02.07.2022 09:09
B.v. Surprise GK 4 LBTH / TFSC
Botnvörpungurinn Surprise GK 4 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska sjóherinn. Hleypt af stokkunum í maí 1919, en skipið ekki klárað. Hét Samuel Martin í þeirra eigu (Admiralty no: 4255). Seldur sama ár Hellyers Brothers Ltd í Hull, og létu þeir klára smíði skipsins og fengu það afhent í mars árið eftir (1920). Hét hjá þeim Field Marshal Plumer H 174. 313 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,11 x 7,22 x 3,86 m. Smíðanúmer 898. Togarinn var svonefnt stjórnarskip, þ.e. eitt af þeim skipum sem breska stjórnin lét smíða til stríðsnota, en þessi togari sem og fleiri, var þó ekki hleypt af stokkunum fyrr en eftir stríð. Seldur í nóvember 1924, Einari Þorgilssyni, Ólafi Tryggva Einarssyni og Þorgils G Einarssyni í Hafnarfirði. Fékk nafnið Surprise GK 4, eftir skútu sem Einar hafði átt og reynst happaskip. Það gerði einnig þetta skip hans, mikið happa og aflaskip. Frá 4 nóvember 1939 er Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði eigandi togarans. Surprise stundaði síldveiðar yfir sumartímann eins og aðrir íslenskir togarar gerðu á 3 og 4 áratugnum og aflaði vel. Seldur Sæfelli h/f í Vestmannaeyjum árið 1945, fær nafnið Helgafell VE 32. Seldur Oddi Helgasyni í Reykjavík í júní árið 1952. Hann selur togarann í brotajárn og er hann rifinn í Bo'ness í Skotlandi sama ár.
Tryggvi Ófeigsson kunni best að segja frá kaupum Einars Þorgilssonar á togaranum Surprise. Gefum honum orðið" Þegar ég kom af síldinni um haustið 1924, fór ég aftur stýrimaður á Walpole. Á miðju hausti (19 nóv), er við vorum í höfn á Walpole, að hringt er í til mín og sagt í símann: "Hér er Einar Þorgilsson í Hafnarfirði. Mig vantar skipstjóra á togara, sem ég er að kaupa úti í Englandi af Hellyer, og hann þarf að vera kominn"po stoende fod"sá skipstjóri um borð í Íslandið annað kvöld á leið til Leith. Öll lífstíð er á fleygiferð". Tryggvi lét til leiðast og fór út til Leith með Íslandinu. Var hann kominn þangað 23 nóvember og degi síðar til Hull. Gefum honum aftur orðið þegar hann kemur um borð í togarann sem Einar keypti. "Þetta var hið álitlegasta skip, en þó hafði Einar viljað fremur annan togara, sem Hellyers átti, Allanby,en þann togara vildi Hellyers ekki selja. Hann strandaði síðar við Grindavík. Orlando(annar Hellyers bróðirinn, hinn hét Owen) sagði mér, að sér væri minnisstætt, hve Einar hefði sótt fast að fá Allanby, og kom þar fram sem víðar, að Einar Þorgilsson lét ekki af sínu fyrr en í fulla hnefana. Hann margsagði, þegar þeir voru að ræða um togarakaupin: "I want Allanby" Svo mörg voru þau orð.Tryggvi var fyrsti skipstjóri á Surprise og var á honum tvo túra.
Tryggvasaga Ófeigssonar.
Ásgeir Jakobsson 1979.
![]() |
B.v. Surprise GK 4 á siglingu. Sígarettumynd stór í minni eigu. |
„Surprise“ GK 4
Nýr togari kom til Hafnarfjarðar í gær. Hefir Einar Þorgilsson útgerðarmaður keypt hann í Englandi. Togarinn er 4 ára gamall og heitir „Surprise“.
Morgunblaðið. 12 desember 1924.
![]() |
||
B.v. Surprise GK 4 á útleið frá Hafnarfirði á stríðsárunum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
|
Síldarafli togaranna
Allir togarar eru nú hættir síldveiðum og herpinótaveiði virðist vera að hverfa, en reknetaveiði að glæðast. Þessir togarar eru hættir síldveiðum og hafa þeir aflað alls í sumar mál og tunnur, sem hér segir:
Garðar 19.259,
Surprise 17.886,
Tryggva gamli 16.400,
Kári 13.360,
Arinbjörn hersir 11.040,
Egill Skallagrímsson 13.182, og
Skallagrímur 12.812.
Garðar, Surprise, Egill Skallagrímsson og Arinbjörn hersir fara heimleiðis. Kári og Tryggvi gamli byrja karfaveiðar og leggja aflann á land í Djúpuvík. Skallagrímur er byrjaður karfaveiðar.
Nýja dagblaðið. 25 ágúst 1936.
![]() |
||||
B.v. Surprise GK 4 á leið til löndunar í Djúpavík. (C) Sigurjón Vigfússon.
|
Hálfa skipið með járnfarminn
leggur af stað
Hálfa Liberty-skipið, sem Tíminn skýrði frá um daginn og birti mynd af, er nú að verða ferðbúið til hafsiglingar sinnar með tundurspillinn innanborðs. Í fyrrakvöld var búið að koma brotajárninu að mestu úr tundurspillinum fyrir í því og búa það til ferðar, og var það dregið innan úr Elliðaárvogi í Reykjavíkurhöfn í fyrrakvöld, en þar lá það í gær og þótti kynlegur farkostur. Er nú væntanlegur þýzkur dráttarbátur, sem á að draga hálfa skipið út, svo og togarann Helgafell, sem seldur hefir verið til niðurrifs. Það er Keilir h.f. sem á þetta skip og farm þess og sendir út til sölu.
Tíminn. 23 júlí 1952.