Hafdal og Haraldi Jónssyni í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Nafnabreyting varð á skipinu snemma árs 1972, hét þá Hamranes GK 21. Flestum er nú kunn örlög þessa skips og oft var talað um „Helför“ Egils Skallagrímssonar og málaferlin vegna þessa skipstapa.

Bátapallur var smíðaður á Egil einhvern tímann eftir 1950 og var það aðallega gert vegna síldveiða skipsins. Einnig var settur bátapallur á svipuðum tíma á þrjá aðra nýsköpunartogara en þeir voru, Elliði SI 1, Ísborg ÍS 250 og Surprise GK 4.

                                                

B.v. Hamranes GK 21. Ber sitt fyrra nafn á myndinni. (C) Sæmundur Þórðarson.
 
B.v. Hamranes GK 21 að sökkva.
 
B.v. Hamranes að sökkva.
 
Skipið að hverfa í djúpið.
 
Síðasta stund Hamraness ofansjávar.      (C) Ásgrímur Ágústsson.
 

         Hamranes sökk í blíðskaparveðri

Togarinn Hamranes, RE 165 sökk að kvöldi sunnudagsins, eftir að mikill leki hafði komið að skipinu. Togarinn Narfi RE 13, bjargaði skipshöfninni, 21 manni, sem komizt hafði í gúmbáta. Sökk skipið klukkan 22 og kom Narfi með skipsbrotsmennina til Keflavíkur klukkan 02 í fyrrinótt. Hamranes var eign Haralds Júlíussonar og fleiri, en þeir höfðti keypt togarann af bræðrunum Jóni Hafdal og Haraldi Jónssyni í Hafnarfirði í desember siðastliðnun. Bjarni Guðmundsson sikipstjóri á Hamranesi sagði í viðtali við Mbl. að um fimmleytið á sunnudeginum hefði skipið allt í einu lyfzt upp og hallazt á aðra hliðina, „Ég held að við höfum siglt á eins konar tundnurdufl frá stríðsárunum," sagði Bjarni. — Enginin af áhöfninni var á dekki og nýbúið var að kasta. „Ég varð því ekki vitni að því sem gerðist, var inni í bestikki, en hljóp strax niður og opnaði lestina til þess að aðgæta, hvað gerzt hafði. Fann ég þá að púðurreyk lagði upp úr lestinni." „Við hífuðum trollið upp," sagði Bjarni, „en síðan fór ég aftur niður til þess að aðgæta nánar.
Mér kom þá ekki í hug, að ástandið væri svo alvarlegt, að skipið væri að sökkva. Þegar ég kom niður sá ég að töluverður leki var kominn að skipinu og og var þá sent út neyðarkall. Togarinn Narfi svaraði okkur og var um 8 mílur undan. Ég lét þá blása alla gúmbátana þrjá út og hafði þá klára við síðuna. Ég fór sjálfur síðastur frá borði um kukkan 19.30 og klukkan 20.30 tók Narfi okkur upp úr bátunum, sem við höfðum alla bundna saman. Vorum við allir í tveimur bátum." Togarinn Hamranes fór á veiðar 8. júní síðastliðinn og hélt í fyrstu á veiðar við Grænland. Þar lenti skipið í ís og varð frá að hverfa. Hélt það þá á heimamið og fyrir nokkrum dögum varð bilun um borð, gufurör við spilið bilaði og varð skipið að fara til Þingeyrar til þess að fá gert við rörið. Struku þá af skipinu 4 skipverjar. Á heimamiðum var skipið búið að vera í 5 daga og í því voru, er það sökk um 60 lestir af fiski. Hamranes sökk um 45 sjómílur suðvestur af Jökli, að sunnanverðu við Jökultunguna. Allar dælur voru settar í gang, en þær höfðu ekki undan lekanum. Veður var norðaustan kaldi. Fritz Glahn, sem vann í vélarrúmi, ungur Þjóðverji frá Köln skýrði Mbl. frá atburðum. Fritz sagði að augljóst hefði verið, að lekinn hefði verið miðskips. „Ég var í vélarrúminu og heyrði mikinn skruðning og eftir svo sem tvær klukkustundir var mikill sjór í lestum. Er álitið að tundurdufl hafi sökkt skipinu." Haraldur Júlíusson, útgerðarmaður sagði í viðtali við Mbl. að lítil olía hefði verið í  skipinu, svo að lekinn hlyti að hafa verið meiri en lítill, þar eð skilrúm hefðu verið mikill í skipinu. Skipið var nýkomið tiltölulega úr klössun. Gerðar voru tilraunir til þess að senda Goðann á vettvang með dælur. Hamranes keypti Haraldur Júlíusson eins og áður er getið af bræðrunum Jóni Hafdal og Haraldi Jónssyni í desember. — Áður var skipið í eigu Kveldúlfs og hét þá Egill Skallagrímsson. Togarinn var einn af nýsköpunar togurunum svokölluðu, smíðaður í Selby í Englandi 1947. Vátryggingarupphæð togarans var 15 milljónir króna. Sjópróf fara fram í Hafnarfirði í dag.

Morgunblaðið. 20 júní 1972.
 

B.v. Egill Skallagrímsson RE 165.                   (C) Gísli Bjarnason.

 

      „Egill Skallagrímsson“ kom í gær

Fjórði nýsköpunartogarinn sem byggður er í Bretlandi sigldi fánum skreyttur inn á ytri höfn milli klukkan sex og sjö í gærkveldi. Þessi togari heitir Egill Skallagrímsson RE 165 og er eign h.f. Kveldúlfur. Egill Skallagrímsson er byggður eftir sömu teikningu og hinir fyrri nýsköpunartogarar sem komnir eru. Innrjetting skipsins er þó nokkuð öðruvísi en hinna togaranna m. a. er neðri lúkarinn þrefaldur í stað þess að vera einfaldur. Hvílur eru fyrir 42 skipverja. Egill Skallagrímsson lagði af stað frá Hull s. l. laugardag en kom við í Shields til þess að taka olíu, en þaðan var hann 84 klst. til Reykjavíkur. Skipstjóri á Agli Skallagrímssyni verður hinn þjóðkunni sjósóknarmaður Kolbeinn Sigurðsson. Hann hefir verið skipstjóri á Kveldúlfstogaranum Þórólfur frá því að fjelagið keypti skipið. Fyrsti stýrimaður verður Eyjólfur Ólafsson og fyrsti vjelstjóri Jóhann Jónsson.

Morgunblaðið. 19 júní 1947.




 
 

 

Flettingar í dag: 326
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 276
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 1057972
Samtals gestir: 76542
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 17:27:57